Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 745/1976

Gjaldár 1970-1973

Lög nr. 10/1960  

Söluskattur

Málavextir voru þeir, að skattstjóri gerði ræktunarsambandi nokkru að greiða söluskatt af seldri vélavinnu við snjómokstur og mannvirkjagerð. Álagningin var kærð til ríkisskattanefndar sem kvað upp svofelldan úrskurð:

„Ríkisskattanefnd hefir úrskurðað kæru yðar yfir viðbótarsöluskatti vegna áranna 1970, 1971, 1972 og 1973 á þessa leið:

Skattstjóri gerði kæranda að greiða viðbótarsöluskatt vegna áranna 1970, 1971, 1972 og 1973 af seldri vélavinnu við snjómokstur og mannvirkjagerð. Þá gerði skattstjóri kæranda að greiða söluskatt vegna sömu ára af áætluðum söluskattsstofni vegna eigin viðgerðarþjónustu. Skattstjóri tók til greina þá kröfu kæranda, að honum bæri ekki að greiða söluskatt af vélavinnu við ræktunarframkvæmdir.

Úrskurði skattstjóra um viðbótarsöluskatt nefndra ára er áfrýjað til ríkisskattanefndar.

Umboðsmaður kæranda gerir fyrir hans hönd aðallega kröfu um ógildingu söluskattsúrskurðar skattstjóra og sýknu umbjóðanda síns af greiðsluskyldu krafins söluskatts, en til vara að fjárhæð söluskattsins verði lækkuð að mati ríkisskattanefndar.

Af hálfu ríkisskattstjóra er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Í gögnum málsins eru sundurliðanir á seldri vélavinnu kæranda framangreind ár. Sýna þær m.a., að verulegur þáttur í starfsemi kæranda þessi ár var vélavinna fyrir Vegagerð ríkisins við snjómokstur og mannvirkjagerð. Í greinargerð frá kæranda dags. 12.7. 1975 segir m.a.:

„Vegagerð ríkisins hefur með höndum alla starfsemi við snjómokstur, vetrarviðhald og nýbyggingu þjóðvega og sýsluvega, en sveitarfélög munu borga Vegagerðinni snjómokstur að vetri til að hálfu. Viðskipti Vegagerðarinnar við ræktunarsambandið hafa nánast verið þau, að vélstjórar hafa verið ráðnir á kaupi hjá sambandinu í samráði við verkstjóra Vegagerðarinnar, síðan hafa jarðýturnar verið afhentar Vega­gerðinni til ráðstöfunar. Þóknun fyrir þessa þjónustu hefur Vegagerðin gert upp sjálf eftir vinnuskýrslum og svokallaðri „Gjaldskrá ríkisstofnana“ en ekki reikningum frá sambandinu.“

„Ekki verða séð fyrirmæli í lögum um söluskatt að ræktunarsamböndum beri að standa skil á söluskatti af vegavinnu eða vinnu við aðra mannvirkjagerð, þvert á móti kemur fram í 7. gr. 1. lið að vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð sé undanþegin söluskatti.“

„Allar greiðslur sem ræktunarsambandið hefur tekið á móti eru skilgreindar sem jarðýtuvinna og ekkert talað um að söluskattur sé innifalinn.“

Í „Gjaldskrá og reglum ríkisstofnana um leigðar vinnuvélar“ segir m.a.:

„1. Leigugjald á vinnuvél innifelur fjármagns- og viðhaldskostnað, rekstrarvörur og hlutdeild í stjórnunarkostnaði. Þar sem reiknað er með vélamanni, eru innifalin laun og launatengdur kostnaður og hlutdeild í stjórnunarkostnaði. Inn í launakostnað er reiknaður hirðingartími vélar.

2. Allan flutningskostnað á vinnuvélum og fylgihlutum þeirra greiðir leigutaki, nema um annað sé samið.

3. Brunatrygging og ábyrgðartrygging gagnvart þriðja aðila eru innifaldar í leigugjaldi.

4. Söluskattur er innifalinn í leigugjaldi vélarinnar.“

Svo sem atvikum máls þessa er háttað þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans.

Viðbótarsöluskattur árin 1970-1973 alls kr. 1.038.822,- og dráttarvextir alls kr. 380.204,- eða samtals kr. 1.419.026,- standi óbreyttur.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja