Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1399/1979

Söluskattur 1976

Lög nr. 10/1960, 12. og 1. mgr.  

Söluskattur - Formlegir annmarkar

Málavextir voru þeir, að skattstjóri kannaði skráningu eigin úttektar kæranda úr matvöruverslun þeirri, sem hann starfrækti, í bókhaldi verslunarinnar á árinu 1976. Í framhaldi af könnun þessari tilkynnti skattstjóri kæranda þann 8.2. 1978, að vanreiknað sölugjald hans fyrir árið 1976 hefði verið ákveðið kr. 95.162 og viðurlög af því tímabilið 15/1 1977 - 15/2 1978 kr. 26.645. Sú athugasemd var rituð á tilkynningu skattstjóra, að sölugjald væri lagt á áætlaða vantalda eigin úttekt kr. 571.000 úr versluninni skv. viðmiðun reiknaðri af skattstjóra.

Með kærubréfi, dags. 14/2 1978, til skattstjóra var þessari áætlun mótmælt. Úttekt kæranda úr versluninni hefði mánaðarlega verið færð í sjóðbók hennar. Hefði úttektin árið 1976 numið kr. 300.241. Taldi kærandi sig ekki hafa tekið meira úr versluninni, þar eð hann hefði orðið að kaupa mjólk og brauð og kjötvörur annars staðar, þar sem á þessu ári hefðu þessar vörur ekki verið seldar í verslun hans.

Skattstjóri synjaði kröfu kæranda í úrskurði sínum.

Ríkisskattanefnd taldi, að skattstjóri hefði eigi gætt réttra aðferða við meðferð málsins og af þeim sökum bæri að fella niður þann Viðbótarsöluskatt vegna ársins 1976 svo og viðurlög, sem skattstjóri hafði gert kæranda. í úrskurði nefndarinnar segir svo um þetta:

„Af gögnum málsins verður eigi séð, að skattstjóri hafi gefið kæranda kost á að tjá sig um skýrslu rannsóknarmanna né um það, að til stæði að áætla kæranda vantalda eigin úttekt úr verslun hans og gera honum að greiða viðbótarsöluskatt af henni ásamt viðurlögum, áður en tilkynning dags. 8/2 1978 var send kæranda.

Telja verður, að ákvæði 37. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt gildi að efni til við endurálagningu söluskatts skv. 12. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt með vísun til 1. mgr. 27. gr. þeirra laga.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja