Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1401/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 37. gr.  

Skattframtali hafnað - Frávísun

Málavextir voru þeir, að kærandi taldi ekki fram á réttum tíma gjaldárið 1978. Skattframtal kæranda barst skattstjóra þann 3. júlí 1978, en skattskrá var lögð fram þann 22. ágúst 1978. Álagning opinberra gjalda á kæranda árið 1978 var reist á áætlun skattstjóra. Með úrskurði, dags. þann 2. nóvember 1978, ákvað skattstjóri, að álögð gjöld skyldu óbreytt standa. Varðandi forsendur sagði m.a. í úrskurði skattstjóra, að ekki yrði um lækkun gjalda að ræða, þegar tekið hefði verið tillit til skattskyldra umframfyrninga og 50% söluágóða vegna sölu á jarðýtu svo og viðurlaga. Ennfremur skorti rekstraryfirlit vegna tilgreindrar starfsemi kæranda í félagi við annan aðila.

Kærandi krafðist þess, að innsent skattframtal yrði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra. Að því er snerti sölu á jarðýtu lagði kærandi fram ljósrit af makaskiptasamningi, dags. 21. maí 1977, þar sem fram kom, að jarðýtan var látin í skiptum fyrir aðra vinnuvél. Skattstjóri hafði byggt á því, að salan hefði farið fram 20. janúar 1977, en jarðýtan var keypt í marsmánuði 1973. Þá var gerð grein fyrir því, að um engan sameiginlegan rekstur hefði verið að ræða á árinu 1977. Eignirnar hefðu hins vegar ekki verið seldar og því hefði einungis efnahagsreikningur verið gerður.

Ríkisskattanefnd taldi, að innsent skattframtal væri með þeim hætti, að ekki væri unnt að byggja álagningu opinberra gjalda á því. Samkvæmt skattframtalinu væri framfærslueyrir kæranda neikvæður um verulega fjárhæð. Óskýrðir væru liðir s.s. byggingarkostnaður húseignar í smíðum kr. 6.500.000 og verkábyrgð til eins árs að fjár­hæð kr. 800.000 í efnahagsreikningi sameiginlegrar starfsemi kæranda og annars aðila pr. 31.12. 1976. Var kærunni vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja