Úrskurður yfirskattanefndar

  • Útleiga laxveiðiár
  • Útflutningsráðsgjald
  • Launaskattur

Úrskurður nr. 399/1993

Gjaldár 1991

Lög nr. 14/1965, 2. gr. 3. mgr. 1. tölul.   Lög nr. 114/1990, 3. gr. 2. mgr. b-liður  

I.

Málavextir eru þeir að með kæru, dags. 15. ágúst 1991, kærði umboðsmaður kæranda álagningu útflutningsráðsgjalds til skattstjóra. Kom fram í kærunni að ekki yrði séð að kærandi hafi stundað atvinnustarfsemi sem gæti myndað stofn til útreiknings á slíku gjaldi. Með kæruúrskurði, dags. 17. september 1991, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að sú starfsemi sem kærandi hefði með höndum, útleiga á laxveiðiá, félli undir fiskveiðar samkvæmt atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands og væri því gjaldskyld starfsemi samkvæmt 3. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, með síðari breytingum.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var úrskurður skattstjóra kærður til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. október 1991 og 9. október 1991. Í kærunni er þess krafist að felld verði niður álagning launaskatts kæranda á árinu 1990 en þá hafi starfsemi kæranda verið undanþegin launaskatti, sbr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt. Jafnframt er gerð sú krafa að felld verði niður álagning launaskatts samrekstraraðila kæranda vegna sömu starfsemi svo og að á hann verði lagt útflutningsráðsgjald vegna sama árs en það hafi láðst að gera.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Eins og sakarefnið er vaxið í máli þessu þykir verða að fjalla um gjaldskyldu kæranda bæði til útflutningsráðsgjalds og launaskatts. Kærandi hefur í félagi við annan aðila útleigu laxveiðiár með höndum og starfsemi í tengslum við þá útleigu. Skattstjóri lagði útflutningsráðsgjald á kæranda vegna þessarar starfsemi á þeim grundvelli að hún teldist til fiskveiða samkvæmt b-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, með síðari breytingum. Engin rök standa til álagningar gjalds þessa á kæranda á þessum grundvelli, enda þykir óyggjandi að starfsemi hans telst ekki til fiskveiða í skilningi nefnds lagaákvæðis. Er þá meðal annars litið til forsögu laganna eins og hún kemur fram í lögskýringargögnum, sbr. athugasemdir í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 114/1990. Að því er varðar kröfu kæranda um niðurfellingu launaskatts þá verður ekki talið að starfsemi hans teljist frekar til fiskveiða í skilningi 1. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt þessu er álagt útflutningsráðsgjald gjaldárið 1991 fellt niður og jafnframt er kröfu kæranda um niðurfellingu launaskatts hafnað. Samrekstraraðili kæranda á hvorki aðild að kærumáli þessu né liggur fyrir kæranlegur úrskurður að því er hann varðar og er kærunni því vísað frá að því leyti sem hún varðar hann.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Álagt útflutningsráðsgjald gjaldárið 1991 er fellt niður. Kröfu kæranda um niðurfellingu launaskatts er hafnað. Kærunni er vísað frá að því leyti sem hún tekur til samrekstraraðila kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja