Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 26/1979

Gjaldár 1972, 1973

Lög nr. 68/1971, 38. gr., 37. gr.  

Vefenging skattframtals - Áætlun tekna - Bókhald

Málavextir voru þeir, að rannsókn fór fram á vegum rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á skattframtölum kæranda árin 1972 og 1973 og bókhaldi fasteignasölu, er kærandi starfrækti. Í bréfi rannsóknardeildarinnar til kæranda var þess getið, að athugunin hefði m.a. leitt í ljós ýmsa annmarka á því bókhaldi, sem skattframtöl nefndra ára hefðu verið byggð á. Mætti í því sambandi nefna, að fyrirfram tölusettir reikningar og kvittanir vegna sölulauna lægju ekki fyrir og ekki væri getið í bókhaldi fasteignasölunnar um alla þá sölu fasteigna, er fasteignasalan virtist hafa annast. Gæti því bókhaldið að mati ríkisskattstjóra ekki talist nægilega örugg heimild um rekstur fasteignasölunnar og tekjur kæranda. Þá hefði athugun á skattframtölunum leitt í ljós, að framfærslueyrir kæranda árið 1971, eins og skattframtölin sýndu hann, væri óeðlilega lágur.

Með tilvísun til þess, er að ofan greinir og skýrslu rannsóknardeildar var skattframtölum kæranda nefnd ár vikið til hliðar og tekjur áætlaðar.

Umboðsmaður kæranda mótmælti álagningunni sem of hárri í kæru til ríkisskattanefndar. Í fyrsta lagi væri framfærslueyrir kæranda, skv. skattframtali árið 1972 nægur og í öðru lagi væri bókhald kæranda efnislega rétt að öðru leyti en því að upplýst væri, að ekki hefðu verið bókfærð sölulaun að fjárhæð kr. 200.400. Krafðist umboðsmaðurinn þess, að endurálagning yrði miðuð við ofannefnda fjárhæð og gjöld reiknuð skv. því.

Af hálfu ríkisskattstjóra var í málinu þess krafist, að úrskurður ríkisskattstjóra yrði staðfestur.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Af gögnum máls kemur fram, að bókhald fasteignasölunnar var að formi til ófullnægjandi, en ekki kemur fram í skýrslu rannsóknardeildar að um rangfærslur hafi verið að ræða. Hins vegar er ljóst, að teknaskráning er röng þ.e. kærandi hefur ekki bókfært öll móttekin sölulaun. Ekki er fallist á þá kröfu kæranda, að miða teknahækkun við kr. 200.400 þar eð ætla má með hliðsjón af gögnum málsins, að vanfærð sölulaun séu hærri en það. Telja verður þó, að áætlun ríkisskattstjóra sé hærri en efni standa til og þykir teknahækkun gjaldár 1972 hæfilega ákveðin kr. 250.000 og gjaldár 1973 kr. 500.000.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja