Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1188/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 25. gr.  

Skattlagning dánarbús

Skattstjóri gerði skiptaráðanda f.h. dánarbús, sem var undir opinberum skiptum, að greiða tekju- og eignarskatt gjaldárið 1972. Skattar þessir voru lagðir á eftir II. tl. 25. og II. tl. 26. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 11. og 12. gr. laga nr. 7/1972. Í úrskurði skattstjóra, dags. 27/7 1972 segir m.a.:

„Skv. ákvæðum skattalaga ber að skattleggja dánarbú undir skiptum með skattstiga félaga, sem skv. núgildandi skattalögum er 53% af skattgjaldstekjum og 1,4% af skattgjaldseign að viðbættu 1% álagi til Byggingarsjóðs ríkisins. Skattgjaldstekjur dánarbúsins eru alls kr. 205.643,00 og hefði því fullur tekjuskattur með 53,3% gjaldstiga orðið kr. 110.080,00. Aftur á móti þótti rétt að veita gjaldanda hlutfallslegan persónufrádrátt einstaklings miðað við dánardægur, en hann lést 16. nóv. 1971 eða kr. 127.000,00. Skattgjaldstekjur voru því lækkaðar úr kr. 205.643,00 í kr. 78.643,00.“

Upplýst var, að skattgjaldstekjurnar höfðu fallið til gjaldanda í lifanda lífi, en búið hafði engar sjálfstæðar tekjur haft.

Skiptaráðandi skaut þessum úrskurði til ríkisskattanefndar. Í úrskurði ríkisskattanefndar segir, að við andlát gjaldanda hafi skattskyldu hans lokið, en jafnframt stofnast skattskylda dánarbúsins sbr. E-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971. Beri að leggja tekjuskatt á þær tekjur, sem til gjaldanda féllu í lifanda lífi eftir I. tl. 25. gr. laga nr. 68/1971, sbr. lög nr. 7/1972 og var tekjuskattur gjaldanda lækkaður í samræmi við það.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja