Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 244/1993

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul.   Skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1989  

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 7. desember 1990, krafði skattstjóri kæranda skýringa á afnotum hans árið 1989 af bifreið sem skráð var í eigu launagreiðanda hans, X. Benti skattstjóri kæranda á að endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið sem launagreiðandi léti honum í té væru skattskyld skv. 7. gr. laga nr. 75/1981 og bæri að meta honum til tekna í samræmi við reglur ríkisskattstjóra um bifreiðahlunnindi í staðgreiðslu 1989. Þá væri allur akstur milli heimilis og vinnustaðar á bifreið launagreiðanda talinn falla undir skattskyld hlunnindi launþega.

Með bréfi, dags. 12. desember 1990, greindi kærandi frá því að umrædd bifreið væri notuð til vatnamælinga og væri hún merkt X. Þar sem starfið krefðist breytilegs vinnustaðar, en vinnustaðir kæranda væru aðallega á virkjunarstöðum X, teldi hann heimkeyrslu „réttlætanlega“. Kærandi kæmi oft heim og færi að heiman utan hins venjulega vinnutíma en auk þess hefði hann dvalið erlendis á vegum launagreiðanda þrjá mánuði sumarið 1989.

Með bréfi, dags. 11. janúar 1991, boðaði skattstjóri kæranda hækkun tekna vegna bifreiðahlunninda er svaraði til 20% af kaupverði bifreiðarinnar B ... að 9/12 hlutum eða 285.750 kr., samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um skattmat í staðgreiðslu árið 1989, en kærandi hefði haft þá bifreið til afnota í níu mánuði á árinu 1989.

Kærandi mótmælti ráðagerð skattstjóra í bréfi, dags. 16. janúar 1991. Gerði kærandi sundurliðaða grein fyrir þeim dögum á árinu sem hann var við virkjunarstaði stofnunarinnar við vatnsmælingar og þeim dögum sem hann dvaldi erlendis við nám eða í orlofi auk þess sem hann áréttaði skýringar sínar um geymslu bifreiðarinnar við heimili sitt vegna heimkomu og brottfarar frá heimili utan venjulegs vinnutíma.

Með bréfi, dags. 6. febrúar 1991, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hrint í framkvæmd boðaðri breytingu og endurákvarðað opinber gjöld hans gjaldárið 1990 í samræmi við það. Breyting skattstjóra snerist ekki um notkun kæranda á umræddri bifreið í þágu stofnunarinnar, enda yrði að gera ráð fyrir að sú notkun væri forsenda þess að kærandi hefði afnot af bifreiðinni, heldur um skattlagningu þeirra hlunninda sem kærandi hefði af einkaafnotum hennar, en ekkert hafi komið fram í málinu sem benti til þess að kæranda væru í raun sett einhver takmörk um notkun hennar. Þá ætti kærandi ekki bifreið samkvæmt skattframtali 1990.

Kærandi mótmælti breytingu skattstjóra í ódagsettri kæru, móttekinni hjá skattstjóra hinn 28. febrúar 1991, samkvæmt áritun hans um móttöku hennar. Áréttaði hann í kærunni fyrri skýringar sínar og röksemdir um takmarkaða möguleika til einkanota á bifreiðinni.

Með kæruúrskurði, dags. 28. október 1991, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Ekkert hafi komið fram í bréfum kæranda um að honum væru sett takmörk varðandi einkaafnot af bifreiðinni. Sú staðhæfing að kærandi dveldist langdvölum úti á landi vegna starfa sinna breytti ekki því að akstursþörf hans, hversu lítil sem hún kynni að vera, virtist vera mætt með notkun bifreiðarinnar.

II.

Kærandi skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. nóvember 1991. Vísaði hann til bréfaskipta er fram hefðu farið milli hans og skattstjóra í málinu auk þess sem hann tók fram að honum, sem öðrum starfsmönnum X, væru óheimil afnot bifreiða í eigu stofnunarinnar í eigin þágu.

Með bréfi, dags. 30. janúar 1992, gerði ríkisskattstjóri svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Hafi launamaður bifreið frá launagreiðanda sínum sem honum er heimilt að nota utan vinnutíma að einhverju leyti skal meta slík takmörkuð afnot til hlunninda með hliðsjón af því að hve miklu leyti þau eru í beina þágu launamannsins sjálfs. Takmörkuð afnot eru eingöngu akstur milli heimilis og vinnustaðar og tilfallandi og einstök afnot. Teljist akstur milli heimilis og vinnustaðar launamanns aðallega ráðast af þörfum hans telst aksturinn honum til hagsbóta og skal þá meta honum til hlunninda. Hlunnindamatið var kr. 10 pr. ekinn km árið 1989.

Í bréfum kæranda kemur fram að hann notaði bifreiðina til aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Hann hefur hins vegar ekki gert grein fyrir því að hvaða marki sá akstur var fyrst og fremst vegna þarfa launagreiðanda og að hvaða marki í eigin þágu sem reikna þarf hlunnindi af. Ríkisskattstjóri telur því kröfu kæranda vanreifaða og gerir kröfu um að henni verði vísað frá ríkisskattanefnd.

Fallist ríkisskattanefnd ekki á frávísunarkröfuna þá er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Með bréfi, dags. 19. október 1992, gerði yfirskattanefnd kæranda grein fyrir kröfugerð ríkisskattstjóra og gaf honum kost á að tjá sig um þau atriði í kröfugerðinni sem hann teldi ástæðu til.

Með bréfi, dags. 10. nóvember 1992, lét kærandi í ljós það álit sitt að umræddur akstur á milli heimilis og vinnustaðar þjónaði fyrst og fremst hagsmunum X þar sem hann hefði ekki fastan vinnustað og hefði t.d. vinnuaðstöðu á tveimur stöðum í Reykjavík. Umrædd bifreið væri merkt X og væri akstur til eigin nota óheimill. Um helmingur vinnutíma kæranda færi fram utan Reykjavíkur og væri þann tíma ekki um neinn heimakstur að ræða. Upphaf og endir ferða væri að öllu jöfnu fyrir utan hefðbundinn vinnutíma og myndi það verða kostnaðarsamt fyrir stofnunina ef skila ætti bifreiðinni í bílageymslu hennar að lokinni notkun. Þá gerði kærandi grein fyrir vegalengd frá heimili til aðalskrifstofu stofnunarinnar en samkvæmt því væri um 5 km akstur á milli heimilis og vinnustaðar að ræða eða um 50 kr. hvern vinnudag.

Með bréfi, dags. 10. desember 1992, ítrekaði ríkisskattstjóri fyrri kröfugerð sína, enda hefði ekkert nýtt komið fram í málinu af hálfu kæranda.

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Óumdeilt er í málinu að kærandi hafði á árinu 1989 bifreið vinnuveitanda síns til umráða utan vinnutíma. Ágreiningur stendur hins vegar um það hvort kærandi hafi haft bifreiðina til fullra umráða eða hún staðið honum til takmarkaðra afnota, sbr. orðalag í skattmati ríkisskattstjóra sem birt var í 5. tbl. Lögbirtingablaðsins 18. janúar 1989. Skilja verður skattmat ríkisskattstjóra þannig að bifreiðaafnot skuli meta til tekna eftir reglum um takmörkuð afnot ef eingöngu er um að ræða akstur milli heimilis og vinnustaðar, enda sé slíkur akstur í þágu launamanns, sbr. lið 1.5.2. í skattmatinu, svo og tilfallandi afnot, sbr. lið 1.5.3.

Skattstjóri hefur byggt niðurstöðu sína um að meta bifreiðanotkun til tekna eftir reglum um ótakmörkuð afnot á því að kærandi hafi ekki átt bifreið á árinu 1989 og að ekkert hafi komið fram um það að honum hafi í raun verið settar neinar þær takmarkanir um notkun bifreiðarinnar sem leitt gætu til annarrar niðurstöðu. Af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu verður hins vegar ráðið að það embætti telji afnot kæranda af bifreiðinni takmörkuð og málið snúist eingöngu um það atriði hvort þau hafi í för með sér skattlagningu eftir lið 1.5.2. í áðurnefndu skattmati. Fram er komið að bifreið sú sem um ræðir í málinu er merkt vinnuveitanda kæranda, sem er opinber stofnun. Að því virtu og með hliðsjón af kröfugerð ríkisskattstjóra verður ekki talið að skattleggja beri bifreiðahlunnindi kæranda eftir reglum um ótakmörkuð afnot. Hins vegar verður ekki fallist á það með kæranda að akstur hans milli heimilis og vinnustaðar sé ekki í þágu hans sjálfs, enda verður ekki talið að þessi akstur sé kvöð sem fylgi starfi kæranda. Þá verður að byggja á því að umráðum kæranda hafi fylgt einhver akstur í eigin þágu þar fyrir utan sem leiða eigi til skattlagningar eftir reglum í lið 1.5.3. í skattmati ríkisskattstjóra, enda liggur fyrir í málinu að kærandi á ekki bifreið sjálfur. Að því virtu sem fram er komið af kæranda hálfu um dvöl utanbæjar og erlendis þykir mega áætla hin takmörkuðu bifreiðaafnot kæranda sem svarar til 3.500 km aksturs. Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra leiðir það til 35.000 kr. hlunnindatekna og lækka tekjufærð hlunnindi í þá fjárhæð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Bifreiðahlunnindi kæranda á skattframtali 1990 verða 35.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja