Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Skattskyld starfsemi
  • Akstur hópferðabifreiðar
  • Skattverð
  • Álag

Úrskurður nr. 343/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 50/1988, 2. gr. 2. mgr. og 3. mgr. 6. tölul., 27. gr. 6. mgr.  

I.

Kærð er endurákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti kæranda uppgjörstímabilin janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní 1991.

Fram er komið í málinu að kærandi vann á árinu 1991 sem verktaki við akstur hópferðabifreiða fyrir X. Endurgjald fyrir þessa starfsemi, 484.360 kr., færði kærandi sér til tekna, auk annarra tekjuliða, í rekstrarreikningi er fylgdi skattframtali hans 1992.

Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 22. maí 1992, og að fengnu svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 4. júní 1992, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 19. júní 1992, um hækkun skattskyldrar veltu um fyrrnefnda fjárhæð á þeim forsendum að öll aðföng til reksturs á fólksflutningabifreiðum væru virðisaukaskattsskyld, þar með talin „útseld vinna við akstur“. Hækkaði skattstjóri skattskylda veltu uppgjörstímabilsins janúar-febrúar 1991 um 27.600 kr. og ákvarðaði útskatt 6.762 kr., veltu uppgjörstímabilsins mars-apríl 1991 hækkaði hann um 206.258 kr. og útskatt um 50.533 kr. og veltu uppgjörstímabilsins maí-júní 1991 hækkaði skattstjóri um 250.502 kr. og útskatt um 61.373 kr. Álag skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 ákvarðaði skattstjóri samtals 23.734 kr.

Með kæru, dags. 1. júlí 1992, mótmælti umboðsmaður kæranda ákvörðun skattstjóra með vísan til 6. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Fólksflutningar væru undanþegnir virðisaukaskatti og gæti ekki skipt máli hvort fólksflutningurinn væri unninn af verktaka, eins og kæranda, eða af launþega fólksflutningafélags. Hafnaði skattstjóri þessum sjónarmiðum með kæruúrskurði, dags. 6. júlí 1992, og vísaði til 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 ákvörðun sinni til stuðnings.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 16. júlí 1992, gerir umboðsmaður kæranda þá aðalkröfu að viðurkennt verði að útseld vinna kæranda við akstur hópferðabifreiðar verði talin undanþegin virðisaukaskatti með vísan til 6. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Varakrafa er að álag á meintan vangreiddan virðisaukaskatt verði fellt niður. Í kærunni kemur fram til rökstuðnings aðalkröfu að ekki geti skipt máli hvort aksturinn sé seldur af fólksflutningafélagi, þ.e. eiganda hópferðabifreiða, eða aðkeyptur af verktaka, svo sem kæranda. Benda megi á að umboðslaun vegna sölu vátrygginga hafi ekki verið talin virðisaukaskattsskyld þótt önnur umboðslaun séu það. Varakrafa er rökstudd með því að starfsmönnum skattstjóra hafi á árinu 1991 verið fullkunnugt um starfsemi kæranda en ekki gert athugasemdir um vangreiddan virðisaukaskatt fyrr en á árinu 1992.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 19. febrúar 1993, lagt fram svohljóðandi kröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Skv. 6. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þá er útseld vinna og þjónusta við fólksflutninga undanþegin virðisaukaskatti. Skv. 4. mgr. sömu greinar ná undanþágur 3. mgr. aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu, en ekki til virðisaukaskatts af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laganna.

Verktakavinna [kæranda] við akstur á rútum hjá X telst til aðfanga hjá hinum síðarnefnda og hefði [kæranda] verið rétt að innheimta virðisaukaskatt hjá honum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.“

II.

Í máli þessu er komið fram að sjálfstæð starfsemi kæranda fólst eingöngu í akstri hópferðabifreiðar fyrir tilgreindan eiganda slíkrar bifreiðar, en hvorki rak kærandi sjálfur hópferðabifreið eða hafði með höndum fólksflutningastarfsemi. Tekur undanþáguákvæði 6. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ekki til starfsemi kæranda, sbr. einnig 4. mgr. sömu lagagreinar. Verður að líta svo á að starfsemi kæranda sé virðisaukaskattsskyld samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, en starfssamband kæranda og vinnuveitanda hans er óumdeilt í málinu. Er aðalkröfu kæranda því hafnað, en rétt þykir að skattverð í tilviki kæranda miðist við 80,32% af aksturstekjum hans. Þá þykir mega fallast á varakröfu kæranda um niðurfellingu 20% álags á virðisaukaskatt.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Virðisaukaskattur uppgjörstímabilið janúar-febrúar 1991 lækkar um 1.330 kr., mars-apríl lækkar um 9.944 kr. og maí-júní lækkar um 12.078 kr. Álag, samtals 23.475 kr., falli niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja