Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1426/1979

Söluskattur 1978

Reglugerð nr. 169/1970   Lög nr. 10/1960  

Söluskattur - Gildi reglugerðar

Málavextir voru þeir, að skattstjóri gerði breytingar á söluskattsframtölum kæranda fyrir mánuðina október, nóvember og desember 1978 og lagði á kæranda viðbótarsöluskatt að upphæð kr. 240.565 auk viðurlaga kr. 61.771. Skattstjóri byggði úrskurð sinn á því, að söluskattsskil kæranda hefðu ekki verið í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 316/1978.

Umboðsmaður kæranda taldi túlkun skattstjóra á fyrrgreindri reglugerð ranga og krafðist þess, að viðbótarsöluskattur auk viðurlaga yrði felldur niður.

Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar kröfur:

„Með vísan til þess að breytingar skattstjóra á söluskatti kæranda umrætt tímabil virðast eingöngu í því fólgnar að færa söluskattsuppgjörið til þess horfs sem lög, reglugerð og fyrirmæli kveða á um og með tilvísan til þess að í kæru kemur ekkert fram um atriði sem til þess gætu verið fallin að hnekkja skattstjórameðferð málsins er gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Á það ber að líta í máli þessu, að aðferð kæranda við söluskattsuppgjör fyrir tímabil það, sem um ræðir, var í samræmi við þær reglur er giltu fyrir gildistöku reglugerðar nr. 316/1978 um breyting á reglugerð nr. 169/1970, um söluskatt sem svo aftur voru teknar upp með reglugerð nr. 431/1978 um breyting á sömu reglugerð. Þykja því með tilliti til þess skamma tíma, sem ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 316/1978 giltu, uppgjörsreglur þær, er þar er mælt fyrir um, leiða til það handahófskenndrar niðurstöðu - að jafnaði ýmist til vansköttunar eða ofsköttunar - að vart sýnist gerlegt að leggja þær til grundvallar í málinu. Þá ber að hafa í huga, að eftir reglugerð nr. 431/1978 á gjaldandinn völ á mismunandi uppgjörsaðferðum. Með tilliti til fyrri framkvæmdar, er aftur er upptekin með ákvæðum síðastnefndrar reglugerðar og hliðsjón af því, er að framan var rakið að öðru leyti, þykir ekki nægilega öruggt, að ákvæði reglugerðar nr. 316/1978 hafi girt fyrir uppgjörsaðferð þá, er kærandi beitti, svo sem málum er háttað. Þykir því bera að lækka viðbótarsölugjald úr kr. 240.565 í kr. 19.535 og er þá miðað við reiknaða rýrnun, sem kærandi sjálfur hefir tilfært við fyrri söluskattsuppgjör. Þá þykir bera að fella niður viðurlög kr. 61.771.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja