Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 411/1974

Gjaldár 1973

Lög nr. 68/1971, 16. gr.  

Námskostnaður

Kærandi, sem var kennari við gagnfræðaskóla úti á landi, fékk árs leyfi til náms erlendis. Sundurliðaði hann kostnað vegna námsins þannig:

"Yfirfærsla gjaldeyris ............ kr. 695.871,-
Fargjöld og flutningskostnaður .... - 101.606,-
Kr. 797.477,-
÷ styrkir ......................... - 65.500,-
Samtals útlagður kostnaður ........ kr. 731.977,-

Kærandi gerði síðan grein fyrir kröfum sínum þannig:

"Samkvæmt reglum um ársfrí kennara á fullum föstum launum, fylgir sú kvöð, að kennari verður að nota þennan tíma til endurhæfingar og framhaldsnáms. Eins og fram kemur hér að framan, gerist slíkt ekki útgjaldalaust, og því frekar, þegar um fjölskyldufólk er að ræða.

Skattstjóri Suðurlands hefur fallist á, að til frádráttar tekjum til skatts árið 1972 leyfist kr. 146.466,-, en ekkert til útsvars.

Samsvarandi tölur 1973 er til skatts kr. 100.000,- og til útsvars kr. 10.000,- ívilnun.

Þá tilkynnir skattstjórinn undirrituðum, að ekki verði frekar tekið tillit til námskostnaðarins til frádráttar tekjum.

Farið er fram á, að áður tilfærður námskostnaður verði látinn standa óbreyttur til frádráttar tekjum á framtölum 1974, 1975 og 1976.

Til vara er farið fram á, að minnsta kosti helmingur útlagðs kostnaðar verði viðurkenndur til frádráttar tekjum, þannig að á framtali 1974 leyfist til frádráttar kr. 119.522,-.

Til þrautavara er farið fram á, að þeim frádrætti, sem skattstjóri hefur þegar fallist á, verði deilt á þrjú ár, þ.e. á framtal 1972 - 1973 - 1974, og að áður álagðir skattar verði endurreiknaðir samkvæmt því."

Ríkisskattanefnd taldi, að þar sem skattstjóri hefði veitt fullan námsfrádrátt samkvæmt mati ríkisskattstjóra miðað við nám og námstíma, bæri að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja