Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 543/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 31. gr. 1. tl. — 59. gr. 1. mgr. — 91. gr. 1. mgr. — 100. gr. 3. mgr.  

Reiknað endurgjald — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Eigin atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Atvinnurekstur — Rekstrarkostnaður — Ársreikningur — Efnahagsreikningur — Fyrningarskýrsla — Fylgigögn skattframtals — Skattframtal, ófullnægjandi — Kröfugerð kæranda — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Rökstuðningi kæru áfátt

Málavextir eru þeir, að kærandi færði sér til tekna reiknað endurgjald við köfun 74.940 kr. í skattframtali sínu árið 1990.

Með kæru til skattstjóra, dags. 29. ágúst 1990, fylgdi rekstraryfirlit vegna köfunar. Námu brúttótekjur skv. yfirliti þessu 74.940 kr. Til gjalda á yfirliti þessu færði kærandi fyrningu búnaðar 35.000 kr., varahluti 17.460 kr. og annan kostnað 5.710 kr. Samkvæmt þessu yfirliti námu hreinar tekjur af starfsemi þessari 16.750 kr. Í kæruúrskurði, dags. 12. október 1990, sagði svo viðvíkjandi þessu kæruefni: „Hvað rekstur varðar þá fylgdi ekki efnahagsreikningur og engin fyrningaskýrsla. Ekki er fallist á þennan hluta kærunnar og úrskurðast því að reiknuð laun í reit 24 standi óbreytt.“

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 7. nóvember 1990. Kveðst kærandi ekki sætta sig við úrskurð skattstjóra varðandi köfunarrekstur sinn og vísar til fyrrgreinds rekstraryfirlits og ljósrit af launamiða frá X hf. varðandi umrædda verktakagreiðslu 74.940 kr.

Með bréfi, dags. 12. júlí 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Plagg það, sem kærandi lagði fram og vísar til kröfu sinni til stuðnings, sem ætla má að lúti að lækkun fjárhæðar reiknaðs endurgjalds í reit 24 í skattframtali, uppfyllir ekki lögmælt skilyrði, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, auk þess, sem kærandi hreyfir því ekki, að mat hans á reiknuðu endurgjaldi hafi upphaflega verið of hátt. Er kröfu kæranda því synjað. Það athugast, að skattstjóra var rétt og skylt að krefja kæranda um fullnægjandi gögn varðandi umrædda starfsemi að lögum fyrir álagningu í stað þess að byggja álagningu á framtalinu eins og það var úr garði gert varðandi þetta atriði. Ekki breytir þessi hnökri þó málalyktum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja