Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 521/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 77/1977  

Skyldusparnaður - Viðmiðunartekjur

Kærður var til lækkunar álagður skyldusparnaður og launaskattur gjaldárið 1978 og til niðurfellingar sérstakur tekjuskattur skv. bráðabirgðalögum nr. 96/1978, um kjaramál.

Hreinar tekjur kæranda af sjálfstæðri starfsemi, sem voru læknisstörf, samkvæmt rekstursreikningi gjaldárið 1978 námu kr. 1.383.499 og launatekjur kr. 2.075.365.

Við útreikning á skyldusparnaði samkvæmt lögum nr. 77/1977 beitti skattstjóri við hækkun skattgjaldstekna skv. 2. mgr. 1. gr. laganna viðmiðunarstofni, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 119 frá 1965, um launaskatt, varðandi mat á vinnu við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi fyrir lækna kr. 4.576.000 og dró þar frá launatekjur kæranda og hreinar tekjur hans af hinni sjálfstæðu starfsemi. Í samræmi við útreikning þennan hækkuðu vergar tekjur til skatts, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 77/1977 um kr. 1.117.136 og töldust í þessu tilliti kr. 4.342.213, og í samræmi við 2. mgr. 1. gr. s.l. nam hækkun skattgjaldstekna kr. 1.014.113 og námu kr. 3.810.077.

Við ákvörðun launaskatts miðaði skattstjóri við 51% af meðaltalsmiðmiðun árslauna lækna eða 51% af kr. 4.576.000.

Kærandi taldi að í tilviki hans ætti að ganga út frá kr. 4.100.000 miðað við heilt ár. Miðað við 10 mánaða starf kæranda og að hann hefði einungis unnið sem svaraði þriðjungi af starfstíma sínum á stofu bæri að reikna viðmiðunartekjurnar sem næst kr. 1.150.000 og miða við þann stofn. Rétta viðmiðunin væri reyndar hreinar tekjur kæranda af rekstri stofunnar kr. 1.383.499. Sú upphæð væri jafnframt þau laun, er fengjust úr rekstrinum.

Ríkisskattstjóri féllst á, að við ákvörðun stofna yrði tekið tillit til fram kominna upplýsinga.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Með hliðsjón af atvikum máls þessa þykir við ákvörðun skyldusparnaðar skv. 1. gr. laga nr. 77/1977, launaskatts skv. 4. gr. laga nr. 14/1965, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 119/1965 og sérstaks tekjuskatts skv. 9. gr. bráðabirgðalaga nr. 96/1978, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 334/1978, hæfilegt mat á vinnu kæranda við eigin atvinnurekstur gjaldárið 1978 kr. 1.500.000.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja