Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 898/1978

Gjaldár 1976

Lög nr. 68/1971, 10. gr. B-liður, 7. gr. D-liður  

Um skattskyldu vaxta af örorkubótum

Málavextir voru þeir, að kærandi varð fyrir miklu slysi á árinu 1969, er hann var að starfi hjá varnarliðinu sem loftnetaviðgerðarmaður og urðu afleiðingar þær, að hann var metinn 15% varanlegur öryrki í ágúst 1973. Sættir tókust ekki um greiðslu skaðabóta og var því höfðað mál til heimtu þeirra. Voru honum með dómi í bæjarþingi Reykjavíkur þann 30.6. 1975 ákvarðaðar bætur að upphæð kr. 1.863.166,- ásamt vöxtum og málskostnaði. Dómi þessum var ekki áfrýjað og við uppgjör til kæranda nam vaxtagreiðsla kr. 1.031.210,-.

Skattstjóri taldi vextina tvímælalaust skattskylda og vísaði í úrskurði sínum til 1. mgr. D-liðs 7. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 3. gr. laga nr. 7/1972 og C-liðs 14. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Engin heimild sé til þess að undanþiggja þá skattlagningu.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Af hálfu kæranda var því m.a. haldið fram, að í D-lið 7. gr. laga nr. 68/1971 sé tæmandi talið hvers konar vextir séu skattskyldir og ekki einsýnt, að vextir af örorkubótum falli þar undir. Þá var því haldið fram, að reiknaðir vextir væru hluti af bótunum og það m.a. stutt B-lið 10. gr. tekjuskattslaganna, þar sem talað er um eignarauka, sem stafar af útborgun örorkubóta „og þess háttar“. Af læknisfræðilegum og lög­fræðilegum ástæðum sé oft ekki hægt að ákveða bæturnar, fyrr en löngu eftir á. Vextir af bótunum bæti tjónþola aðeins að óverulegu leyti það tap, sem hann verði fyrir við að fá ekki bæturnar strax og aðferð við útreikning bóta bendi til þess að gert sé ráð fyrir, að vextirnir séu hluti þeirra. Þá var því haldið fram, að ekki hafi verið venja til þessa að telja vexti sem þessa til tekna og yrði af því ljós mismunun skattþegna, ef farið væri án atbeina löggjafarvaldsins í þessu efni.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Ríkisskattanefnd lítur svo á, að í hinni umdeildu fjárhæð felist ekki eiginlegar vaxtatekjur, heldur sé hér um að tefla sérstaka útreikningsaðferð, sem tíðkuð hefir verið samkvæmt dómvenju við mat á heildarfjárhæð bóta. Samkvæmt þessu ber að taka kröfu kæranda til greina með tilvísun til B-liðar 10. gr. laga nr. 68/1971.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja