Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 580/1975

Gjaldár 1974

Lög nr. 68/1971, 7. gr. D-liður  

Hlutafélagaslit, úthlutun höfuðstóls

Málavextir voru þeir, að hlutafélag nokkurt, skrásett á Dalvík, hafði ekki haft starfsemi svo séð væri á framtölum í allmörg ár. Við eftirgrennslan skattstjóra gerði aðalhluthafi svofellda grein fyrir fyrirtækinu:

"Fyrirtækið A h.f., er eitt þeirra félaga, sem "gufaði upp" með hvarfi síldarinnar fyrir Norðurlandi fyrir rúmum áratug. De facto má því segja að félagið hafi ekki verið til síðan. De jure er félagið til enn þann dag í dag, þar sem því hefur ekki verið formlega slitið skv. fyrirmælum hlutafélagalaga."

Skattstjóri taldi, að þar sem fyrirtækið átti ekki aðrar eignir skv. bókhaldi en peninga í sjóði, en upplýst var í fógetadómi að félagið væri eignalaust, yrði að álíta að hluthafar hefðu þegar ráðstafað fjármunum þess í eigin þarfir og "bæri því að skattleggja þá ráðstöfun í hlutfalli við hlutafjáreign hvers og eins, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekju- og eignarskatt". Var skattframtal aðalhluthafa 1974 tekið til endurálagningar og skattlagt hjá honum 63,2% af sjóði að frádreginni hlutafjáreign eða kr. 628.468,-.

Þessa ákvörðun kærði aðalhluthafi og byggir kæru sína á því að félaginu hafi ekki formlega verið slitið, þótt peningar þess hafi verið í vörslu hluthafa og þeir notað þá í eigin þágu.

Verði hins vegar litið svo á, að um félagsslit sé að ræða sé óheimilt skv. niðurlagsmálsgrein D-liðar 7. gr. tekjuskattslaga að skattleggja hluthafa, þ.e. heimild til útgáfu jöfnunarhlutabréfa leiði til þess.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

"Í málinu hefir ekki verið sýnt fram á, að félaginu hafi verið slitið eftir lögum um hlutafélög eða það beri ekki réttindi og skyldur eftir þeim lögum. Þykja því að svo komnu ekki efni til, að skattleggja hluthafa þess, sem um félagsslit væri að ræða. Ber því að taka kröfu kæranda til greina."

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja