Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 40/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 47. gr.  

Viðurlög

Kærandi hafði fært upp inneign í banka kr. 2.000.000, en taldi innstæðu þessa skattfrjálsa. Skattstjóri taldi hins vegar, að svo væri ekki og færði inneignina til eignar og áætlaði vaxtatekjur kr. 280.000 og færði til tekna. Í kæru til ríkisskattanefndar lagði kærandi fram ljósrit af bankabókum. Þar kom fram, að innstæður 31.12. 1977 voru kr. 2.048.354 og vextir kr. 115.604. Kærandi taldi, að með hliðsjón af skuldum sínum væru vextirnir skattfrjálsir og hluti af innstæðu sömuleiðis.

Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar athugasemdir og kröfur:

„Fallist er á, að vaxtagreiðslur til tekna verði ákvarðaðar með hliðsjón af nú fram komnum upplýsingum, en krafist er að beitt verði 25% viðurlögum á skattskyldan hluta vaxtanna.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Samkvæmt efnahagsreikningi kæranda eru víxilskuldir hans kr. 2.491.721 eða hærri en tilgreindar bankainnstæður. Með tilvísan til þessa, sbr. 21. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt eru bankainnstæður kæranda og vextir af þeim skattskyldar og er framtalið leiðrétt til samræmis við það. Hins vegar þykja ekki efni til að beita viðurlögum þar eð upplýsingar um bankainnstæðu komu fram á framtali kæranda.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja