Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1038/1976

Gjaldár 1976

Lög nr. 68/1971, 6. gr.  

Skattskylda búnaðarsambands

Málavextir voru þeir, að skattstjóri áætlaði búnaðarsambandi í umdæmi sínu gjaldstofna til tekju- og eignarskatts, svo og aðstöðugjalds. Búnaðarsambandið kærði þá álagningu sem af þessu leiddi til niðurfellingar á þeim grundvelli að það væri ekki skattskylt, en til vara til lækkunar samkvæmt innsendum gögnum.

Í greinargerð kæranda er starfsemi hans lýst þannig:

„Starfsemi B.S.S. árið 1975 má skipta í þrennt:

Í fyrsta lagi eru hin almennu leiðbeiningastörf, sem búnaðarsamböndum er gert að annast um samkv. lögum um jarðrækt og búfjárrækt.

Vegna þessarar starfsemi eru greidd veruleg framlög úr ríkissjóði samkvæmt lögum um búfjárrækt, jarðrækt og fleiri lögum, sem hér verða ekki talin upp. Framlög verða bændur á sambandssvæðinu og hreppabúnaðarfélögin að greiða og enn fremur nýtur B.S.S. framlags úr sýslusjóði S-sýslu.

Sú þjónusta, sem veitt er með þessum fjárframlögum, fer öll til félagsmanna B.S.S. eða sambandsdeilda þess og ekkert af henni er endurselt utanfélagsmönnum. Starfi héraðsráðunautur B.S.S. fyrir aðra aðila, greiða þeir honum án þess að þar komi B.S.S. nærri.

Starf héraðsráðunautar er heldur aldrei endurselt félagsmönnum, heldur greiða þeir framlag samkv. ákvörðun aðalfundar B.S.S. en ekki í hlutfalli við þjónustu, sem hverjum og einum er veitt.

Í öðru lagi rak B.S.S. sæðingarstöð, enda er það skylda samkvæmt gildandi búfjárræktarlögum. Árið 1975 var hún rekin með halla (sbr. útdrátt úr reikn. B.S.S. 1975). Hefur svo raunar verið öll þau ár, sem hún hefur verið starfrækt. Er þó ekki reiknað með neinum fyrningum af stofnkostnaði á rekstrarreikningi hennar.

Sú starfsemi er styrkt samkvæmt búfjárræktarlögum úr ríkissjóði en ekki hefur reynst fært að innheimta sæðingargjöld svo að þau nægi fyrir rekstrarkostnaði og eru þau þó hærri en nálega alls staðar annars staðar. Í rekstri sæðingarstöðvarinnar 1975 er að finna eina dæmið það ár um þjónustu B.S.S. við utanfélagsmann, er ein kýr var sædd í H-sýslu. Kom fyrir það gjald kr. 2.100.

Í þriðja lagi eru á vegum B.S.S. steypuhrærivélar og flekamót til húsbygginga. Er til þeirra stofnað samkv. lögum nr. 7, 12. jan. 1945. Markmið þeirrar framkvæmdar er orðað svo í húsagerðarsamþ. fyrir B.S.S. staðfestri árið 1961:

„Tilgangur samþykktarinnar er að greiða fyrir húsabótum og öðrum byggingaframkvæmdum hjá félagsmönnum á samþykktarsvæðinu og stuðla að því að bændur geti komið sér upp vönduðum, hagkvæmum og ódýrum húsum, sem kostur er á.“

Vélar og mót hafa aðeins verið leigð félagsmönnum. Leiga er ákveðin af aðalfundi B.S.S. og er stefnt að því að hún borgi eðlilegt viðhald og standi undir kostnaði við rekstur þeirra en ekki stefnt að fullri fyrningu.“

Ríkisskattanefnd komst að þeirri niðurstöðu, að starfsemi búnaðarsambandsins væri innan þeirra marka, sem henni væru sett í lögum og reglugerðum. Væri ekki um að ræða atvinnurekstur af þess hendi í merkingu 6. gr. laga nr. 68/1971 og 36. gr. laga nr. 8/1972. Voru kröfur þess um niðurfellingu álagðra gjalda því teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja