Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 73/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 23/1956   Lög nr. 73/1980 — 37. gr. 1. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl.   Reglugerð nr. 245/1963 — 17. gr. B-liður 3. tl. — 27. gr. I-liður  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsskylda — Aðstöðugjaldsstofn — Rekstrarkostnaður — Bústofn — Bústofnsskerðing — Niðurskurður sauðfjár — Bætur vegna niðurskurðar sauðfjár — Sauðfjárveikivarnir — Búrekstur — Landbúnaður — Skattmat ríkisskattstjóra — Skattmat búfjár

Málavextir eru þeir, að sauðfé var skorið niður hjá kæranda. Í landbúnaðarskýrslu fyrir rekstrarárið 1987 tekjufærði hann bætur vegna þessa niðurskurðar að fjárhæð 1.185.604 kr. og gjaldfærði jafnframt bústofnsskerðingu að fjárhæð 1.174.745 kr., sem að mestum hluta eða að 1.163.705 kr. átti rætur að rekja til niðurskurðarins. Þessa liði felldi kærandi brott úr aðstöðugjaldsstofni í greinargerð sinni um þann stofn, er fylgdi skattframtali hans árið 1988.

Með bréfi, dags. 22. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrrnefndar frádregnar fjárhæðir í aðstöðugjaldsgreinargerð væru felldar brott og stofn til aðstöðugjalds hækkaður í 1.743.361 kr., sbr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Í kæru, dags. 11. ágúst 1988, mótmælti umboðsmaður kæranda þessari breytingu og krafðist þess, að skattmati búfjár væri jafnað á móti tekjum af niðurskurðargreiðslum við ákvörðun aðstöðugjaldsstofns en ekki látið koma í veltu svo sem um verslunarviðskipti væri að ræða. Með kæruúrskurði, dags. 24. nóvember 1988, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, enda væri hún ekki studd neinum haldbærum rökum og álagningin væri samkvæmt gildandi reglum.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. desember 1988, og ítrekar kröfu sína um lækkun aðstöðugjaldsstofns með jöfnun skattmatsverðs búfjár á móti niðurskurðargreiðslum á sama hátt og stofnverði eigna er jafnað á móti söluverði þeirra.

Með bréfi, dags. 12. janúar 1990, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Svo sem fram kemur í málinu hefur kærandi fengið bætur vegna niðurskurðar sauðfjár á búi hans samkvæmt lögum um varnir gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma. Þessar greiðslur tekjufærði kærandi í landbúnaðarskýrslu og gjaldfærði jafnframt bústofnsskerðingu, er leiddi af aðgerðum þessum. Álitaefnin varða fjárhæð aðstöðugjalds kæranda samkvæmt málsgögnum einungis að því er tekur til þess, hvort gjaldfærða bústofnsskerðingu vegna niðurskurðar beri að reikna með í aðstöðugjaldsstofni. Bústofnsskerðinguna þykir bera að láta óhaggaða standa eins og kærandi hefur ákveðið hana og er út af fyrir sig eigi ágreiningsefni, sbr. 3. tl. B-liðs 17. gr. og I-lið 27. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Bústofnsskerðing telst rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt þessu ber að telja tilfærða bústofnsskerðingu aðstöðugjaldsskylda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja