Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 324/1979

Gjaldár 1975

Reglugerð nr. 81/1962 18. gr.   Lög nr. 8/1972 40. gr  

Álagning aðstöðugjalds - Kæra sveitarfélags

Málavextir voru þeir að, skattstjórinn í Reykjavík gerði verktakafyrirtækinu X hf. að greiða aðstöðugjald kr. 6.156.100 til Reykjavíkurborgar gjaldárið 1975 á grundvelli skattframtals félagsins. Með bréfi, dags. 5. ágúst 1975, til skattstjóra var af hálfu X hf. gerður fyrirvari við álagningu aðstöðugjalds í Reykjavík gjaldárið 1975 þess eðlis, að aðstöðugjaldið yrði lækkað tilsvarandi við þá álagningu aðstöðugjalds á félagið, sem kynni að fara fram í öðrum sveitarfélögum.

Með útkomu skattskrár í Vestmannaeyjum þann 28. júlí 1975, var félaginu gert að greiða aðstöðugjald vegna starfsemi þess þar á árinu 1974, og byggðist gjaldið á áætlun og nam kr. 750.000.-.

Að fengnum upplýsingum um starfsemi kæranda og rekstraraðstöðu á árinu 1974 ákvað skattstjórinn í Reykjavík með úrskurði, dags. þann 16. mars 1979, lækkun aðstöðugjalds í Reykjavík um kr. 2.088.300 eða úr kr. 6.156.100 í kr. 4.067.800 á þeim forsendum að með hliðsjón af upplýsingum um rekstur X hf. árið 1974, umfangi og eðli starfsemi þess í Vestmannaeyjum það ár, starfsaðstöðu þar og tímalengd starfseminnar, yrði skv. 40. gr. laga nr. 8/197 2 að telja fyrirtækið hafa haft með höndum starfsemi í Vestmannaeyjum á árinu 1974, sem aðstöðugjaldsskyld væri þar, en hlutfall tekna aflaðra í Vestmannaeyjum teldist vera 30,7%. Heildaraðstöðugjaldsstofn ákvað skattstjóri kr. 426.123.667, er skiptist þannig að aðstöðugjaldsstofn í Vestmannaeyjum var talinn kr. 113.213.489 en í Reykjavík kr. 312.910.178. Gjald-stigi á báðum stöðum var 1,3%.

Af hálfu Borgarlögmannsins í Reykjavík f.h. Reykjavíkurborgar var úrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar og þess krafist, að hann yrði úr gildi felldur og álagt aðstöðugjald í Reykjavík 1975 yrði látið óbreytt standa. Var af hálfu kæranda vísað til rökstuðnings kröfunni til lýsingar X hf., er fyrir lá í gögnum málsins, á aðstöðu sinni í Vestmannaeyjum, þar sem fram kæmi, að Viðlagasjóður hefði séð um útvegun leiguhúsnæðis fyrir starfsmenn, matur hefði verið keyptur í mötuneyti á staðnum, bókhald og yfirstjórn verka hefði verið í skrifstofu félagsins í Reykjavík og félagið ætti engar eignir utan Reykjavíkur og hefði hvergi annars staðar útibú eða heimilisfasta atvinnu-stofnun. Væri því skilyrðum 40. gr. laga nr. 8/1972 eigi fullnægt til álagningar aðstöðugjalds á félagið í Vestmannaeyjum.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að úrskurður skattstjórans í Reykjavík yrði staðfestur.

Niðurstaða ríkisskattanefndar er svohljóðandi:

„Á skattári því sem hér um ræðir, fór starfsemi X hf. fram í ýmsum sveitarfélögum á landinu án þess að séð verði, að félagið hafi haft aðalatvinnurekstur sinn í einhverju þeirra. Þykir því með tilvísun til 1. málsl. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 8/1972 um tekjustofna sveitarfélaga bera að telja félagið aðstöðugjaldsskylt í heimilissveit sinni. Eigi hefur verið leitt í ljós, að starfsemi félagsins og rekstraraðstaða í Vestmannaeyjum hafi á umræddu skattári verið með þeim hætti, að um sé að ræða heimilisfasta atvinnustofnun eða útibú þess þar samkvæmt a-lið 1. mgr. 40. gr. áðurgreindra laga.“

Samkvæmt þessu var krafa kæranda, Borgarlögmannsins í Reykjavík f.h. Reykjavíkurborgar tekin til greina og gjaldstofn til álagningar aðstöðugjalds í Reykjavík ákveðinn kr. 426.123.667.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja