Úrskurður yfirskattanefndar

  • Verðbreytingarfærsla

Úrskurður nr. 12/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 53. gr. 5. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1991 og sætti hann því áætlun gjaldstofna við álagningu opinberra gjalda það ár. Með kæru til skattstjóra, dags. 29. ágúst 1991, mótmælti umboðsmaður kæranda álögðum gjöldum þar sem álagning byggðist á áætlun skattstjóra. Boðaði hann að framtal 1991 ásamt tilheyrandi gögnum og rökstuðningi kæru yrðu send skattstjóra innan skamms. Boðað skattframtal, dags. 30. október 1991, barst skattstjóra 31. sama mánaðar. Með skattframtali fylgdi rekstrarreikningur vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda. Á samræmingarblaði (RSK 4.05) með framtalinu var verðbreytingartekjufærsla lækkuð um 208.784 kr. með vísan til ákvæða 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að gerðri þeirri breytingu var rekstrarhagnaður 0 kr.

Með kæruúrskurði, dags. 18. nóvember 1991, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991 án álags vegna síðbúinna skila. Skattstjóri hafnaði framangreindri lækkun verðbreytingarfærslunnar og vísaði til 5. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981. Væru eignir kæranda hærri en skuldir, þ.e. eignir væru 1.148.072 kr., en skuldir 641.396 kr. Yrðu því hreinar tekjur af rekstri kæranda 208.784 kr.

Með kæru, dags. 18. desember 1991, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Í rökstuðningi, dags. 12. febrúar 1992, kemur fram að með því að telja útistandandi kröfur vegna íbúðarsölu með eignum brjóti skattstjóri gegn inntaki og megintilgangi þess ákvæðis 5. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 að íbúðareign og skuldir vegna öflunar þeirrar eignar skuli ekki meðtalin við ákvörðun eignarstöðu þegar metið er hvort verðbreytingarfærsla til tekna skuli felld niður. Krefst hann þess að viðurkennt verði að eignir í lið 10.3 á framtali kæranda teljist ígildi íbúðarhúsnæðis og að kæranda sé heimilt að færa þær á móti skuldum vegna íbúðarhúsnæðis áður en útreikningur skv. 5. mgr. 53. gr. er framkvæmdur. Til vara krefst hann þess að inneignin teljist hluti af íbúðareign á þeirri forsendu að um sé að ræða skammtímainneign sem innleyst hafi verið að fullu í ársbyrjun 1991 og nýtt til lækkunar skulda vegna íbúðarhúsnæðiskaupa.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 7. júlí 1992, fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Samkvæmt fortakslausu ákvæði 5. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ber mönnum, er stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, við ákvörðun eignastöðu þeirrar, sem segir til um hvort viðkomandi á rétt til niðurfellingar verðbreytingarfærslu til tekna umfram tap, að telja allar framtalsskyldar eignir og skuldir að frátöldu íbúðarhúsnæði og einkabifreið innan tiltekinna marka og að frátöldum skuldum vegna þeirra eigna. Ekki verður fallist á það með kæranda að í tilvitnuðu lagaákvæði felist heimild til að undanskilja verðbréfaeign og útistandandi kröfur eða jafna slíkum eignum til íbúðareignar þótt þær megi rekja til íbúðarsölu. Verður því ekki hjá því komist að hafna kröfum kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja