Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 755/1974

Gjaldár 1969

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis

Málavextir voru þeir, að kærandi sleit samvistum við eiginkonu sína í jan. 1968. Við skilnað þeirra fékk maðurinn í sinn hlut íbúð þeirra, en skuldbatt sig aftur á móti til að inna af hendi greiðslu að upphæð kr. 80.000,- og gefa út skuldabréf að upphæð kr. 140.000,- til fyrrverandi eiginkonu sinnar. Íbúðin hafði verið keypt snemma árs 1965 og seldi kærandi hana aftur í júní 1968. Ákvarðaði skattstjóri honum þ. 9. febr. hagnað vegna sölu íbúðar kr. 286.810,- og gerði honum að greiða skatt skv. því.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir, að fara beri eftir lögum nr. 90/1965 sem í gildi voru þegar sala fór fram. Er salan fór fram var búskiptum lokið og sameiginleg skattskylda hjónanna niður fallin, enda leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng þegar út gefið. Var kærandi talinn skattskyldur af söluhagnaðinum sem miða bæri við kostnaðarverð annars vegar og söluverð hins vegar. Aftur á móti var fallist á að með greiðslum sínum til konunnar hafi kærandi að nokkru verið að greiða henni fyrir verðhækkun á íbúðinni, sem varð meðan hún var í sameign þeirra. Beri að hafa þetta í huga við ákvörðun söluágóðans hjá kæranda, sem ríkisskattanefnd taldi hæfilega metinn kr. 140.000,-.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja