Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 953/1974

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 10. gr. B-liður  

Ómagaframfæri

Kærandi fékk greiddar kr. 450.000,00 fyrir fóstur 5 barna á skattárinu 1971. Fjárhæðina taldi kærandi til tekna og til frádráttar kr. 150.000.00, þ.e. helming tekna eftir að persónufrádráttur fyrir börnin hefur verið dreginn frá meðlagsgreiðslum. Var þessi framtalsháttur í samræmi við úrskurð ríkisskattanefndar 19.8.1971 varðandi gjaldár 1969.

Með bréfi dags. 9. janúar 1973 tilkynnti skattstjóri kæranda að vegna breytinga á skattalögum væri brostin forsenda fyrir frádrætti á helmingi mismunar meðlags og persónufrádráttar. Hámarksfrádráttur vegna starfa eiginkonu kæranda væri í þessu tilviki kr. 55.000,00. Einnig krafðist skattstjóri reikninga frá S.Í.S. og K.B.B. vegna reksturs barnaheimilis, sem kærandi rak hluta af skattárinu.

Að fengnu svari lækkaði skattstjóri frádrátt vegna starfa konu úr kr. 150.000,00 í 55.000,00 og áætlaði kæranda viðbótartekjur vegna ófullnægjandi svars um reksturskostnað barnaheimilisins kr. 50.000,00.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

"Samkvæmt 3. tl. 20. gr. rgl. nr. 245/1963 telst ekki til skattskyldra tekna próventukaup og fúlga með ómaga, sem ekki er skylduómagi aðila, nema fúlgan nemi meira en framfærinu. Ákvæði þetta var sett samkvæmt heimild í B-lið 10. gr. laga nr. 70/1962 og er heimild sú enn til staðar í B-lið 11. gr. laga nr. 68/1971 að því er þetta ákvæði varðar. Ber því að taka sjálfstætt afstöðu til þess, hvort ætla megi að kærandi hafi haft tekjur af fóstrinu og hve miklar. Kæranda ber hins vegar ekki frádráttur vegna barnanna eftir 16. gr. skattalaganna, C-lið samkvæmt gagnályktun.

Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar hefur upplýst, að 3 barnanna, sem öll eru systkini, hafi komið til kæranda 1. janúar 1968, en 2 verið komin þar áður, líklega á árinu 1966. Hafi öll börnin dvalið þar síðan.

Kærandi telur sig hafa fengið kr. 450.000,00 í meðlag með börnunum eða sem næst 3földu meðalmeðlagi. Svo sem atvikum máls þessa er háttað, telst hæfilegt að meta kæranda til tekna þann hluta fósturlaunanna sem er umfram tvöfalt meðalmeðlag, eins og það var á skattárinu 1971, sem var kr. 30.088,00.

Með vísun til þessa fellur persónufrádráttur kr. 150.000,00 niður, en til frádráttar tekjum af fóstri kr. 450.000,00 komi kr. 300.880,00."

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja