Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1283/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 8/1972 36. gr.  

Aðstöðugjald - Atvinnurekstur

Álagt aðstöðugjald var kært til niðurfellingar.

Málavextir voru þeir, að skattstjóri gerði kæranda að greiða aðstöðugjald af verslun hans með notaðar bifreiðar og lagði til grundvallar heildarreksturskostnað kæranda vegna þessara viðskipta þ.m.t. kaupverð seldra bifreiða. Taldi skattstjóri kæranda aðstöðugjaldsskyldan vegna þessarar starfsemi skv. 36. gr. laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga með því að líta yrði svo á með tilliti til umfangs bifreiðaviðskipta kæranda undanfarin ár og annarra atvika að hér væri um atvinnurekstur að ræða, enda væri engan veginn unnt að telja að um væri að ræða endurnýjun einkabifreiðar og tekjur af starfseminni væri verulegur þáttur í tekjuöflun kæranda.

Í forsendum úrskurðar skattstjóra sagði svo um umfang starfseminnar:

„Kærandi er lögregluþjónn að aðalatvinnu. Undanfarin ár hefur hann stundað í stórum stíl kaup og sölu notaðra bifreiða. Á árinu 1977 keypti kærandi t.d. 13 bifreiðir og sendi 10. Kaupverð bifreiðanna 13 var samkvæmt upplýsingum kæranda kr. 5.690.000.-. Auk þess taldi kærandi sig hafa kostað til hinna seldu bifreiða kr. 445.494.- í varahlutum, skráningarkostnaði o.fl. Sú upphæð lækkaði við endurskoðun skattstjóra í kr. 359.209.-. Þar af námu varahlutakaup kr. 262.593.-. Með leiðréttingum skattstjóra varð upphæð hreinna tekna af viðskiptum þessum kr. 581.491.-.

Brúttótekjur kæranda á framtali 1978 námu kr. 4.874.872.-. Árið 1976 voru bílakaup kæranda 16 og sölur sömuleiðis 16 samkvæmt upplýsingum hans. Hreinar tekjur án leiðréttingar skattstjóra voru kr. 491.630.- en brúttótekjur á framtali 1977 kr. 2.869.929.-.

Á árinu 1975 voru kaup 19 og sölur 19, hreinar tekjur, leiðréttar af skattstjóra kr. 547.723.- og brúttótekjur á framtali 1976 kr. 2.229.978.-.

Á framtali 1975 eru hreinar tekjur kæranda af bifreiðaviðskiptum kr. 231.710.- og brúttótekjur kr. 1.575.766.-. Sömu tölur á framtali 1974 eru 72.046.- og 945.530.-.

Af yfirliti þessu sést hvort tveggja, að fjöldi þeirra bifreiðaviðskipta, sem kærandi gerir á ári hverju er miklu meiri en eðlilegt getur talist hjá aðila, sem hefur það markmið eitt að endurnýja einkabifreið sína, og tekjur af starfsemi þessari eru verulegur þáttur í tekjuöflun hans, komast hæst árið 1975 í tæplega 25% af brúttótekjum.“

Af hálfu kæranda var því mótmælt, að hér væri um atvinnurekstur að ræða, enda væru engin skörp skil milli atvinnurekstrar í þessum efnum og eðlilegrar endurnýjunar og engar reglur, sem þar um giltu. Var þess því krafist, að álagt aðstöðugjald yrði alveg fellt niður.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur.

Í niðurstöðu ríkisskattanefndar segir svo:

„Með tilliti til framanritaðs og þá einkum þess, hve kaup og sölur kæranda á bifreiðum eru tíðar og tekjur af viðskiptum þessum þykja eigi óverulegur þáttur í tekjuöflun hans þykir rétt að líta á þessi viðskipti sem sjálfstæða atvinnu í skilningi 1. mgr. 36. gr. laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga. Er úrskurður skattstjóra því staðfestur.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja