Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 328/1977

Gjaldár 1976

Lög nr. 68/1971, 12. gr. C-liður, sbr. reglugerð nr. 9/1976  

Ferðakostnaður

Málavextir voru þeir, að kærandi færði til tekna á framtali sínu endurgreidd fargjöld og bifreiðastyrk frá vinnuveitanda, varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, kr. 348.340,- ósundurliðað. Til frádráttar útsvari og tekjum færði hann rekstrarkostnað bifreiðar kr. 507.640,-. Skattstjóri lækkaði þessa upphæð í kr. 170.000,-. Kærandi gerði þá kröfu um að 70% tilfærðs bifreiðakostnaðar kr. 355.348,- yrði viðurkenndur frádráttarbær.

Ríkisskattstjóri benti á, að kærandi hefði lagt fram bensínnótur „sem áritaðar og dagsettar eru áður en þær eru prentaðar.“ Kæmi því ekki til álita að fallast á kröfur kæranda.

Ríkisskattanefnd tók fram að umræddar bensínnótur hefðu ekki verið lagðar fram í kærumálinu, og segir síðan svo í úrskurði ríkisskattanefndar:

„Gjaldárið 1975 vann kærandi hjá sama vinnuveitanda. Hann fékk þá greitt fyrir afnot sömu bifreiðar kr. 230.827,- þar af endurgreidd fargjöld kr. 75.579,-. Skattstjóri samþykkti þá þessar greiðslur til frádráttar.

Eftir öllum atvikum þykir mega hækka frádráttarbæran rekstrarkostnað bifreiðar kæranda um kr. 80.000,- eða úr kr. 170.000,- í kr. 250.000,-.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja