Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1341/1979

Gjaldár 1976

Reglugerð nr. 169/1970, 10. gr. 7. tl., 14. gr. 16. tl.   Lög nr. 10/1960  

Söluskattur - Fæðissala

Kærandi krafðist lækkunar álagðs söluskatts fyrir árið 1976 úr kr. 2.228.657 í kr. 967.374 og að viðurlög yrðu reiknuð frá álagningardegi 10. mars 1978.

Málavextir voru þeir, að kærandi, er var verktakafyrirtæki, tókst á hendur rekstur mötuneytis í kaupstað nokkrum. Ýmiss verktakafyrirtæki, er höfðu með höndum verkefni í kaupstaðnum, áttu aðild að rekstri mötuneytisins auk bæjarsjóðs. Alls var hér um 16 aðila að ræða. Í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra um þennan rekstur sagði, að tilefni stofnunar mötuneytisins væri, að rekstrarnefnd félagsheimilisins á staðnum, sem áður hefði starfrækt þar matsölu, treysti sér ekki til þess að reka matsöluna áfram. Teldu verktakar nauðsyn bera til, að starfrækt væri mötuneyti fyrir starfsmenn þeirra í bæjarfélaginu vegna gífurlegs kostnaðar við að fá mat utan bæjarfélagsins. Mötuneytið hefði verið stofnað 1/5 1975.

Skattstjóri taldi hér vera nánast um félag að ræða um rekstur mötuneytisins. Bæri að telja fæðissöluna söluskattsskylda skv. 7. tl. 10. gr. reglugerðar nr. 169/1970, um söluskatt og með tilliti til úrskurða ríkisskattanefndar í hliðstæðum og álits fjármálaráðuneytisins. Þó bæri að taka tillit til fæðissölu til starfsmanna kæranda með hliðsjón af ákvæðum 16. tl. 14. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Með hliðsjón af þessu og þeim upplýsingum, er fyrir lágu varðandi fæðisúttekt kæranda svo og vörukaup mötuneytisins með söluskatti ákvað skattstjóri söluskattsskylda fæðissölu vegna rekstrarársins 1976 kr. 13.372.476 og söluskatt kr. 2.228.657 svo og viðurlög reiknuð frá 15.7. 1976 - 16.3. 1979 kr. 1.626.920.

Af hálfu kæranda var í kæru til ríkisskattanefndar færður svofelldur rökstuðningur fyrir lækkunarkröfunni:

„Í úrskurði skattstjórans er réttilega viðurkennt, að félagsskapur margra verktaka hafi staðið að mötuneytinu og þar á meðal H hf. Alls voru þessir verktakar 16, en auk þess var nokkrum utanfélagsverktökum selt fæði. Líta verður svo á, sbr. 16. tl 14. gr. söluskattsreglugerðarinnar, að sérhver hinna félagsbundnu verktaka hafi með þessu móti selt sínum starfsmönnum fæði, en ekki bara einn þeirra eins og skattstjórinn álítur. Það er fáránleg túlkun á þessu reglugerðarákvæði að það hindri atvinnurekendur í því að slá sér saman um mötuneytisrekstur, en slík samvinna er augljóslega hagkvæm í mörgum tilfellum og stundum alveg óhjákvæmileg. Ég trúi því ekki að það sé endanleg skoðun skattyfirvalda, að verktakarnir hefðu þurft að reka 16 mötuneyti á framkvæmdasvæðinu í ------- til þess að losna undan söluskatti.

Um það er ekki deilt að mötuneytinu beri að greiða söluskatt af fæðissölu til utanfélagsverktaka. Hún nam á árinu 1976 kr. 9.811.927.oo eða 34,7% af veltunni. Frá þeirri upphæð ber að draga 34,7% af vörukaupum með söluskatti, sem námu kr. 11.548.818.oo. Útkoman verður kr. 5.804.476.oo. Verður þá söluskatturinn 16,666% af síðastgreindu fjárhæðinni eða kr. 967.374.oo.

Ríkisskattstjóri krafðist þess, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur með vísan til þeirra röksemda, er kæmu fram í úrskurðinum svo og skilnings fjármálaráðuneytisins, sem kæmi fram í tilvitnuðu bréfi ráðuneytisins til tiltekinnar ríkisstofnunar og varðaði túlkun á undanþágu 16. tl. 14. gr. reglugerðar nr. 169/1970, um söluskatt, á fæðissölu atvinnurekenda til starfsmanna sinna frá söluskattsskyldu.

Ríkisskattanefnd komst að svofelldri niðurstöðu í málinu:

„Að virtum gögnum málsins og með hliðsjón af upplýsingum og skýringum kæranda þykir mega á það sjónarmið kæranda fallast, að um hafi verið að ræða fæðissölu atvinnurekenda til starfsmanna sinna í skilningi 16. tl. 14. gr. reglugerðar nr. 169/1970, um söluskatt. Svo sem málið liggur fyrir þykja eigi efni til að breyta ákvörðun skattstjóra á upphafstíma útreiknings viðurlaga.

Úrskurðarorð:

Söluskattur 1976 var kr. 2.228.657 verður kr. 967.376

Viðurlög voru kr. 1.626.920 verða kr. 706.184.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja