Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 233/2016

Lög nr. 138/2013, 5. gr. 3. og 4. mgr.   Lög nr. 37/1993, 20. gr. 2. mgr.  

Í máli þessu var ágreiningur um hvort kærandi, sem keypti íbúð á árinu 2015, skyldi njóta helmingsafsláttar af stimpilgjaldi þar sem um fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis væri að ræða, svo sem kærandi hélt fram. Fyrir lá að kærandi hafði keypt 50% hlut í annarri íbúð á árinu 2006 á móti þáverandi eiginkonu sinni, B. Var þeim kaupsamningi þinglýst sama ár, en afsal var eingöngu gefið út til B og þinglýst í kjölfar þess. Yfirskattanefnd taldi að skilja yrði afsalið svo að með undirritun sinni hefði kærandi afsalað sínum eignarhluta til B. Þar sem byggja yrði þannig á því að kærandi hefði verið þinglýstur eigandi að helmingshlut í öðru íbúðarhúsnæði á árinu 2006 væru skilyrði fyrir helmingsafslætti af stimpilgjaldi ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 2. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 12/2016; kæra A, dags. 28. desember 2015, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 28. desember 2015, sem kærandi sendi fjármála- og efnahagsráðuneytinu, varðar ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. desember 2015, um stimpilgjald. Kemur fram í kærunni að ágreiningur sé um hvort stimpilgjald skuli greitt eins og um fyrstu kaup kæranda á íbúðarhúsnæði hafi verið að ræða. Af hálfu kæranda er þess krafist að honum verði endurgreitt stimpilgjald að fjárhæð 115.800 kr.

Með bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 6. janúar 2016, hefur erindi kæranda verið sent yfirskattanefnd til meðferðar. Er vísað til þess í bréfi ráðuneytisins að samkvæmt 59. gr. laga nr. 125/2015, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016, taki yfirskattanefnd frá 1. janúar 2016 við úrlausn allra ólokinna ágreiningsmála um stimpilgjald sem til meðferðar séu hjá ráðherra. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið muni tilkynna kæranda um framsendingu erindisins.

II.

Helstu málavextir eru þeir að hinn 23. nóvember 2015 gerði kærandi kaupsamning um íbúð að R-götu. Þann 26. nóvember 2015 greiddi kærandi 119.800 kr. inn á reikning sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, en sú fjárhæð tók mið af hálfri fjárhæð stimpilgjalds á þeim grundvelli að um væri að ræða fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Samhliða því að kærandi lagði kaupsamninginn inn til þinglýsingar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu afhenti hann undirritaða yfirlýsingu vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis.

Með tölvupósti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 4. desember 2015, var kæranda tilkynnt að honum bæri að greiða fullt stimpilgjald af kaupsamningi sem myndi berast embættinu. Kærandi reifaði sjónarmið sín í tölvupósti sem hann sendi sýslumanni samdægurs. Í kjölfar frekari samskipta við sýslumann mun kæranda hafa verið gerð grein fyrir því að ekki yrði tekið á móti skjölum til þinglýsingar nema aukin greiðsla kæmi til vegna stimpilgjalds. Þann 15. desember 2015 greiddi kærandi 115.800 kr. í stimpilgjald til viðbótar við það sem áður hafði verið greitt.

Kaupsamninginum var þinglýst þann 21. desember 2015, en þá hafði kærandi samkvæmt framangreindu greitt 231.600 kr. í stimpilgjald samkvæmt ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

III.

Með kæru, dags. 28. desember 2015, skaut kærandi ákvörðun sýslumanns um stimpilgjald til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sbr. kæruheimild í þágildandi 1. mgr. 11. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Í kærunni kemur fram að kærandi telji sig ekki hafa verið þinglýstan eiganda eða afsalshafa að íbúðarhúsnæði áður en til kaupanna kom á R-götu, enda hafi kærandi undirritað yfirlýsingu þess efnis. Kærandi gerir grein fyrir því í kærunni að í beinu framhaldi af undirritun kaupsamnings 23. nóvember 2015 hefði fulltrúi fasteignasölu farið með samninginn og fylgigögn til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til þinglýsingar. Þá hafi kærandi greitt stimpilgjald miðað við að um fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis væri að ræða. Ekki hafi gengið eftir að fá kaupsamningnum þinglýst þar sem kærandi hefði sett nafn sitt á kaupsamning á árinu 2006. Kærandi bendir á að afsal vegna þeirrar fasteignar hafi aldrei verið gefið út til hans.

Kærandi tekur fram að hann líti svo á að kaupsamningur feli í sér samkomulag um hvernig staðið skuli að kaupum á fasteign, en afsal sé eiginlegur reikningur fyrir því sem keypt hafi verið. Þar sem ekki hefði verið gefið út afsal á nafn kæranda vegna kaupa á fasteign, fyrr en við kaup á eigninni að R-götu, líti kærandi svo á að það séu hans fyrstu kaup á fasteign.

IV.

Með bréfi, dags. 5. janúar 2016, hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagt fram umsögn vegna kærunnar. Í umsögninni er þess krafist að ákvörðun embættisins verði staðfest. Í umsögninni fjallar sýslumaður um heimildir kaupanda fasteignar samkvæmt annars vegar kaupsamningi og hins vegar afsali. Sé yfirfærsla eignarréttar í þrepum frá kaupsamningi til afsals. Sé afsal yfirlýsing seljanda um að kaupandi hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi og afsalsröð skuli því vera óslitin í þinglýsingabókum. Vísar sýslumaður um þetta til fræðirita, þinglýsingalaga nr. 39/1978 og laga nr. 40/2002, um fasteignakaup. Í umsögninni segir m.a.:

„Við ákvörðun stimpilgjalds vegna fyrstu kaupa er kannað hvort viðkomandi hafi verið þinglýstur eigandi fasteignar, sbr. 5. gr. laga um stimpilgjald. Flett er upp í tölvuyfirliti úr þinglýsingabókum um þinglýsta eigendur fasteigna á Íslandi. Upplýsingar þessar eru sóttar í uppflettiforrit sem vistað er hjá Þjóðskrá Íslands. Við könnun kom í ljós að kærandi hafði átt fasteignina að H-götu, sbr. kaupsamning skjal [...].

[...]

Ljóst er að kærandi var kaupsamningshafi ásamt B (50% hvort) samkvæmt kaupsamningi að H-götu, Reykjavík, útg. 27. janúar 2006 [...]. Kaupsamningurinn var stimpilskylt skjal og bar honum því að greiða stimpilgjald af umræddum samningi sem hann og þáverandi maki hans gerðu. Samtals voru greiddar kr. 62.720 í stimpilgjald vegna skjalsins.

Í afsali vegna íbúðarinnar, útg. 29. mars 2006, kemur fram að samkvæmt kaupsamningi sé [kærandi] einnig skráður kaupandi en að ósk kaupenda verði afsalið gefið út til B. Ekki verður annað séð en að [kærandi] hafi innt af hendi þær skyldur sem á honum hvíldu vegna kaupsamningsins enda var kaupsamningnum ekki rift. Við þinglýsingu afsalsins var litið svo á af hálfu embættis sýslumannsins í Reykjavík að afsalið hafi verið gefið út til þeirra beggja frá upphaflegum seljendum. Önnur túlkun hefði leitt til heimildarbrests, sbr. 24. þinglýsingalaga. Í yfirlýsingunni í afsalinu fælist því einnig afsal frá [kæranda] til B enda hafði kaupsamningi ekki verið rift. Greitt var stimpilgjald af eignaryfirfærslunni frá [kæranda] til B kr. 31.360. Það er því mat sýslumanns að í umræddu afsali felist afsal til kæranda og afsal frá honum til B. Breytir þar engu um að gerður hafi verið síðar kaupmáli milli kaupenda fasteignarinnar að H-götu.

Það er því mat sýslumanns að viðkomandi einstaklingur sé ekki að eignast sitt fyrsta íbúðarhúsnæði þar sem afsal hafi í raun verið gefið út til hans. Á grundvelli þess var beiðni hans hafnað og honum gert að greiða 0,8% gjaldhlutfall vegna kaupsamnings að R-götu.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 11. janúar 2016, var kæranda send umsögn sýslumanns í málinu og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal greiða 0,8% stimpilgjald af gjaldskyldum skjölum ef rétthafi er einstaklingur. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar greiðist hálft stimpilgjald af gjaldskyldu skjali þegar um er að ræða fyrstu kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði. Þá kemur fram í a-lið 4. mgr. lagagreinarinnar að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi samkvæmt 3. mgr. sé að kaupandi hafi ekki verið áður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun stimpilgjalds af kaupsamningi um kaup kæranda á íbúðarhúsi að R-götu í Reykjavík á árinu 2015. Er nánar tiltekið deilt um gjaldhlutfall stimpilgjalds af skjali þessu, þ.e. hvort skilyrði a-liðar 4. gr. laga nr. 138/2013 sé uppfyllt. Byggði sýslumaður á því að kærandi hefði keypt helmingshlut í íbúðarhúsnæði að H-götu í Reykjavík á árinu 2006 og því væri ekki um að ræða fyrstu kaup kæranda á íbúðarhúsnæði. Af hálfu kæranda er hins vegar á því byggt að þar sem hann hafi ekki verið afsalshafi að H-götu hafi hann ekki verið þinglýstur eigandi þess íbúðarhúsnæðis og því séu kaup hans á íbúðarhúsnæði við R-götu hans fyrstu kaup.

Óumdeilt er að kærandi og fyrrverandi eiginkona hans, B, undirrituðu kaupsamning um íbúðarhúsnæði að H-götu þann 27. janúar 2006 og var kaupsamningnum þinglýst 31. janúar 2006. Samkvæmt samningnum voru þau kaupendur til jafns. Í afsali vegna fasteignakaupanna, dags. 29. mars 2006, þar sem B var tilgreind afsalshafi, kom fram að samkvæmt kaupsamningi væri kærandi einnig skráður kaupandi, en að ósk kaupenda væri afsal eingöngu gefið út til B. Afsalinu var þinglýst 4. apríl 2006. Í kæru koma ekki fram skýringar á því hvers vegna sá háttur var hafður á að afsal var eingöngu gefið út til B. Í umsögn sýslumanns, dags. 5. janúar 2016, er tekið fram að ekki verði annað séð en að kærandi hafi innt af hendi skyldur sínar samkvæmt kaupsamningnum – en þar vísar sýslumaður væntanlega til þess að kærandi hafi greitt kaupverð að sínum hluta – enda hafi kaupsamningnum ekki verið rift. Þá er tekið fram í umsögninni að við þinglýsingu afsalsins hafi verið litið svo á að það hefði verið gefið út til beggja kaupendanna, þ.e. kæranda og B, en önnur túlkun hefði leitt til heimildarbrests, sbr. 24. gr. þinglýsingarlaga. Hafi því verið litið svo á að í umræddri yfirlýsingu í afsalinu fælist afsal frá kæranda til B og hafi stimpilgjald verið greitt af þeirri eignayfirfærslu. Af hálfu kæranda hafa engar athugasemdir verið gerðar í tilefni af umsögn sýslumanns og ályktunum sem þar koma fram.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að kærandi keypti með kaupsamningi, dags. 27. janúar 2006, 50% hlut í íbúðarhúsnæði að H-götu. Telja verður að með þinglýsingu kaupsamningsins hafi kærandi orðið þinglýstur eigandi umrædds húsnæðis í skilningi a-liðar 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013. Vegna umfjöllunar í kæru skal tekið fram að líta verður svo á að kaup fasteignar teljist hafa farið fram með gerð kaupsamnings um viðskiptin. Taka verður undir það með sýslumanni að skilja verður afsal vegna kaupanna, dags. 29. mars 2006, sem kærandi undirritaði auk B, þannig að seljendur hafi afsalað íbúðarhúsnæðinu til kæranda og B í samræmi við kaupsamning, en kærandi hafi með undirritun sinni jafnframt afsalað sínum eignarhluta til B. Þess er að geta að í 1. mgr. 16. gr. þágildandi laga nr. 36/1978, um stimpilgjald, kom fram að fyrir stimplun afsalsbréfa fyrir fasteignum skyldi greiða 4 kr. fyrir hvert byrjað þúsund af verði viðkomandi eignar, þ.e. fasteignamatsverði, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna. Sama gilti um önnur skjöl um afhendingu fasteigna, svo sem kaupsamninga. Í 18. gr. sömu laga kom fram að þegar kaupsamningur væri stimplaður væri afsalsbréf til sama kaupanda stimpilfrjálst. Fram er komið að greiddar voru 31.360 kr. í stimpilgjald við þinglýsingu umrædds afsals frá 29. mars 2006. Greiðsla á stimpilgjaldi vegna afsalsins er í samræmi við að það hafi falið í sér eignayfirfærslu helmingshluta viðkomandi fasteignar frá kæranda til B.

Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið verður að byggja á því að kærandi hafi verið þinglýstur eigandi að helmingshlut í íbúðarhúsnæði að H-götu á tímabilinu frá 27. janúar 2006 til 31. mars sama ár. Samkvæmt þessu verður að telja að skilyrði fyrir helmingsafslætti af stimpilgjaldi sé ekki uppfyllt í tilviki kæranda, sbr. a-lið 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013. Kröfu kæranda í máli þessu er því hafnað.

Ástæða þykir til að taka fram að meðal gagna málsins er hvorki tilkynning sýslumanns til kæranda um greiðslu stimpilgjalds né kvittun fyrir móttöku þess. Samkvæmt lögum nr. 138/2013 er ekki gerður áskilnaður um samhliða rökstuðning sýslumanns fyrir ákvörðun sinni um stimpilgjald. Á hinn bóginn verður að telja að sýslumanni sé skylt að leiðbeina aðila um að fá ákvörðun rökstudda, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ganga verður út frá því að slík leiðbeining hafi komið fram í tilkynningu/kvittun sýslumanns auk leiðbeininga um kæruheimild.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja