Úrskurður yfirskattanefndar

  • Úthlutun við slit gagnkvæms félags
  • Teknategund
  • Tekjutímabil

Úrskurður nr. 258/2016

Gjaldár 2015

Lög nr. 90/2003, 2. gr. 1. mgr. 2. tölul., 7. gr. C-liður 5. tölul., 59. gr. 2. mgr.  

Í máli þessu var ágreiningur um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að skattleggja úthlutun til kæranda vegna slita Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f. sem vaxtatekjur í hendi kæranda. Hélt kærandi því fram að um væri að ræða endurgreidd iðgjöld eða stofnfé. Yfirskattanefnd taldi ekki verða ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins að greitt hefði verið stofnfé til félagsins eða að félagsmönnum hefði verið fært fé í stofnsjóð árlega miðað við viðskipti þeirra. Þannig yrði ekki séð að skattskyldu vegna færslu til séreignar hefði verið fullnægt. Var talið að líta yrði svo á að í tengslum við slit eignarhaldsfélagsins hefði verið um að ræða færslu fjár til hvers félagsmanns sem væri sambærileg færslu séreignar í stofnsjóði þeirra félaga sem um ræddi í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 og telja bæri til tekna samkvæmt 5. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga. Þá var talið að kæranda hefði borið að telja greiðsluna til tekna með tekjum ársins 2014 þótt greiðslan hefði ekki borist honum fyrr en 5. janúar 2015, enda hefði krafa kæranda til úthlutunar stofnast er frumvarp til úthlutunargerðar til eigenda félagsins var samþykkt á fulltrúaráðsfundi félagsins 30. október 2014.

Ár 2016, miðvikudaginn 14. desember, er tekið fyrir mál nr. 75/2016; kæra A, dags. 17. mars 2016, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2015. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að skattframtal kæranda árið 2015 barst ríkisskattstjóra með rafrænum hætti 13. mars 2015. Voru tilfærðar tekjur kæranda annars vegar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins 1.895.905 kr. í reit 40 og hins vegar greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða 1.189.283 kr. í reit 43. Þá voru tilfærðar vaxtatekjur frá Eignarhaldsfélaginu Andvöku g.f. í reit 36 að fjárhæð 31.068 kr. og afdregin staðgreiðsla af þeim vöxtum 6.214 kr. í reit 302. Ennfremur voru tilfærðar vaxtatekjur að fjárhæð 160.328 kr. af innlánsreikningum í reit 12 og afdregin staðgreiðsla af þeim vöxtum 32.064 kr. í reit 301. Samtals námu fjármagnstekjur því 191.396 kr. og stofn til fjármagnstekjuskatts 66.396 kr. Af gögnum málsins má ráða að ríkisskattstjóri hafi gert þá breytingu á skattframtali kæranda árið 2015 fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2015 að lækka fjárhæð skattskyldra bóta kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins í 1.851.180 kr.

Með kæru, dags. 21. ágúst 2015, kærði kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2015. Kom fram í kærunni að kærandi hefði leitað skýringa á álagningunni en engar fengið. Í kærunni var vísað til meðfylgjandi bréfs frá Eignarhaldsfélaginu Andvöku g.f., dags. 5. janúar 2015, og greint frá því að ávísun, sem fylgt hefði bréfinu, hefði verið leyst út 12. maí 2015. Tryggingastofnun ríkisins hefði hirt 28.000 kr. af umræddri greiðslu frá Eignarhaldsfélaginu Andvöku g.f. Af hálfu kæranda var skattlagningu greiðslunnar mótmælt. Búið væri að greiða 20% af heildartölu og um væri að ræða endurgreidd iðgjöld. Gat kærandi þess að hann hefði skilað skattframtalinu rafrænt með aðstoð starfsmanns ríkisskattstjóra.

Með kæruúrskurði, dags. 9. september 2015, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um breytingu á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2015 og tók jafnframt fram að hann svaraði ekki fyrir tekjuskerðingar eða útreikninga Tryggingastofnunar ríkisins. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að frumvarp til úthlutunargerðar hefði verið samþykkt á fundi fulltrúaráðs hinn 30. október 2014. Teldist úthlutunin því til skattskyldra tekna á árinu 2014 sem telja bæri fram í skattframtali árið 2015. Væri meðferð teknanna í samræmi við skattframtal kæranda árið 2015 og álagningarseðil. Um væri að ræða eign í Eignarhaldsfélaginu Andvöku g.f. í hlutfalli við iðgjaldagreiðslur áranna 1989 og 1990. Vísað var til þess að hér væri um að ræða skattskyldar tekjur samkvæmt 7. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kæruúrskurð þennan kærði kærandi til yfirskattanefndar með kæru, dags. 23. september 2015. Með úrskurði nr. 353/2015 ómerkti yfirskattanefnd hinn kærða úrskurð ríkisskattstjóra vegna annmarka á meðferð málsins. Fram kom að rökstuðningur hefði ekki uppfyllt lagakröfur til rökstuðnings, sbr. 4. málsl 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að auki skorti með öllu kæruleiðbeiningar, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagði yfirskattanefnd fyrir ríkisskattstjóra að kveða upp nýjan úrskurð samkvæmt 99. gr. laga nr. 90/2003.

Með kæruúrskurði, dags. 8. mars 2016, hafnaði ríkisskattstjóri á ný kröfu kæranda um breytingu á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2015. Tók ríkisskattstjóri fram að engum beinum ákvæðum væri til að dreifa í lögum nr. 90/2003 varðandi það hvernig fara skyldi með úthlutun eigna þegar gagnkvæmu vátryggingarfélagi væri slitið. Í 5. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 væri hins vegar kveðið á um að til skattskyldra tekna skyldi telja fé sem félög þau, sem um ræddi í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, færðu félagsaðilum sínum til séreignar í stofnsjóði vegna viðskipta þeirra. Ekki yrði ráðið af samþykktum félagsins að greitt hefði verið stofnfé til félagsins, né kæmi það heldur fram í ársreikningi fyrir árið 2014 sem fylgt hefði skattframtali árið 2015. Þá yrði heldur ekki ráðið að félagsmönnum hefði verið fært fé í stofnsjóð árlega miðað við viðskiptin. Sérstaklega væri kveðið á um að við slit félagsins yrði fjármunum úthlutað miðað við eign félagsmanna og þannig útreiknaður hlutur hvers og eins í eignum félagsins. Samkvæmt því, sem rakið hefði verið, og atvikum öllum yrði að líta svo á að við slit félagsins væri um að ræða færslu fjár til hvers félagsmanns sem sambærileg væri færslu séreignar í stofnsjóði þeirra félaga sem um ræddi í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 og telja bæri til tekna samkvæmt 5. tölul. C-liðar 7. gr. laganna. Hvað varðaði tímaviðmið vegna tekjufærslu umræddra tekna kom fram að tekjur bæri að jafnaði að færa til tekna þegar þær yrðu til, þ.e. þegar myndast hefði krafa vegna þeirra á hendur einhverjum, nema þegar um óvissar tekjur væri að ræða, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt þessu skyldi færa viðkomandi félagsmönnum til tekna úthlutun fjár úr félaginu þegar ákvörðun hefði verið tekin þar um og ljóst væri hver hlutur hvers og eins væri, sbr. almennt bréf ríkisskattstjóra nr. 6/2008. Á grundvelli ofangreinds yrði að telja að borið hefði að færa umrædda greiðslu til tekna í skattframtali kæranda árið 2015 vegna tekna ársins 2014. Með skírskotun til þess, sem rakið hefði verið, væri kæru kæranda hafnað.

II.

Með kæru, dags. 17. mars 2016, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 8. mars 2016, til yfirskattanefndar. Hafnar kærandi því að um sé að ræða gagnkvæmt vátryggingarfélag eins og ríkisskattstjóri haldi fram í úrskurði sínum, en í tilfelli kæranda sé um samvinnufélag að ræða. Gefi það augaleið að kærandi sé ekki látinn njóta vafans við túlkun á lögum nr. 90/2003, sem séu óljós, og krefst hann þess að álagning ríkisskattstjóra verði ógilt.

III.

Með bréfi, dags. 11. apríl 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. apríl 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 20. apríl 2016 hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Umsögn ríkisskattstjóra telur kærandi staðlað svar og án nokkurs rökstuðnings. Kærandi getur að nokkru viðskipta sinna við Eignarhaldsfélagið Andvöku g.f. og bendir á í því sambandi að verið sé að skattleggja löngu liðin mál og verði ekki séð að skattalög og stjórnsýslulög leyfi slíkan málatilbúnað. Þá sé búið að greiða fjármagnstekjuskatt. Kærandi getur þess ennfremur að með nýjum siðum sé svo komið að ríkisskattstjóri geri skattframtal hans. Hann þurfi hins vegar að samþykkja það. Það hafi hann ekki gert og að auki mótmælt símleiðis við þann starfsmann ríkisskattstjóra sem gerði skattframtalið.

IV.

Fram er komið að kærandi stóð skil á rafrænu skattframtali árið 2015 með aðstoð starfsmanns ríkisskattstjóra. Hefur kærandi gert grein fyrir því í málinu hvernig staðið var að þessari framtalsgerð. Í skattframtalinu voru færðar til tekna í reit 36 vaxtatekjur frá Eignarhaldsfélaginu Andvöku g.f. að fjárhæð 31.068 kr. og gerð grein fyrir staðgreiðslu af þeim tekjum í reit 302 að fjárhæð 6.214 kr. Var þetta í samræmi við forskráðar upplýsingar samkvæmt launauppgjöf greiðanda.

Ágreiningur máls þessa varðar þá ákvörðun ríkisskattstjóra við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2015 að skattleggja úthlutun til kæranda að fjárhæð 31.068 kr. vegna slita Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f., sbr. úthlutunargerð sem samþykkt var á fundi fulltrúaráðs félagsins hinn 30. október 2014 í framhaldi af ákvörðun fulltrúaráðs félagsins hinn 10. mars 2011 um að slíta félaginu. Kærandi taldist í hópi eigenda greinds félags samkvæmt 3. gr. samþykkta félagsins frá 24. maí 2004 þar sem svo var mælt fyrir að eigendur félagsins væru stofnfjáreigendur, Samvinnutryggingar g.t., tryggingartakar Líftryggingafélagsins Andvöku g.t. þegar félagið léti af líftryggingastarfsemi, og Andvökusjóðurinn, sbr. sérstakar reglur um þann sjóð í III. kafla félagssamþykktanna. Staða kæranda sem rétthafa við greinda úthlutun helgaðist af tryggingatöku kæranda hjá félaginu árið 1989 og/eða 1990, sbr. greinargerð skilanefndar Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f., dags. 5. janúar 2015, sem fylgdi umræddri greiðslu til kæranda að fjárhæð 31.068 kr. að frádregnum 20% fjármagnstekjuskatti að fjárhæð 6.214 kr. Í umræddri úthlutunargerð, dags. 30. október 2014, sem liggur fyrir í málinu meðal málsgagna í fyrra máli kæranda um sama efni, er tilgreint hverjir séu eigendur og rétthafar við slit Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f. og hver séu hlutföll þar að lútandi. Segir að í hópi eigenda og rétthafa við slit félagsins séu tilgreindir fyrrverandi tryggingartakar félagsins í réttu hlutfalli við iðgjaldagreiðslur þeirra árin 1989 og 1990, sbr. lista er sé hluti úthlutunargerðarinnar. Eignarhlutdeild nemi 40,7254676%, sbr. A-lið í I. kafla úthlutunargerðarinnar. Samkvæmt B-lið er Andvökusjóðurinn tilgreindur sem rétthafi með 9,1645324% eignarhlutdeild og í C-lið er Arion banki hf. tilgreindur með 50,11% eignarhlutdeild. Í II. kafla úthlutunargerðarinnar er fjallað um fjárhæðir til útgreiðslu. Vísað er til þess að ríkisskattstjóri hefði staðfest að miða ætti við óframreiknað upprunalegt stofnfé Andvöku 300.000 kr. Eigið fé til úthlutunar nemi 573.950.132 kr. og stofn til staðgreiðslu yrði því 573.650.132 hr. og afdráttur 20% fjármagnstekjuskatts yrði 114.730.026 kr. Til skipta séu 459.220.106 kr. og í samræmi við reiknaða eignarhlutdeild yrði tryggingatökum samkvæmt A-lið I. kafla úthlutunargerðarinnar greiddar 187.019.535 kr. sem skiptust milli þeirra eftir fyrrgreindum viðmiðunum.

Eins og fram er komið, sbr. I. kafla hér að framan, var umrædd greiðsla að fjárhæð 31.068 kr. vegna úthlutunar til kæranda vegna eignaraðildar hans við félagsslitin forskráð til tekna sem vaxtatekjur af stofnsjóðseign í reit 36 í skattframtali árið 2015 og afdráttur staðgreiðslu 6.214 kr. af þeirri fjárhæð tilfærður í reit 302. Eins og fyrr greinir skilaði kærandi skattframtali árið 2015 rafrænt með aðstoð starfsmanns ríkisskattstjóra, sbr. kæru til ríkisskattstjóra, dags. 21. ágúst 2015. Í þeirri kæru mótmælti kærandi jafnframt álagningu á umrædda greiðslu vegna slita Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f., enda væri ekki um skattskyldu að ræða heldur endurgreiðslu iðgjalda. Með kæruúrskurði, dags. 9. september 2015, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Sá úrskurður var ómerktur með úrskurði yfirskattanefndar nr. 353/2015 vegna tilgreindra annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri kvað upp kæruúrskurð að nýju hinn 8. mars 2016 og hafnaði enn kröfum kæranda. Byggði ríkisskattstjóri í meginatriðum á því að við slit félagsins væri um að ræða færslu fjár til hvers félagsmanns sem væri sambærileg færslu séreignar í stofnsjóði þeirra félaga sem um ræddi í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 sem telja bæri til tekna samkvæmt 5. tölul. C-liðar 7. gr. laganna. Þá hefði borið að telja umrædda greiðslu til tekna í skattframtali árið 2015 sem tekjur ársins 2014, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, enda hefði ákvörðun legið fyrir á árinu 2014 og þá ljóst hver yrði hlutur hvers og eins. Fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra að engin bein ákvæði séu í lögum nr. 90/2003 um hvernig með skuli fara við úthlutun eigna við slit gagnkvæms vátryggingarfélags. Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 17. mars 2016, er vísað til þessarar athugasemdar ríkisskattstjóra og bent á að í tilviki kæranda sé um að ræða samvinnufélag og því sé augljóst að kærandi fái ekki að njóta vafans vegna óskýrleika í löggjöf. Beri því að ógilda umrædda skattlagningu.

Í I. kafla í fyrirliggjandi samþykktum Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f. frá 24. maí 2004, sbr. breytingar á aðalfundum 15. júní 2007 og 15. júní 2010, var mælt fyrir um heiti og tilgang félagsins. Félagið var skilgreint sem gagnkvæmt félag, sbr. 1. gr. félagssamþykktanna. Samkvæmt 2. gr. félagssamþykktanna var tilgangur félagsins að eiga aðild að vátryggingarstarfsemi hvers konar og skyldum atvinnurekstri, kaup og sala og eignarhald á verðbréfum, lánastarfsemi og rekstur fasteigna, með það að markmiði að ávaxta sem best eigið fé félagsins. Ennfremur kom fram í 2. gr. samþykktanna að félaginu væri heimilt að annast fræðslu um vátryggingar og þjálfun og menntun á því sviði eða styrkja slíka starfsemi, auk þess að láta af hendi rakna til góðgerðar- og menningarmála. Í II. kafla félagssamþykktanna var kveðið á um eign og ábyrgð, í III. kafla um Andvökusjóðinn, í IV. kafla um fulltrúaráð, fundi og stjórn, í V. kafla um endurskoðun, í VI. kafla um breytingar, félagsslit og brottfall réttinda og þá sérstaklega 19. gr. um uppgjör vegna slita félagsins. Í 22. gr. félagssamþykktanna var mælt svo fyrir að um þau atriði, sem ekki væru ákvæði um í samþykktunum, færi eftir ákvæðum laga um samvinnufélög, eftir því sem við ætti. Um það efni gilda nú lög nr. 22/1991, um samvinnufélög.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra er ekki til að dreifa beinum ákvæðum í lögum nr. 90/2003 um hvernig skuli með fara við úthlutun eigna við slit gagnkvæms vátryggingafélags eða gagnkvæms félags, eins og raunin er í tilviki umrædds félags sem hafði verið breytt úr Líftryggingafélaginu Andvöku g.t. í Eignarhaldsfélagið Andvöku g.f. Er ríkisskattstjóri væntanlega að vísa til þess að skattareglur skorti um úthlutun við slit félags af þeim toga sem hér um ræðir, sbr. til samanburðar 4. mgr. 11. gr. laganna varðandi slit félaga samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna. Hvað sem þessu líður ber að hafa í huga að félagssamþykktir hafa að geyma í VI. kafla ákvæði um félagsslit og jafnframt kann tilvísun í 22. gr. félagssamþykktanna til ákvæða laga um samvinnufélög að hafa þýðingu, sbr. XII. kafla laga nr. 22/1991. Í 1. mgr. 19. gr. félagssamþykktanna kemur fram að verði ákveðið að slíta félaginu skuli fyrst inna af hendi allar skuldbindingar félagsins eða setja tryggingar fyrir greiðslu þeirra. Þá skuli endurgreiða framreiknað stofnfé og eigið fé samkvæmt 3. gr. tölulið 2. Loks skuli greiða þeim tryggingartökum Líftryggingafélagsins Andvöku g.t. sem enn eigi réttindi hjá félaginu á grundvelli eignarréttinda sinna í Líftryggingafélaginu Andvöku g.t. þegar það láti af líftryggingarstarfsemi sinni. Skuli framreikna allt stofnfé og annað eigið fé með sama hætti, sbr. 3. mgr. 4. gr. samþykktanna. Þá ber að hafa í huga að enda þótt lög nr. 90/2003 taki ekki með beinum hætti á skattlagningu við úthlutun vegna slíkra félagsslita, sem hér um ræðir, kunna skattalög að geyma ákvæði sem hafa þýðingu við úrlausn ágreiningsefnisins.

Í 2. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á um skattskyldu lögaðila. Í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna er mælt svo fyrir að til skattskyldra lögaðila teljist gagnkvæm vátryggingar- og ábyrgðarfélög, kaupfélög, önnur samvinnufélög og samvinnufélagasambönd. Hliðstætt ákvæði hefur verið lengi í lögum, sbr. t.d. b-lið 3. gr. laga nr. 74/1921, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem svo var mælt fyrir að tekjuskatt skyldu greiða gagnkvæm ábyrgðarfélög, kaupfélög, smjörbú, sláturfélög og önnur samvinnufélög, sbr. og 16. gr. laganna um skattskyldu til eignarskatts. Tekið skal fram að Líftryggingafélagið Andvaka var upphaflega gagnkvæmt vátryggingafélag (g.t.). Í kjölfar „samruna“ félagsins og B.Í. líftrygginga g.t. á árinu 1990 mun sú breyting hafa verið gerð á árinu 1991 á samþykktum Andvöku g.t. að heiti félagsins varð Eignarhaldsfélagið Andvaka g.f. Verður ekki annað ráðið en að óumdeilt sé að umrætt félag, Eignarhaldsfélagið Andvaka g.f., hafi fallið undir skattskyldu samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt 5. tölul. C-liðar 7. gr. greindra laga telst til skattskyldra tekna fé sem félög þau, sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, færa félagsaðilum sínum til séreignar í stofnsjóði vegna viðskipta þeirra. Þá er í 6. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 mælt svo fyrir að til skattskyldra tekna teljist fé, sem félög þau, sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, greiða félagsaðilum sínum vegna viðskipta þeirra, enda séu þessi viðskipti í tengslum við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi félagsaðilans eða sé varið til fjárfestingar í eignum sem notaðar eru í atvinnurekstri. Þess er að geta að í 8. gr. laga nr. 90/2003, sem fjallar um skattskylda vexti, afföll og gengishagnað, sbr. 3. tölul. C-liðar 7. gr. laganna, er í 2. tölul. 1. mgr. hinnar fyrstnefndu lagagreinar mælt svo fyrir að til tekna samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laganna teljist vextir af stofnsjóðseign í félögum samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Varðandi fyrrgreind ákvæði um skattlagningu séreignar félagsaðila í stofnsjóðum hjá þeim ber að hafa í huga frádráttarheimild 10. tölul. 31. gr. laganna þar sem heimilað er að draga frá tekjum lögaðila fjárhæð þá sem félög, sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 greiða félagsaðilum sínum í árslok eða færa þeim til séreignar í stofnsjóði í hlutfalli við viðskipti þeirra á árinu samkvæmt lögum um samvinnufélög.

Eins og fram er komið taldist kærandi til eigendahóps Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f. samkvæmt 3. gr. samþykkta félagsins vegna tryggingatöku hjá félaginu árin 1989 og/eða 1990. Samkvæmt samþykktum félagsins og úthlutunargerðinni voru tryggingartakar félagsins á fyrrgreindum árum, sem voru 8.300 talsins, eigendur að 40,73% hlut í félaginu í réttu hlutfalli við iðgjaldagreiðslur sínar þessi ár og skiptu á milli sín 187.019.535 kr. sem féllu þessum eigendahópi í skaut. Í þeim hópi var kærandi. Til úthlutunar við slitin kom hrein eign Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f. samtals 573.950.132 kr. Ekki verður ráðið, hvorki af samþykktum félagsins né öðrum fyrirliggjandi gögnum í málinu, þar á meðal ársreikningi fyrir árið 2014, að greitt hafi verið stofnfé til félagsins. Þá verður heldur ekki ráðið að félagsmönnum hafi verið fært fé í stofnsjóð árlega miðað við viðskiptin. Þannig verður ekki séð að skattskyldu vegna færslu til séreignar hafi verið fullnægt, sbr. 5. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 sem að framan er rakin. Að þessu virtu þykir mega fallast á þá ályktun ríkisskattstjóra í hinum kærða úrskurði, dags. 8. mars 2016, að líta verði svo á að í tengslum við slit eignarhaldsfélagsins hafi verið um að ræða færslu fjár til hvers félagsmanns sem sé sambærileg færslu séreignar í stofnsjóði þeirra félaga, sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 og telja ber til tekna samkvæmt 5. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Umrædd greiðsla til kæranda telst til fjármagnstekna, sbr. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 og sætti greiðslan réttilega afdrætti 20% fjármagnstekjuskatts af hendi skilanefndar Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f., sbr. umrætt bréf skilanefndarinnar, dags. 5. janúar 2015, sem fylgdi greiðslunni til kæranda, og viðeigandi ákvæði laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna.

Hvað snertir þá viðbáru, sem kærandi hefur haft uppi við meðferð málsins varðandi tímaviðmið tekjufærslu umræddrar greiðslu skal bent á að samkvæmt 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 skal að jafnaði telja tekjur til tekna á því ári, sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða. Fyrir liggur að frumvarp til úthlutunargerðar til eigenda Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f. var samþykkt einróma 30. október 2014 á fulltrúaráðsfundi félagsins og myndaðist þá krafa kæranda til þeirrar úthlutunar sem fjallað er um í málinu. Á því tímamarki lá fyrir hversu hárri fjárhæð yrði úthlutað til kæranda. Bar honum því að telja umræddar tekjur til tekna með tekjum ársins 2014, enda þótt að greiðslan bærist honum ekki fyrr en með bréfi skilanefndar Eignarhaldsfélagsins Andvöku g.f., dags. 5. janúar 2015.Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, er kröfum kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja