Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyldar tekjur
  • Dagvistarkostnaður
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 423/1993

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. og 4. tölul., 30. gr. 2. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að á skattframtali ársins 1990 taldi kærandi sér til tekna laun að fjárhæð 987.742 kr. Þá tók hún fram í athugasemdum í kafla 5 að hún hefði móttekið greiðslu frá launadeild ríkisspítalanna 104.745 kr. vegna mismunar á barnagæslugjaldi, sem greitt hefði verið tilgreindri dagmóður barnsins. Með bréfi, dags. 25. janúar 1991, krafði skattstjóri kæranda skýringa á mismun launa samkvæmt launamiða ársins 1990 frá launagreiðanda 1.092.487 kr. og framtalinna launa samkvæmt skattframtali eða 104.745 kr. og gaf maki kæranda þá skýringu í svari, dags. 31. janúar 1991, sem ritað var á ljósrit launamiða launagreiðanda til starfsmanns vegna greiddra launa ársins 1989 til kæranda, að umræddur mismunur væri endurgreiðsla á barnapössun meðan beðið væri eftir dagheimilisplássi hjá ríkisspítölunum og vísaði jafnframt til athugasemda í kafla 5 á skattframtali. Samkvæmt greindum launamiða voru greiðslur til kæranda taldar fram sem laun í reit 02 987.742 kr. og aðrar greiðslur 104.745 kr. í reit 29, sem samkvæmt meðfylgjandi sundurliðun launa svaraði til dagheimilisgjalds að sömu fjárhæð. Með bréfi, dags. 16. september 1991, tilkynnti skattstjóri, að umrædd fjárhæð hefði verið færð henni til tekna og álagning opinberra gjalda gjaldársins 1990 verið endurákvörðuð til samræmis. Með kæru, dags. 14. október 1991, mótmælti maki kæranda endurákvörðun skattstjóra og vísaði til þess að umrædd fjárhæð væri greiðsla á útlögðum kostnaði sem ríkisspítölunum bæri að greiða samkvæmt kjarasamningi vegna barnapössunar. Í raun væri um að ræða millifærslu á umræddri fjárhæð til dagmóður sem væri skattlögð hjá henni. Með kæruúrskurði, dags. 16. janúar 1992, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Féllst hann ekki á þann skilning kæranda að umræddur launamismunur væri endurgreiðsla á útlögðum kostnaði, heldur taldi að um væri að ræða skattskyldar tekjur sem telja bæri fram án nokkurs frádráttar og vísaði til 9. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í því sambandi. Þá vísaði skattstjóri til þess að hvað kjarasamninga varðaði væri ekki almennt tíðkað að kveða á um skattskyldu eða skattfrelsi í þeim. Þó að launþegum væru tryggðar ákveðnar greiðslur með kjarasamningi, réðist það af skattalöggjöf, að hve miklu leyti þær væru skattskyldar.

Af hálfu maka kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. febrúar 1992. Með úrskurði ríkisskattanefndar nr. ..., dags. 8. maí 1992, var kærunni vísað frá að svo stöddu vegna vanreifunar þar sem boðaður rökstuðningur hafði eigi borist. Með beiðni til yfirskattanefndar, dags. 9. júlí 1992, óskar maki kæranda eftir endurupptöku fyrrgreinds úrskurðar ríkisskattanefndar með svofelldri greinargerð:

„Í máli þessu er mótmælt að færðar séu til tekna kr. 104.745,- er [kærandi] móttók frá ríkisspítölunum til greiðslu á útlögðum kostnaði vegna gæslu á barni sínu. Hjá ríkisspítölunum hefur á undanförnum árum verið rekið barnaheimili fyrir börn starfsmanna. Í tilviki [kæranda] var ekki hægt í ákveðinn tíma að koma barni hennar fyrir í gæslu á barnaheimili ríkisspítalanna. Til að mismuna ekki stöðu hennar gagnvart öðrum starfsmönnum endurgreiddu ríkisspítalarnir útlagðan kostnað hennar vegna barnagæslu annars staðar, þ.e. hjá dagmóður.

Því er hér augljóslega um að ræða niðurgreiðslu á kostnaði við barnagæslu sem ekki verður talin til skattskyldra tekna í skilningi skattalaga.

Ef litið er til starfsemi dagvistarstofnana almennt má ljóst vera að hluti rekstrarkostnaðar þeirra er greiddur af foreldrum, en hluti af viðkomandi rekstraraðila, sem í flestum tilvikum er sveitarfélag. Fráleitt væri að skattleggja framlag sveitarfélagsins hjá foreldrum þeirra barna er njóta þjónustu leikskólanna.

Á sama hátt má benda á þær aðstæður hjá ýmsum forgangshópum, svo sem einstæðum foreldrum og námsmönnum, er vista börn sín hjá dagmæðrum en fá síðan endurgreiddan hluta kostnaðar hjá viðkomandi sveitarfélagi eða öðrum aðila. Móttaka á slíkri endurgreiðslu á útlögðum kostnaði hefur ekki verið talin skapa skattskyldu hjá viðkomandi aðila.

Í tilviki [kæranda] var sá háttur hafður á að endurgreiðsla var gerð samhliða launauppgjöri til hennar en ekki beint til viðkomandi dagmóður.

Með vísan til framanritaðs má ljóst vera að hér er um að ræða greiðslu á útlögðum kostnaði ríkisspítalanna sem þeir hafa tekið á sig í samskiptum við starfsmenn sína og því um að ræða starfsmannakostnað þeirra en ekki skattskyldar tekjur hjá kæranda í þessu máli.“

Með bréfi, dags. 14. ágúst 1992, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, þar sem um er að ræða skattskyldar tekjur sbr. 9. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.“

II.

Fallist er á endurupptöku úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 508/1992.

Kærandi starfar sem hjúkrunarfræðingur hjá Ríkisspítölum. Hluti af starfskjörum hennar þar virðist vera að hún fái gæslu fyrir barn sitt á barnaheimili spítalanna. Standa Ríkisspítalar straum af kostnaði við rekstur dagheimilisins að því leyti sem barnaheimilisgjald, er viðkomandi starfsmenn greiða, stendur ekki undir honum. Ekki hefur ríkisskattstjóri í skattmatsreglum sínum, sbr. 116. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, metið hlunnindi af þessu tagi sérstaklega til tekna. Greiðsla sú er kærandi móttók frá launagreiðanda sínum á árinu 1991, 104.745 kr., nam mismun kostnaðar við vistun barns kæranda hjá dagmóður og á dagheimili launagreiðanda. Er þar því um hliðstæðan kostnað að ræða og launagreiðandi hefur sjálfur af rekstri eigin dagheimilis. Eins og atvikum er hér hagað verður ekki talið rétt að sú fjárhæð, sem á launagreiðanda féll við að tryggja kæranda sömu starfskjör og þeim starfsmönnum er nutu vistunar fyrir börn sín á dagheimilum hans, komi til skattlagningar hjá kæranda, enda virðist eðlilegast að líta svo á að kærandi hafi einvörðungu verið milligöngumaður um þær greiðslur frá launagreiðanda til dagmóður, sbr. til hliðsjónar úrskurð ríkisskattanefndar nr. 176/1982, sbr. einnig bréf ríkisskattstjóra, dags. 15. desember 1981 og 7. janúar 1992, er fjalla um greiðslur sveitarfélaga vegna vistunar barna hjá dagmæðrum. Er því fallist á kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja