Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 113/1979

Söluskattur 1976, 1977

Lög nr. 10/1960, 10. gr., 21. gr.  

Söluskattur - Viðurlög

Málavextir voru þeir, að í byrjun maí 1978 könnuðu starfsmenn rannsóknardeildar ríkisskattstjóra sölureikninga fyrirtækis nokkurs fyrir árin 1976 og 1977. Könnun þessi leiddi í ljós, að innheimtu söluskatts af sölu til hótela, matsölustaða og slíkra aðila var ábótavant. Höfðu ýmsum aðilum verið seldar vörur án söluskatts, þótt kæranda hefði borið að innheimta söluskatt af þessum aðilum.

Kæranda var gerð grein fyrir, að hvaða leyti söluskattsinnheimtu væri áfátt. Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 17. maí 1978, lagði kærandi fram upplýsingar, þar sem fram kom vanreiknaður söluskattur hvers mánaðar árin 1976 og 1977.

Ríkisskattstjóri gerði ekki athugasemdir við þetta bréf kæranda og fól skattstjóranum í Reykjavík að afgreiða málið svo sem efni stæðu til.

Með úrskurði, dags. 20.5. 1978, lagði skattstjóri hinn vantalda söluskatt á kæranda kr. 2.487.564 auk viðurlaga kr. 923.008.

Í kæru til skattstjóra mótmælti kærandi álagningu viðurlaga sem óréttmætum. Í kæru hans sagði m.a.:

„1. Það mun vera ágreiningslaust, og vísum við þar í samstarf við alla þá starfsmenn yðar sem við höfum átt samskipti við undanfarin ár, að við höfum ávallt lagt okkur í framkróka við að framkvæma allar reglugerðir í sambandi við skattinnheimtu, þar á meðal söluskatt, eftir bestu vitund og af fullri samviskusemi.

2. Við fullyrðum að við höfum gert okkar ítrasta til að skilja rétt þær reglugerðir sem settar hafa verið, og fara eftir þeim samkvæmt því.

3. Í samskiptum okkar við skattyfirvöld höfum við aldrei fengið áminningar fyrir að hafa ekki starfað að þessum málum eftir bestu vitund, og í góðri trú þess að við værum að gera rétt.

Það er því skoðun okkar, þegar tekið er tillit til þess að ágreiningslaust er að við höfum framkvæmt söluskattsinnheimtu á vegum fyrirtækisins af fullkominni samviskusemi eftir bestu vitund og án athugasemda frá skattyfirvöldum um áraraðir að þá verði það að teljast algert réttlætismál að leiðrétting slík sem nú er gerð fari fram án refsingar með viðurlögum.

Það er því eindregin áskorun og umsókn okkar til skattyfirvalda að krafa um greiðslu umræddra viðurlaga að upphæð kr. 923.008.- verði felld niður.“

Skattstjóri féllst ekki á kröfu kæranda og staðfesti fyrri úrskurð sinn. Í kæru til ríkisskattanefndar ítrekaði kærandi gerða kröfu og vísaði til fyrri rökstuðnings.

Af hálfu ríkisskattstjóra var gerð svofelld krafa:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur þar sem kærandi hefur ekki fært til gildar ástæður sér til afsökunar fyrir niðurfellingu hinna umdeildu viðurlaga, sbr. skilyrði 21. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt, sjá 13. gr. laga nr. 10/1974.“

Í úrskurði sínum segir ríkisskattanefnd svo:

„Í málinu er ekki ágreiningur um, að söluskattur hafi ekki verið tekinn af sölu vara til ákveðinna aðila. 10. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt tekur til þessa tilviks að því er varðar skil á skattinum. Séu 10. og 21. gr. lesnar saman virðist ekki ljóst, hvort undir viðurlög 21. gr. falli þau tilfelli, sem 10. gr. tekur til. Vegna 10. gr. hefði verið ástæða til að orða 21. gr. skýrar, ef ætlunin hefði verið að láta viðurlaga ákvæði hennar taka til tilfella af því tagi, sem hér um ræðir.

Er krafa kæranda því tekin til greina. Viðurlög kr. 923.008 falli niður. Lækkun kr. 923.008.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja