Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1174/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 15. gr., 7. gr.  

Fyrningar lausafjár - Söluhagnaður

Kærandi keypti í maí 1968 bifreið af tegundinni Dodge, 6 m. árgerð 1967. Kaupverð var kr. 277.793,00. Ríkissjóður innheimti ekki að fullu toll af bifreiðinni og á henni hvíldi tollkvöð að fjárhæð kr. 44.009,00. Á skattframtali sínu færði kærandi bifreiðina til eignar á kr. 277.793,00 og tollkvöðina kr. 44.009,00 til skuldar. Bifreiðina seldi kærandi 19. júlí 1971 á kr. 220.000,00. Með því að bifreiðin hafði ekki verið full fjögur ár í eigu hans, reiknaði skattstjóri honum til tekna helming söluágóða af henni. Þegar finna átti söluágóðann kom í ljós, að kærandi hafði aldrei verið krafinn um að greiða tollkvöðina. Fyrning, sem færð hafði verið til frádráttar tekjum, var reiknuð af upphaflegu kostnaðarverði án frádráttar á tollkvöðinni.

Þau kæruatriði, sem hér skipta máli, voru þessi:

1. Skattstjóri bakfærði fyrningu bifreiðarinnar að því marki, sem hún hafi verið reiknuð af eftirgefnum tollum, þ.e. kr. 44.009,00.

2. Á sömu forsendu var hluti aukafyrningar árið 1971 bakfærður.

3. Er sala bifreiðarinnar fór fram þann 19. júlí 1971 voru lög nr. 30 frá 14. apríl 1971 gengin í gildi. Skv. þeim skyldi söluhagnaður af fyrnanlegu lausafé sem verið hafði í eigu skattþegns lengur en tvö ár en skemur en fjögur skattskyldur að hálfu. Með tilliti til þess færði skattstjóri kæranda til tekna helming söluágóðans. Kærandi taldi óheimilt að beita þessu ákvæði í þessu tilviki.

Ríkisskattanefnd staðfesti hinn kærða úrskurð í öllum atriðum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja