Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 831/1978

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 7. gr. B-liður  

Eignayfirfærsla - Gjöf

Málavextir voru þeir að kærandi kaupir húseign af sambýlismanni sínum á árinu 1976. Endurgjald það fyrir húseignina, sem tilgreint var í framtali kæranda, var jafnt skráðu fasteignarmatsverði húseignarinnar á þeim tíma. Skattstjóri taldi, að eignayfirfærsla þessi skapaði kæranda skattskyldar tekjur þar eð kaupverð húseignarinnar væri langt undir gangverði. Með tilvísun til B-liðs 7. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt og auglýsingu Félagsmálaráðuneytisins nr. 482, 14. nóv. 1975 svo og verklagsreglu ríkisskattstjóra til ákvörðunar verðmætis eignatilfærslu fasteigna milli aðila án greiðslu eða óeðlilega lágrar greiðslu, reiknaði skattstjóri 173% álag á tilgreint kaupverð eða kr. 1.743.840,- og var sú upphæð færð til tekna hjá kæranda.

Kærandi vildi ekki una þessum úrskurði og krafðist þess að teknaviðbót þessi yrði felld niður. Benti kærandi á, að hún og seljandi hafi búið í óvígðri sambúð í 30 ár og átt tvö börn saman. Séu þau enn í sambúð og hafi eign sú er afsalað var orðið til á þeirra sambúðartíma.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Þegar málavextir eru virtir eins og þeir liggja fyrir í gögnum málsins þykir eigi við eiga að byggja skattlagningu í þessu falli á reglum B-liðs 7. gr. skattalaga um skattskyldu gjafa og sker það ekki úr þótt sambýlismaður kæranda hafi verið þinglýstur sem eigandi húseignar þeirrar er málið er sprottið af eða hún áður talin til eignar á hans framtölum. Teljast því ekki efni til álagningar tekjuskatts eða útsvars vegna yfirfærslu eignarinnar og er krafa kæranda því tekin til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja