Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 626/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 96/1978  

Viðurlög - Heimild til viðurlagabeitingar.

Málavextir voru þeir, að skattframtali kæranda var ekki skilað á réttum tíma árið 1978. Tók skattstjóri skattframtalið til álagningar með 15% viðurlögum.

Umboðsmaður kæranda fór fram á, að fallið yrði frá beitingu viðurlaga. Gerði hann grein fyrir ástæðum til þess dráttar, er varð á skilum skattframtals kæranda, en það barst skattstjóra þann 27. apríl 1978. Hafði umboðsmaðurinn, er rak lögmannsskrifstofu, framtalsgerð kæranda með höndum. Umboðsmaðurinn kvað ástæður til dráttar á skilum annir hans og misskilningur að því er varðaði lokaskilafrest og ennfremur síðbúin gögn til framtalsgerðarinnar.

Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Á það skal minnt að þau atriði sem voru völd að drætti á framtalsskilum kæranda geta hugsanlega verið undirstaða almennrar bótakröfu hans á hendur umboðsmanni sínum. Meðferð slíkra mála heyrir ekki undir stjórnsýsluvaldshafa.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Svo sem mál þetta liggur fyrir hefur ekki verið sýnt fram á, að þær ástæður hafi verið fyrir hendi, sem gefa tilefni til að falla frá beitingu viðurlaga. Við ákvörðun sérstaks skatts af atvinnurekstri skv. 10. gr. bráðabirgðalaga nr. 96/1978, um kjaramál, sbr. 10. gr. laga nr. 121/1978, um kjaramál, hefur skattstjóri lagt til grundvallar hreinar tekjur kæranda af atvinnurekstri að viðbættum 15% viðurlögum. Téð lagagrein veitir eigi heimild til beitingar viðurlaga með þessum hætti og ber því að fella þau niður. Stofn til álagningar sérstaks skatts af atvinnurekstri ákveðst kr. 3.920.339.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja