Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 459/1979

Gjaldár 1978

Reglugerð nr. 119/1965   Lög nr. 14/1965  

Launaskattur - Þangöflun

Skattstjóri lagði launaskatt á nettótekjur kæranda af þangskurði með því að lög og reglugerðir um launaskatt heimiluðu ekki að undanþiggja vinnu við þangskurð álagningu skatts þessa.

Kærandi krafðist niðurfellingar á þeim forsendum, að starfsemi þessari mætti jafna við fiskveiðar eða hlunnindanytjar í landbúnaði.

Ríkisskattstjóri féllst á kröfur kæranda með svofelldum rökum:

„Telja verður nærlægt að álykta að líkja megi þangöflun við nytjun á hlunnindum bújarða. Slík starfsemi er undanþegin launaskatti skv. ákvæðum 3. mgr. 2. gr. laga nr. 14, 1965 sjá 1. málsl. 1. mgr. 1. tl. 10. gr. reglug. nr. 119, 1965.

Í framhaldi af þessu verður niðurstaðan sú, að ekki beri að gera kæranda að standa skil á launaskatti þeim sem hann kærir til niðurfellingar.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Með skírskotun til 1. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, og 1. tl. 10. gr. reglugerðar nr. 119/1965, um launaskatt, er krafa kæranda tekin til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja