Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 495/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 2. tl. — 30. gr. 2. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Styrkur — Starfsmenntunarstyrkur — Starfsmenntun — Réttindanám kennara — Beinn kostnaður — Nám — Námskostnaður — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt — Skattframtal, vefenging — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Ferða- og dvalarstyrkir námsmanna

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi tekjufærði 82.400 kr. sem dagpeninga í reit 23 í skattframtali sínu árið 1990 og færði sömu fjárhæð til frádráttar í reit 33. Ekki var gerð grein fyrir frádrættinum á þar til gerðu eyðublaði (RSK 3.11).

Hinn 24. september 1990 endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1990 á þeim forsendum, að skv. launamiða frá Launaskrifstofu ríkisins væri fyrrgreind fjárhæð 82.400 kr. styrkur, er skattskyldur væri og bæri að tekjufæra í lið 7.3 í skattframtali. Ekki væri um dagpeninga að ræða svo sem ranglega hefði verið tilgreint í framtali. Við endurákvörðun þessa kom umrædd greiðsla því að fullu til skattlagningar.

Af hálfu kæranda var endurákvörðuninni mótmælt í kæru, dags. 9. október 1990. Kom þar fram það viðhorf kæranda, að líta bæri á greiðsluna sem dreifbýlisstyrk frá menntamálaráðuneytinu til að koma til móts við þann kostnað landsbyggðarfólks, er sækti réttindanám til kennslu til Reykjavíkur. Ljóst væri, að aðeins væri um lítinn hluta þess kostnaðar að ræða, sem nemendur í réttindanámi yrðu fyrir. Í kærunni var gerð grein fyrir námstímanum og kostnaði miðað við dagpeningareglur svo og ferðakostnaði. Taldi kærandi kostnað vegna námsins hafa numið 345.000 kr. eftir þessum útreikningsaðferðum.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 15. október 1990, og synjaði henni á svofelldum forsendum:

„Samkv. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekju og eignarskatt, teljast styrkir til skattskyldra tekna.

Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtals einstaklinga árið 1990 segir um styrki og styrktarfé: Til tekna ber að færa styrki og styrktarfé úr hvers konar sjóðum opinberra stofnana, félagasamtaka, stéttarfélaga eða annarra aðila, sjá þó um undantekningu hér á eftir. Hér með teljast allir styrkir og styrktarfé veitt úr ríkissjóði, svo sem ferðastyrkir og svo framvegis.

Undantekningar eru ferðastyrkir veittir af Lánasjóði ísl. námsmanna sbr. lög nr. 72/1982, og dvalar og ferðastyrkir greiddir skv. lögum nr. 69/1972, um ráðstöfun til jöfnunar á námskostnaði.

Þar sem umræddur styrkur er ekki greiddur skv. ofangreindum lögum um undantekningu verður að líta svo á að um skattskyldan styrk sé að ræða og því ekki fallist á kröfu kæranda um að falla frá skattlagningu.“

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. nóvember 1990. Er þess krafist, að styrkur sá, sem í málinu greinir, verði ekki skattlagður. Vísað er til þess, að tilgangur með styrkveitingunni sé sá sami og með styrkjum Lánasjóðs íslenskra námsmanna og dvalar- og ferðastyrkjum, greiddum samkvæmt lögum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Eðlilegt sé með hliðsjón af því að tilgangurinn með styrkveitingum þessum sé sá sami, að skattlagning sé og með sama hætti.

III.

Með bréfi, dags. 30. maí 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h, gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Skattstjóri endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda hinn 24. september 1990 út af hinni umdeildu skattlagningu styrks að fjárhæð 82.400 kr., er kærandi hlaut til þess að standa straum af kostnaði við réttindanám sitt. Ekki verður séð, að skattstjóri hafi boðað kæranda þessa breytingu á framtali hans eins og lögmælt er, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Slíkur annmarki er því á málsmeðferð skattstjóra að þegar af þeirri ástæðu ber að fella breytingu hans úr gildi. Rétt er að fram komi, að út af fyrir sig er á það fallist með skattstjóra, að styrk þann, sem í málinu greinir, beri að telja kæranda til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Á hitt er að líta, að kærandi hefur heimild til frádráttar beins kostnaðar á móti styrknum samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Reifaði kærandi slíkan kostnað að nokkru í kæru til skattstjóra en þá fyrst gafst honum færi á að taka til varna í málinu vegna þess agnúa, sem var á málsmeðferð skattstjóra og fyrr er lýst. Eftir því sem fyrir liggur í málinu má telja óyggjandi, að kærandi hafi haft þann kostnað af réttindanámi sínu, er sé eigi lægri en fjárhæð styrksins. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, er krafa kæranda í máli þessu tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja