Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 137/1979

Gjaldár 1976

Lög nr. 68/1971, 38. gr., 37. gr.  

Vefenging skattframtals - Upplýsingaskylda bókhaldsskyldra skattaðila - Sönnun

Skattstjóri lækkaði vegna ófullnægjandi svars gjaldfærðan ferðakostnað um kr. 500.000 og gjaldfærðan risnukostnað um kr. 1.500.000 hjá einu af stærstu fyrirtækjum landsins.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að ákvarðanir skattstjóra yrðu staðfestar með svofelldum rökum varðandi ferðakostnað:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur og Vísast til röksemda hans. M.a. þyrfti að gera nánari grein fyrir ferðum flokkuðum á nöfn og starfsheiti starfsmanna á aðalskrifstofu.“

Og eftirfarandi rökum viðvíkjandi gjaldfærðum risnukostnaði:

„Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra. Samkvæmt sundurliðun gjaldanda eru vissir liðir færðir sem risna sem vafa er undirorpið hvort færa megi til frádráttar. Ekki hefur kærandi gert nánari grein fyrir risnu þessari eins og krafist hefur verið.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Með tilliti til eðlis rekstrar kæranda svo og umfangs hans, verður að telja, að eigi sé hægt að ætlast til, að kærandi skili svo ítarlegri skýrslu um ferða- og risnukostnað eins og skattstjóri hefur krafist og byggir úrskurð sinn á. Skattstjóri þykir eigi hafa fært nægilega gild rök að því að með tilgreindum kostnaði hafi verið færð útgjöld óviðkomandi rekstri kæranda. Krafa kæranda er tekin til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja