Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1228/1979

Söluskattur 1978

Lög nr. 10/1960  

Söluskattur - Bókhald - Nýskráning bifreiða - Viðurlög

Málavextir voru þeir, að rannsóknardeild ríkisskattstjóra tók til athugunar söluskattsskil kæranda, er rak bifreiðaumboð, fyrir mánuðina janúar til og með júní 1978. Leiddi sú athugun til þess, að ríkisskattstjóri gerði kæranda með bréfi dags. 7/11 1978 að greiða viðbótarsölugjald kr. 16.637.291 fyrir áðurnefnt tímabil 1978 og viðurlög kr. 5.664.286 af þessari hækkun sölugjaldsins reiknuð fram til 16/11 1978.

Kærandi byggði kröfu sína um niðurfellingu Viðbótarsölugjaldsins fyrir tímabilið janúar til og með júní 1978 á því, að hann hefði með söluskattsskýrslu fyrir septembermánuð 1978 staðið að fullu skil á sölugjaldi af vanframtalinni veltu þessa tímabils. Til stuðnings kröfum sínum lagði kærandi fram eftirgreind gögn:

1) Yfirlit yfir sölu ársins 1978, þar sem fram kom sala eftir vörutegundum kæranda.

2) Yfirlit yfir sölu bifreiða sundurliðaðri eftir mánuðum og skrásetningarnúmerum með innfærslu á skrásetningarmánuði bifreiðarinnar hjá bifreiðaeftirlitinu.

3) Yfirlit yfir bifreiðasölu færða til þess mánaðar, sem skráning fór fram í.

Í kröfugerð ríkisskattstjóra sagði m.a.:

„Varðandi mismun þann á framtalinni veltu og veltu skv. bókhaldi sem fram kom við athugun rannsóknardeildar á bókhaldi kæranda er sem fyrr greinir gerð sú athugasemd að nú þyki sýnt að kærandi hafi staðið skil á söluskatti af mismunárfjárhæðinni.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir m.a. svo:

„Svo sem atvik málsins liggja fyrir, þykir bera að fella niður hið álagða viðbótarsölugjald kr. 16.637.291 fyrir tímabilið jan. til og með júní 1978. Þá þykir bera að reikna viðurlög vegna vanskila á sölugjaldi þessa tímabils að nýju.

Þykir í því sambandi mega leggja yfirlit frá kæranda yfir bifreiðasölu færða til þess mánaðar, er skráning fór fram í, til grundvallar við ákvörðun van- og offramtalinnar sölu fyrir mánuðina janúar til og með september 1978.“

Samkvæmt þessu voru viðurlög skv. 1. og 2. tl. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, sbr. lög nr. 10/1974 og lög nr. 26/1978, um breyting á þeim lögum, ákvörðuð að nýju og skv. þeim útreikningi lækkuðu áður reiknuð viðurlög skv. úrskurði ríkisskattstjóra um kr. 621.524.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja