Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 38/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 18. gr. 3. mgr.  

Afbrigðileg viðskipti - tekjufærsla - Sönnun

Málavextir voru þeir, að kærandi, sem var hlutafélag, seldi þann 20.11. 1977 húseign nokkra einum af hluthöfum félagsins. Var söluverðið ákveðið kr. 1.000.000.

Skattstjóri taldi söluverð húseignarinnar vera verulega lægra en almennt ætti sér stað í slíkum viðskiptum. Af þeirri ástæðu og með tilliti til sambands kaupanda við kæranda og með vísun til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt, og þess, að verðmæti það sem án samningsins hefði runnið til kæranda lægi ekki fyrir, yrði af þeim sökum að áætla kæranda tekjur til skatts. Taldi skattstjóri skattgjaldstekjur kæranda hæfilega áætlaðar kr. 4.000.000.

Kærandi mótmælti teknaáætlun skattstjóra. Húsið væri gamalt timburhús með steyptum kjallara, hæð, ris og kjallari. Væri húsið mjög illa farið og alls ekki nothæft án verulegrar endurnýjunar. Hefði húsið lítið verið notað síðan árið 1966 og ekki verið haldið við frá þeim tíma. Næstu ár þar á undan hefði húsið verið notað sem verbúð fyrir starfsfólk kæranda. Margar tilraunir hefðu verið gerðar til þess að selja húsið og það m.a. margsinnis verið auglýst til sölu á staðnum og boðið til kaups þeim aðilum, er líklegir þættu til þess að vilja kaupa það. Hefði þetta engan árangur borið. Á fyrri hluta árs 1977 hefði hins vegar náðst samkomulag milli kæranda og hreppsfélagsins, að hreppurinn keypti húsið og greiddi fyrir það kr. 1.000.000. Allir hluthafar í kæranda hefðu samþykkt þá sölu og talið hana vel viðunandi. Nokkru síðar hefði það gerst, að einn hluthafa í kæranda, er og hefði átt sæti í stjórn hlutafélagsins, hefði óskað eftir því að fá að ganga inn í fyrirhuguð kaup hreppsins á húseigninni. Hefði sveitarstjórnin síðan samþykkt, að hluthafinn gengi inn í kaupin.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins er húseignin E..... byggð 1920 og talin 638 m3. Fasteignamat húseignarinnar var í árslok 1976 talið kr. 4.752,000 og kr. 6.304.000 í árslok 1977. Húsið stendur á leigulóð, sem talin er 600m2. Fasteignamat hennar var kr. 243.000 í árslok 1976, en kr. 326.000 í árslok 1977.

Eigi þykir vera fyrir hendi heimild til að skattleggja kæranda eftir 3. mgr. 18. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt vegna sölu á nefndri húseign. Ber því að taka kröfu hans til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja