Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1045/1976

Gjaldár 1976

Lög nr. 68/1971, 5. gr.  

Skattskylda - Sameignarfélag

Málavextir voru þeir, að skattstjórinn í Reykjavík lagði eignarskatt á "Bændahöllina við Hagatorg" að upphæð kr. 2.815.542,-. Kærðu umboðsmenn Bændahallarinnar skattlagningu þessa til niðurfellingar, á þeirri forsendu að hún væri ekki sérstakur skattaðili, en til vara var álagningunni mótmælt tölulega.

Kæru sína byggðu umboðsmenn Bændahallarinnar á því, að sjálfstæðir skattþegnar séu taldir upp í I. kafla laga nr. 68/1971. Það séu menn eldri en 16 ára, hjón, félög og stofnanir. Í 5. gr. laganna greini nánar frá þessum félögum og stofnunum: Hlutafélög og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð, kaupfélög og önnur samvinnufélög, sameignarfélög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsmanna, samlög sem hafa það markmið að annast vinnslu og sölu á framleiðsluvörum félagsmanna og loks sjóðir, félög og stofnanir, þrotabú og dánarbú undir skiptum.

Í þessu sambandi sé rétt að skoða ákvæði 2. gr. laga nr. 7/1972, sem sé breyting á C-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 63/1971, en þar segir svo:

„Sameignarfélög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila, enda séu þau skráð í firmaskrá. Við skráningu sameignarfélags skal tekið fram, hvort félagið skuli vera sjálfstæður skattþegn. Á önnur sameignarfélög skal ekki lagður skattur sem sjálfstæða skattþegna. Eignum og tekjum slíkra félaga skal skipt á milli félagsaðila í samræmi við félagssamning þeirra og þær skattlagðar með öðrum eignum og tekjum félagsaðilanna ....“

Bændahöllin sé hús á leigulóð og eign Búnaðarfélags Íslands að 2/3 hlutum og Stéttarsambands bænda að 1/3 hluta. Tekið sé fram í eignarskiptasamningnum að eignaraðilar ábyrgist allar fjárskuldbindingar Bændahallarinnar í sömu hlutföllum. Eigendur noti sjálfir 13,4% eignarinnar en aðrir 86,6% og hafi skattstjóri fallist á þá skiptingu. Kærendur segja, að til þess að unnt sé að gera Bændahöllina að sjálfstæðum skattþegni, þurfi hún að falla undir eitthvert þeirra atriða, sem talin séu upp í I. kafla laga nr. 68/1971 ásamt síðari breytingum. Eini möguleikinn sé þá að líta á Bændahöllina sem einhvers konar félag, sbr. það sem í eignaskiptasamningnum segi.

Af hálfu ríkisskattstjóra var gerð sú krafa, að úrskurður skattstjóra væri staðfestur. Bændahöllin sé aðstöðugjaldsskyld, sbr. Hrd. 38. bindi, bls. 895-909. Skv. 36. gr. laga nr. 8/1972 séu þeir undanþegnir aðstöðugjaldi sem falli undir 6. gr. laga nr. 68/1971. Þetta tvennt, þ.e. aðstöðugjaldsskylda skv. 36. gr. laga nr. 8/1972 og skattfrelsi skv. 6. gr. laga nr. 68/1971 geti því ekki farið saman.

Þá er vitnað af hálfu ríkisskattstjóra til úrskurðar skattstjóra, en þar segir m.a., að í sameignarsamningi sé tekið fram, að húseignin sé til afnota fyrir starfsemi eigenda, þ. á m. hótelstarfsemi, en þar til öðru vísi kunni að verða ákveðið verði nokkur hluti hússins leigður öðrum aðilum, að því leyti sem eigendur noti hann ekki sjálfir.

Hótelreksturinn og útleigan teljist skattskyld starfsemi og jafnframt verði að álíta að sá hluti húseignarinnar, sem notaður sé til atvinnustarfsemi, þ.e. til hótelreksturs og útleigu, teljist skattskyld eign. Kærandi telji sig nota 13,4% og séu skv. því 86,6% af húseigninni notað til atvinnustarfsemi. Megi fallast á þá skiptingu.

Varðandi þá ábendingu kæranda að Bændahöllin sé hvorki félag, né persóna að lögum megi benda á, að til skattstofu hafi verið skilað sérstöku skattframtali fyrir Bændahöllina, ásamt reikningum og skv. eðli máls sé ekkert því til fyrirstöðu að álagning fari fram í nafni Bændahallarinnar eftir því sem skattskylda nái til, þótt eignaraðilar séu endanlega ábyrgir fyrir skattgreiðslum.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Með vísan til 2. mgr. C-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/ 1971, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1972 þykir kærandi eiga rétt á að skattálagningu vegna atvinnurekstursins sé skipt milli eignaraðila. Kæran er því tekin til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja