Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Tekjudreifing
  • Álag

Úrskurður nr. 383/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 106. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda, sem er húsasmiður með sjálfstæða starfsemi, var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1991. Skattframtal kæranda það ár barst skattstjóra hinn 10. júní 1991 samkvæmt áritun skattstjóra á framtalið. Skattframtalið var tekið sem kæra.

Í málinu liggur fyrir skýrsla rannsóknardeildar skattstjóra, dags. 2. desember 1991, nr. … . Þar kemur fram að tekjur kæranda hafi nær eingöngu verið vegna vinnu hans sjálfs og tveggja sona hans, A og B. Efnissala hafi verið lítil. Launagreiðslur til sonanna hafi verið 672.000 kr. til A, sem sé lærður húsasmiður og hafi starfað í sjö mánuði, og 476.000 kr. til B, sem hafi starfað í þrjá til fjóra mánuði. Kærandi hafi upplýst að laun sona sinna í ársreikningi væru áætlaðar fjárhæðir því tímaskráning hafi verið í molum og laun greidd óreglulega. Launabókhald hafi ekkert verið og engar kvittanir vegna greiðslna. Á tekjureikningum hafi komið fram að kærandi hafi selt 332 dagvinnutíma B og 108 eftirvinnutíma alls fyrir 338.805 kr. Kærandi hafi sagst selja vinnu þeirra allra með um það bil 63% álagi. Hlutur B hafi samkvæmt því verið 207.856 kr. Í skýrslutöku 27. nóvember hafi kærandi viðurkennt að laun B væru óeðlilega há væri tekið mið af launum A sem sé lærður húsasmiður og unnið 3-4 mánuðum lengur.

Með ábyrgðarbréfi, dags. 3. desember 1991, var kæranda send skýrsla rannsóknardeildarinnar ásamt skýrslu þeirri sem tekin var af honum 27. nóvember. Kærandi vitjaði ekki bréfsins.

Með kæruúrskurði, dags. 20. desember 1991, lagði skattstjóri innsent skattframtal til grundvallar nýrri álagningu opinberra gjalda kæranda. Gerði hann m.a. þær breytingar á framtalinu að hann lækkaði gjaldfærð laun til sonar, B, í 207.856 kr., lækkaði gjaldfærðan launaskatt til samræmis við lækkun launa og lagði 25% álag á þá hækkun skattstofna sem leiddi af breytingum þessum, sbr. heimild í 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. janúar 1992. Kveður hann sér ráðgáta hvernig skattstjóri hafi komist að þeirri niðurstöðu að lækka laun B, sonar kæranda, úr 476.000 kr. B hafi starfað hjá föður sínum og fengið laun samkvæmt starfstíma. Hvort kærandi hafi getað selt vinnu sonarins sé málinu óviðkomandi. Launþega beri laun hvort heldur atvinnurekandi hafi tekjur á móti þeim eða ekki. Launagreiðslur hafi miðast við þau laun sem sonurinn hefði haft hjá óskyldum aðila. Kærandi hafi mánaðarlega skilað staðgreiðsluyfirliti þar sem fram hafi komið hver laun hann hafi greitt hverjum. Kveður umboðsmaðurinn kæranda betur í stakk búinn en starfsfólk skattstjóra að meta störf sonar síns við atvinnurekstur sinn. Þá mótmælir umboðsmaðurinn að skattstjóri hafi heimild til að bæta 25% álagi á þann skattstofn sem skapaðist vegna breytinga skattstjóra á gjaldfærðum launum. Kærandi telji sig hafa talið rétt fram og það sé því einhliða ákvörðun skattstjóra að breyta greiddum launum til sonar hans.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 4. desember 1992, f.h. gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra, enda virðist það hafa verið eigið mat kæranda við skýrslutöku hjá rannsóknardeild skattstjóra að laun sonar hans hafi verið óeðlilega há miðað við vinnuframlag.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá hafa synir kæranda aðeins tekið laun í maímánuði 1990, B 50.000 kr. og A 32.000 kr. Fram kemur í skýrslutöku af kæranda, dags. 27. nóvember 1991, að engin regluleg tímaskráning hafi átt sér stað á vinnu sona hans, og ómótmælt er af kæranda að laun B hafi verið óeðlilega há miðað við laun A. Að þessu virtu þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra, en hann hefur miðað laun B við útselda vinnu hans að teknu tilliti til álagningar kæranda. Ekki þykja efni til að falla frá álagi því er skattstjóri bætti á vantalinn skattstofn kæranda, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður skattstjóra er staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja