Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtatekjur
  • Endurreikningur gengistryggðs láns

Úrskurður nr. 239/2016

Gjaldár 2014

Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður 3. tölul., 8. gr. 2. mgr., bráðabirgðaákvæði XI.  

Ríkisskattstjóri færði kærendum til tekna meintar vanframtaldar vaxtatekjur sem kærendur fengu greiddar í tengslum við leiðréttingu banka á gengistryggðu íbúðarláni á árinu 2013. Kærendur mótmæltu því að þeim hefðu hlotnast vaxtatekjur heldur væri um að ræða hluta af leiðréttingu á áður greiddum vöxtum og gengismun. Yfirskattanefnd taldi ekki fara á milli mála að um væri að ræða tekjur kærenda af peningalegri eign, þ.e. fjárkröfu á hendur bankanum vegna ofgreiddra afborgana og vaxta af láninu. Var kröfu kærenda hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 23. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 140/2016; kæra A og B, dags. 12. júlí 2016, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra sem hann tók með úrskurði sínum, dags. 12. apríl 2016, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2014, að hækka fjármagnstekjuskattsstofn kærenda um 820.038 kr. vegna meintra vanframtalinna vaxtatekna frá Landsbankanum hf. sem kærendur hefðu fengið greiddar í tengslum við endurreikning á gengistryggðu láni bankans. Um skattskyldu teknanna vísaði ríkisskattstjóri til 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 8. gr. sömu laga. Af hálfu kærenda er þess krafist að breytingu ríkisskattstjóra verði hnekkt, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. júlí 2016.

II.

Helstu málavextir er þeir að ríkisskattstjóri aflaði upplýsinga frá Landsbankanum hf. um endurútreikning og greiðslur bankans vegna gengistryggðra útlána hans. Með bréfi umboðsmanns Landsbankans hf., dags. 16. desember 2015, bárust ríkisskattstjóra umbeðnar upplýsingar. Í bréfinu kom fram að í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011 og síðar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 hefði bankinn ráðist í endurútreikning á gengistryggðum útlánum sínum. Hefðu lántakendur ofgreitt af lánum hefði bankinn endurgreitt þeim ofgreidda fjárhæð. Einnig hefði bankinn greitt viðkomandi aðilum fjárhæð sem svaraði til lægstu útlánsvaxta af óverðtryggðum lánum sem Seðlabanki Íslands birti samkvæmt 10. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, reiknaðri eftir því sem ofgreiðslur hefðu komið til og fram til endurgreiðsludags. Hefði með þessum hætti verið gætt samræmis milli þess hvernig brugðist væri annars vegar við vangreiðslum og hins vegar við ofgreiðslum af gengistryggðum útlánum bankans. Hefði bankinn litið á vaxtareikning af þessari ástæðu sem hluta af réttri aðferðafræði við endurútreikninginn en ekki sem vaxtagreiðslur í hefðbundinni starfsemi fjármálafyrirtækis. Í yfirliti vegna kærenda kom fram að þau hefðu á árinu 2013 fengið greiddar 8.854.684 kr. vegna endurútreiknings bankans og að „tekjur“ næmu 820.038 kr.

Með bréfi, dags. 22. janúar 2016, tilkynnti ríkisskattstjóri kærendum um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2014, sbr. 2. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kom fram að ríkisskattstjóra hefðu borist upplýsingar frá Landsbankanum hf. um vaxtagreiðslu að fjárhæð 820.038 kr. til kærenda á árinu 2013 í tengslum við afturvirkt uppgjör láns. Hygðist ríkisskattstjóri færa kærendum til tekna umræddar vaxtatekjur og endurákvarða opinber gjöld til samræmis við þessa breytingu á skattframtalinu.

Með bréfi, dags. 3. febrúar 2016, mótmælti umboðsmaður kærenda fyrirhugaðri endurákvörðun á þeim grundvelli að upplýsingar um greiðslur vaxtatekna frá Landsbankanum hf. væru rangar eða að ríkisskattstjóri hefði lesið rangt úr upplýsingum bankans. Um væri að ræða endurreikning á íbúðaláni sem hefði hvílt á húseign kærenda og væri lánið uppgreitt. Umrædd greiðsla væri leiðrétting á áður greiddum greiðslum af láninu, þ.e. af höfuðstól, vöxtum og verðbótum, og væri því ekki um vaxtatekjur kærenda að ræða. Meðfylgjandi var m.a. bréf Landsbankans hf. til kærenda, dags. 13. ágúst 2013.

Í framhaldi af frekari upplýsingaöflun frá Landsbankanum hf., sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 12. febrúar 2016, sem bankinn svaraði 16. febrúar 2016, lagði ríkisskattstjóri fyrir kærendur með bréfi, dags. 22. febrúar 2016, að veita frekari skýringar á skattskilum sínum gjaldárið 2014, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Jafnframt afturkallaði ríkisskattstjóri boðunarbréf sitt til kærenda frá 22. janúar 2016. Ríkisskattstjóri rakti málavexti og sundurliðun Landsbankans hf. um greiðslur til kærenda sem hefðu borist embættinu 16. febrúar 2016 og skoraði í því ljósi á kærendur að gera grein fyrir hvers vegna vaxtatekna að fjárhæð 820.038 kr. væri ekki getið meðal skattskyldra fjármagnstekna í skattframtali þeirra árið 2014.

Með bréfi, dags. 10. mars 2016, rakti umboðsmaður kærenda að engar vaxtafjárhæðir væru tilgreindar í bréfi Landsbankans hf. til kærenda, dags. 13. ágúst 2013, og hefði endurgreiðsla bankans að fjárhæð 8.854.684 kr. verið lögð inn á bankareikning kærenda 6. ágúst 2013. Að mati kærenda hefði bankinn aðeins verið að tilkynna og endurgreiða þá lækkun lánsins, sem kærendur töldu að bankanum hefði borið að gera, sbr. tilvitnaða dóma Hæstaréttar í bréfi bankans. Það hvernig bankinn hefði reiknað út endurgreiðsluna hefðu kærendur fyrst séð með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 22. febrúar 2016. Við það vaknaði sú spurning hvort bankanum hefði ekki borið að halda eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af umræddum vaxtagreiðslum. Þar sem það hefði ekki verið gert yrði að líta svo á að bankinn liti á þennan útreikning sem innanhúsplagg til að finna út lækkunarfjárhæðina, enda væri hin umdeilda fjárhæð nefnd „bætur“ í skjalinu þó útreikningurinn væri miðaður við vexti Seðlabanka Íslands. Mótmæltu kærendur því að um væri að ræða vantaldar vaxtatekjur þeirra.

Með bréfi, dags. 23. mars 2016, tilkynnti ríkisskattstjóri kærendum á ný um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2014, sbr. 2. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Kom fram að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá Landsbanka hf. vegna leiðrétts endurútreiknings á láni kærenda hefði leiðréttur höfuðstóll verið 8.034.646 kr. og tilgreindir vextir af heildarútreikningi næmu 820.038 kr. Heildargreiðslan hefði verið greidd kærendum 6. ágúst 2013. Ekkert nýtt kæmi fram í svörum umboðsmanns kærenda sem breytt gæti því að umræddar vaxtatekjur væru skattskyldar samkvæmt 3. tölul. C-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 90/2003.

Fyrirhuguðum breytingum var mótmælt af hálfu umboðsmanns kærenda með bréfi, dags. 7. apríl 2016, en með úrskurði um endurákvörðun, dags. 12. apríl 2016, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum á skattframtölum kærenda árið 2014 í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Í kæru umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar, dags. 12. júlí 2016, kemur fram að kærendur hafi engar skýringar fengið á útreikningi Landsbankans hf. fyrr en ríkisskattstjóri lagði fram forsendur sínar með bréfi til kærenda, dags. 22. febrúar 2016. Þar komi fram að leiðréttingarfjárhæðin hafi verið hækkuð frá uppgreiðsludegi lánsins til greiðsludags leiðréttingarinnar um 820.038 kr. Sé þetta sú fjárhæð sem ríkisskattstjóri vilji meina að séu fjármagnstekjur hjá kærendum. Umrædd fjárhæð, sem bankinn færi sem bætur, sé þó ekki rétt fram færð, heldur hafi kærendur verið hlunnfarin um 71.120 kr. og því ljóst að nákvæmni sé ekki fyrir að fara hjá bankanum. Þá sé í útreikningi bankans ýmist talað um vaxtareikning eða bætur. Í öllu falli hafi bankinn ekki haldið eftir fjármagnstekjuskatti eins og verði að telja að bankanum hafi borið að gera hefði hann talið þetta vera vexti til viðkomandi. Kærendur hafi litið á fjárhæðina sem hluta af leiðréttingu á láninu, þ.e. á áður greiddum vöxtum og gengismun, en ekki vaxtatekjur, enda hafi fjármagnskostnaður kærenda verið hærri en sem nam þessari leiðréttingu.

IV.

Með bréfi, dags. 29. ágúst 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun embættisins. Í umsögn ríkisskattstjóra er tekið fram að kærendur hafi fengið endurútreikning á gengistryggðu fasteignaláni hjá Landsbankanum hf. í kjölfar tilgreindra dóma Hæstaréttar. Í bréfi bankans, dags. 13. ágúst 2013, til kærenda komi fram að bankinn hafi ákveðið að reikna vexti á inneignina frá uppgreiðsludegi lánsins til þess dags sem leiðréttingin var gerð með lægstu vöxtum óverðtryggðra lána sem Seðlabanki Íslands birti, sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001. Vextir teljist til skattskyldra tekna samkvæmt 3. tölul. C-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 8. gr. sömu laga. Vextir af kröfum teljast til skattskyldra tekna þegar þeir séu greiddir eða greiðslukræfir, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Skatthlutfall vegna fjármagnstekna utan rekstrar á árinu 2013 hafi verið 20%, sbr. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði XL í lögum nr. 90/2003 teljist inneignarvextir vegna endurreiknings gengistryggðra húsnæðis- og bílalána utan atvinnurekstrar, sem ákvarðaðir voru á árunum 2010 og 2011, ekki til fjármagnstekna. Í tilviki kærenda hafi endurútreikningur hins vegar verið gerður á árinu 2013 og eigi því bráðabirgðaákvæðið ekki við.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. ágúst 2016, var kærendum sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Ágreiningsefni máls þessa er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 12. apríl 2016, að færa til tekna í skattframtali kærenda árið 2014 meintar vantaldar vaxtatekjur frá Landsbankanum hf. að fjárhæð 820.038 kr. Fram er komið að greiðsla þessi kom til í tengslum við leiðréttingu Landsbankans hf. á gengistryggðu íbúðarláni kærenda hjá bankanum á árinu 2013. Byggði ríkisskattstjóri á því að greiðslurnar teldust til skattskyldra tekna samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 8. gr. sömu laga.

Samkvæmt kæru til yfirskattanefndar er farið fram á að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Er sú krafa einkum byggð á þeim röksemdum að hin umdeilda fjárhæð sé hluti af leiðréttingu á láni kærenda, þ.e. á áður greiddum vöxtum og gengismun, og kærendum hafi ekki hlotnast skattskyldar vaxtatekjur.

Samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, eins og ákvæði þetta hljóðaði við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2014, skal tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar vera 20% af þeim tekjum. Segir í 2. málsl. 3. mgr. 66. gr. að til fjármagnstekna í þessu sambandi teljist tekjur samkvæmt 1.–8. tölul. C-liðar 7. gr., „þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur“. Samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. teljast vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður, sbr. 8. gr. laganna, til skattskyldra tekna. Í 2. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að til tekna sem vextir, sbr. 1. mgr. sömu greinar, af kröfum eða inneignum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, teljist vextir sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir og greiddar verðbætur á afborganir og vexti. Til tekna í þessu sambandi teljist ennfremur gengishækkun hlutdeildarskírteina, svo og hvers kyns gengishagnaður og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum og hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum.

Meðal gagna málsins er tilkynning Landsbankans hf. til kærenda, dags. 13. ágúst 2013, þar sem kemur fram að í kjölfar dóma á árinu 2010 og setningu laga nr. 150/2010, sem breytt hafi ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, hafi bankinn endurreiknað gengistryggð fasteignalán einstaklinga, þar á meðal lán kærenda. Í framhaldi af dómum í málum nr. 600/2011 og 464/2012 hafi bankinn leiðrétt endurútreikning á láni kærenda miðað við þá niðurstöðu í dómum þessum að greiðslukvittanir jafngiltu fullnaðarkvittunum, svo og taki leiðréttur endurútreikningur mið af greiðslum frá endurútreikningsdegi fram til uppgreiðsludags. Sé hægt að fá endurútreikninginn sendan ef óskað sé eftir því. Jafnframt kemur fram í bréfinu að bankinn hafi ákveðið að „reikna vexti á inneignina frá uppgreiðsludegi lánsins til þess dags sem leiðréttingin er gerð með lægstu vöxtum óverðtryggðra lána sem Seðlabanki Íslands birtir, sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001“. Þá kemur fram að inneign kærenda eftir leiðréttingu nemi 8.854.684 kr. sem verði lögð inn á tilgreindan bankareikning.

Í málinu liggur einnig fyrir útreikningur Landsbankans hf. á fjárhæð endurgreiðslu til kærenda, en útreikningurinn fylgdi með tölvupósti bankans til ríkisskattstjóra 16. febrúar 2016. Þar kemur fram að lántökudagur á láni kærenda, upphaflega að fjárhæð 17.000.000 kr., hafi verið 6. febrúar 2007, dagsetning uppgreiðslu 30. desember 2011 og dagsetning leiðréttingar 6. ágúst 2013. Samkvæmt leiðréttum útreikningi á láninu, þar sem tekið hefur verið tillit til greiddra afborgana, vanskilakostnaðar og innheimtugjalda á tímabilinu mars 2007 til desember 2011, samtals að fjárhæð 183.505 kr., eru eftirstöðvar lánsins tilgreindar 16.816.495 kr. miðað við 1. desember 2011. Að viðbættum vöxtum til 30. desember 2011 (vextir 71.120 kr.) nemur framreiknuð staða lánsins 16.887.615 kr. Framreiknaðar greiðslur kærenda nema 24.922.261 kr. og er inneign kærenda 30. desember 2011 samkvæmt því 8.034.646 kr. Við þá fjárhæð er samkvæmt útreikningi Landsbankans hf. bætt 5,92% vöxtum frá 30. desember 2011 til 30. desember 2012 og 4,05% vöxtum frá þeim degi til 6. ágúst 2013, samtals 820.038 kr. Er sú fjárhæð einnig nefnd „bætur“ í útreikningsblaði Landsbankans hf., svo sem kærendur benda á.

Hvað sem líður síðastnefndri hugtakanotkun Landsbankans hf. í umræddu skjali og viðhorfum bankans sem fram koma í bréfi umboðsmanns hans til ríkisskattstjóra, dags. 16. desember 2015, þykir ekki fara á milli mála að um er að ræða tekjur kærenda af peningalegri eign, þ.e. fjárkröfu á hendur Landsbankanum hf. vegna ofgreiddra afborgana og vaxta af láni þeirra. Verður að taka undir það með ríkisskattstjóra að tekjur þessar teljist skattskyldar í hendi kærenda á grundvelli 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 8. gr. sömu laga. Eins og bent er á í umsögn ríkisskattstjóra getur bráðabirgðaákvæði XL í lögunum ekki átt við í þessu tilviki.

Vegna athugasemdar kærenda um að Landsbankinn hf. hafi ekki staðið skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af hinni umdeildu greiðslu skal tekið fram að samkvæmt 1. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, er staðgreiðsla samkvæmt lögunum bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts nema annað sé tekið fram í lögunum. Í 1. mgr. 12. gr. nefndra laga kemur fram að skilaskyldur aðili, þ.e. sá er halda skal eftir staðgreiðslu og skila í ríkissjóð samkvæmt 3. gr. laganna, og skattskyldur aðili, þ.e. sá er sæta skal afdrætti staðgreiðslu samkvæmt 2. gr., bera óskipta ábyrgð á þeim skatti sem dreginn er af fjármagnstekjum samkvæmt lögunum. Skattskyldur aðili ber þó ekki ábyrgð á þeim skatti sem hann sannar að skilaskyldur aðili hafi dregið af fjármagnstekjum hans, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. Þar sem staðgreiðsla tekjuskatts af fjármagnstekjum er bráðabirgðagreiðsla á tekjuári skal að því ári loknu fara fram ákvörðun og álagning tekjuskatts samkvæmt ákvæðum laga þar um, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1996. Í 21. gr. laganna kemur fram að ákvæði VIII. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, skuli gilda eftir því sem við eigi um ákvörðun skatts af vöxtum og arði, uppgjör staðgreiðslu af þeim tekjum og um innheimtu þeirra. Samkvæmt ákvæðum, sem hér hafa verið rakin, getur hugsanleg vanræksla skilaskylds aðila á skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 94/1996 ekki leyst skattskyldan aðila samkvæmt lögunum undan framtals- og skattskyldu, sé um skattskyldar tekjur að ræða.

Samkvæmt framanrituðu er kröfu kærenda í máli þessu hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kröfu kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja