Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 61/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 47. gr.  

Viðurlög

Málavextir voru þeir, að í skattframtali kæranda gjaldárið 1978 var tekið fram, að kærandi, sem var bólstrari, hefði unnið fyrir sama fyrirtækið allt árið 1977. Fyrirtæki þetta var endursöluaðili og innheimti kærandi ekki söluskatt af vinnu sinni. Við athugun skattstjóra á framtali kæranda kom fram launamiði frá bæjarfélagi einu að upphæð kr. 846.300. Skattstjóri óskaði eftir, að kærandi legði fram afrit af sölunótum fyrir bólstrun árið 1977. Athugun á sölunótum leiddi í ljós, að greiðsla frá bæjarfélaginu var, óframtalin. í framhaldi af þessu ritaði skattstjóri kæranda bréf og tilkynnti honum, að tekjur hans hefðu verið hækkaðar um kr. 1.000.000 að viðbættum 25% viðurlögum kr. 250.000 þar eð teknaskráning virtist ekki fullnægjandi. Ennfremur var tekið fram, að breyting á söluskatti yrði send síðar.

Kærandi svaraði þessu bréfi skattstjóra og fullyrti, að hér hefði ekki verið um ásetning að ræða heldur óskiljanleg gleymska af sinni hálfu. Kærandi óskaði eftir að fallið yrði frá áætlun en eftirfarandi greinargerð lögð til grundvallar við ákvörðun viðbótartekna:

Bæjarsjóður ..... fyrir bólstrun kr. 846.300
- söluskattur " 141.044
705.256

Efniskostnaður samkvæmt meðfylgjandi nótu " 220.000
485.256

+ 25% viðurlög skv. 47. gr. " 121.314
skattalaga 606.570

Skattstjóri féllst ekki á þessa málsmeðferð og voru tekjur kæranda hækkaðar um kr. 1.083.340. Úrskurð sinn byggði skattstjóri á því, að þar sem svo stór hluti tekna kæranda hefði fallið niður fyrir gleymsku væri hætt við, að aðrar minni fjárhæðir hefðu einnig gleymst.

Í kæru til ríkisskattanefndar krafðist kærandi þess, að úrskurði skattstjóra yrði hnekkt og greinargerð sín lögð til grundvallar.

Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Með tilliti til gagna málsins þykir eiga að heimila kæranda til frádráttar efniskostnað kr. 220.000 og reikna viðurlög 25% í samræmi við það eftir 2. mgr. 47. gr. skattalaga. Að öðru leyti er úrskurður skattstjóra staðfestur“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja