Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1014/1979

Gjaldár 1978

Reglugerð nr. 119/1965   Lög nr. 14/1965  

Launaskattur - Verklagsregla - Kæruheimild

Skattstjóri lagði launaskatt á kæranda vegna vinnu við eigin atvinnurekstur hans og lagði til grundvallar við þá álagningu meðaltalsviðmiðunarreglur til mats á slíkri vinnu fyrir gjaldárið 1978. Í tilfelli kæranda var byggt á árslaunum að fjárhæð kr. 1.925.000.

Af hálfu kæranda var þess krafist, að gjaldstofn launaskatts miðaðist við 10% brúttótekna af fasteignaleigu. Meginhluti tekna kæranda var af þeirri rót runninn. Var þess því krafist, að launaskattur yrði lækkaður í samræmi við þetta.

Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar kröfur:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Lækki ríkisskattanefnd hins vegar launaskattsstofn er gerð krafa um, að viðmiðunarlaun til gjalda skv. lögum nr. 121/1978 verði leiðrétt til samræmis.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar er tekið fram, að húsaleigutekjur af húseign kæranda séu samkvæmt rekstrarreikningi fyrir árið 1977 kr. 3.479.430. Um það bil 86% brúttótekna kæranda séu húsaleigutekjur. Þá segir svo í úrskurði nefndarinnar:

„Svo sem málum er hér háttað þykir rétt að meta 10% brúttóhúsaleigutekna sem stofn til launaskattsálagningar, sbr. verklagsreglu frá 30. júní 1971 og 6. og 9. gr. reglugerðar nr. 119/1965, um launaskatt. Skv. framanrituðu ákvarðast stofn til launaskatts kr. 347.943 og launaskattur kr. 12.178.“

Að því er snertir þá kröfu ríkisskattstjóra sem varðar hækkun viðmiðunarlauna skv. bráðabirgðalögum nr. 96/1978, um kjaramál, IV. kafla, segir svo í úrskurðinum:

„Með því að eigi liggur fyrir frá hendi skattstjóra kæranlegur úrskurður viðvíkjandi álagningu opinberra gjalda skv. bráðabirgðalögum nr. 96/1978, sbr. nú lög nr. 121/1978, þykir bera að vísa kröfu ríkisskattstjóra frá að því er þá álagningu snertir.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja