Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 6/1975

Gjaldár 1970

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Mat söluhagnaðar af fasteign

Málsatvik eru þau, að á árinu 1962 hóf kærandi smíði hússins nr. 23 við A í Reykjavík. Kærandi seldi húsið þann 9. maí 1969, en húsið var metið til fasteignamats þann 28. sama mánaðar.

Söluverð eignarinnar var .................. kr. 2.450.000,-
Kostnaðarverð .......... kr. 1.388.514,-
Greidd sölulaun ....... - 49.000,- - 1.437.514,-
Reiknaður skattskyldur söluágóði ....... kr.1.012.485,-

Við kæru lækkaði skattstjóri skattskyldan söluágóða í kr. 795.870,- eða um 24,95%. Úrskurð sinn byggði skattstjóri á því, að 24,95% af byggingarkostnaði hússins hefðu verið lengur en 5 ár í eigu kæranda.

Kærandi færir að því rök, að hann hafi ekki átt annarra kosta völ en að selja húseignina til þess að forðast nauðungaruppboð á henni. Kærandi telur, að söluágóðinn sé því ekki skattskyldur, þar sem augljóst megi vera, að húsið hafi ekki verið byggt í þeim tilgangi að selja það aftur með ágóða. Kærandi krefst því, með vísun til 7. gr. laga nr. 90/1965, að tekjuviðbót skattstjóra kr. 759.870,- verði felld niður.

Varakrafa hans er, að byggingarkostnaður á hverjum tíma verði umreiknaður til samræmis við byggingarvísitölu eins og hún var á söludegi húseignarinnar. Samkvæmt því reiknast kæranda svo til, að skattskyldur söluágóði sé kr. 78.343,-.

Í úrskurði skattstjóra kemur fram, að við útreikning hans á skattskyldum hluta söluágóðans sé ekki vitað um byggingarkostnað hússins á tímabilinu 1/1 til 9/5 1964 og því sé miðað við framtalinn byggingarkostnað 31/12 1963.

Kæru til ríkisskattanefndar fylgdi listi yfir byggingarkostnaðinn á tímabilinu 1/1-9/5, samtals að fjárhæð kr. 130.261,-.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur og athugasemdir:

"Samkvæmt framlögðum gögnum þykir mega fallast á að taka til greina hluta af kæru kæranda og hækka kostnaðarverð íbúðarhúss að Á 23 um kr. 100.000,- skv. framlögðum nótum."

Skattstjóri hefir lagt til grundvallar í úrskurði sínum, að framlög til byggingarinnar, sem eldri eru en 5 ára miðað við söludag hennar, skapi kæranda ekki skattskyldan hagnað af sölunni. Ríkisskattstjóri fellst á þennan skilning skattstjóra í umsögn sinni. Þessi ákvörðun á upphafi eignarhaldstíma kæranda á íbúðinni þykir hafa stoð í 2. mgr. E-liðar 7. gr. laga nr. 90/1965. Kærandi selur því ósundurgreint eign, sem skapar honum söluhagnað, sem sumpart er skattskyldur og sumpart er skattfrjáls. Úrlausnarefnið er því að meta hagnaðinn til skattlagningar. Skattstjóri hefir skipt hagnaðinum hlutfallslega eftir fjárhæð þeirra framlaga, sem í húsið höfðu verið lögð hinn 1/1 1964 og fjárhæð þess byggingarkostnaðar, sem til var stofnað síðar. Á þessa aðferð verður ekki fallist. Vegna hinna miklu verðhækkana á fasteignum, sem áttu sér stað á meðan kærandi átti húseignina, þykir bera að láta hin eldri framlög vega þyngra við skiptingu hagnaðarins en þau yngri. Önnur aðferð mundi einnig leiða til mjög óeðlilegrar niðurstöðu í ýmsum tilvikum. Sem hjálparreglu við ákvörðun skattskylds hluta hagnaðarins, telst eðlilegt að framreikna framlög hvers árs til söludags eftir vísitölu byggingarkostnaðar og skipa síðan söluhagnaðinum með hliðsjón af verðhækkun hvors hluta framlaganna, en að teknu tilliti til þeirra atriða annarra er máli skipta. Aðilar málsins hafa ekki upplýst nema að nokkru leyti, hvernig byggingarkostnaðurinn skiptist á þau ár, sem húsið var í eigu kæranda. Er skattskyldur söluhagnaður því áætlaður eftir því sem um hann er vitað af gögnum málsins og eftir framangreindu sjónarmiði kr. 400.000,-.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja