Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 80/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 10. gr. — 15. gr. — 23. gr. 1. mgr.  

Bifreiðaviðskipti — Bifreiðainnflutningur — Gróðaskyn — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar lausafjár — Söluhagnaður, skattfrjáls — Útreikningur söluhagnaðar — Söluhagnaður, útreikningur — Sölutap — Tap á sölu eigna utan atvinnurekstrar — Frádráttur sölutaps frá söluhagnaði — Samskonar eignir — Stofnverð — Sönnun — Sönnunarbyrði

Málavextir eru þeir, að í greinargerð um eignabreytingar í skattframtali sínu árið 1988 greindi kærandi frá bifreiðaviðskiptum á árinu 1987. Um var að ræða sölu þriggja bifreiða og kaup jafnmargra, þar á meðal kaup bifreiðar frá V-Þýskalandi af gerðinni Toyota Supra árg. 1983 fyrir 526.418 kr. og sölu sömu bifreiðar fyrir 750.000 kr. Hvorki gerði kærandi grein fyrir söluhagnaði vegna þessara viðskipta né færði slíkan hagnað sér til skattskyldra tekna.

Með bréfi, dags. 27. maí 1988, krafði skattstjóri kæranda um skýringar á því, hvers vegna hann tekjufærði ekki hagnað vegna sölu bifreiða og á hverju hann byggði það, ef hann teldi söluhagnaðinn falla undir ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 3. júní 1988, kom fram, að kærandi hefði um áramótin 1986/1987 átt bifreið af gerðinni Chevrolet Malibu árg. 1980. Um veturinn hafi kærandi ákveðið að selja þessa bifreið, en flytja inn bifreið í staðinn, sem hann hafði ráðgert að eiga. Þann 13. mars 1987 hafi kærandi selt þessa bifreið og verið bíllaus til 18. júní 1987, en þá hafi Toyotabifreiðin komið til landsins. Um haustið hafi kærandi ákveðið að halda til náms til Bandaríkjanna á árinu 1988 og dveljast þar við nám í nokkur ár. Því hafi hann selt bæði Toyotabifreiðina og fyrirtækið, sem hann hafi verið eignaraðili að. Fyrirtækið hafi verið selt á árinu 1988 en bíllinn 29. september 1987, fyrst með því að taka GMC jeppa upp í kaupin, er síðan hafi verið seldur með uppítöku á Volvobifreið, sem seld hafi verið á árinu 1988. Þetta sýni, að kærandi hafi ekki flutt bifreiðina inn í því skyni að selja hana aftur með hagnaði. Hann hafi ætlað sér að eiga bifreiðina en ákvörðun um nám breytt því. Með bréfi, dags. 25. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1988, að hagnaður af sölu bifreiða 211.142 kr. hefði verið færður til tekna í reit 76 með vísan til 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, tekjuskatt og eignarskatt, enda kæmi ekkert fram í bréfi kæranda, dags. 3. júní 1988, er sýndi fram á það, að undanþáguákvæði 2. mgr. 15. gr. tækju til umrædds söluhagnaðar.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra skotið til hans með kæru, dags. 22. ágúst 1988, og farið fram á, að fyrrgreind tekjuviðbót vegna söluhagnaðar yrði niður felld. Sem rökstuðning ítrekaði umboðsmaðurinn í meginatriðum þau sjónarmið, sem fram komu í bréfi, dags. 3. júní 1988. Með kæruúrskurði, dags. 17. nóvember 1988, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með skírskotun til bréfs síns, dags. 25. júlí 1988.

Með kæru, dags. 5. desember 1988, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og ítrekar kröfu sína um niðurfellingu hins tekjufærða söluhagnaðar, enda teljist hann ekki til skattskyldra tekna skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Endurteknar eru þær skýringar, sem gefnar voru við meðferð málsins á skattstjórastigi. Þá er gerð grein fyrir kostnaðarverði nefndrar Toyotabifreiðar og í því sambandi tekið fram, að ferðakostnaður hefði ekki verið tekinn í tilgreint verð 526.418 kr. og ekki heldur greiðsla til þýsks manns, sem hefði aðstoðað við kaupin né ýmislegt, sem gert hefði verið fyrir bifreiðina eftir innflutning hennar svo sem ísetning á hljómflutningstækjum. Þessi kostnaður hefði ekki verið tilgreindur í kostnaðarverði með því að bifreiðin hefði verið keypt sem heimilisbifreið en ekki í hagnaðarskyni. Þá er nánari grein gerð fyrir bifreiðaviðskiptunum, er í raun hafi verið afleiðing af sölu Toyotabifreiðarinnar, svo og ákvörðuninni um nám erlendis, er tekin hafi verið eftir að bifreiðin var keypt, en þessi ákvörðun hafi breytt forsendum kæranda og leitt til sölu bifreiðarinnar. Þá kemur fram, að sölulaun hafi ekki verið dregin frá söluverði, þar sem kærandi hafi ekki hirt um að geyma sölunótur, enda ekki talið þær hafa neina þýðingu.

Með bréfi, dags. 12. janúar 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda hefur ekki verið sýnt fram á að bifreiðanna hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði, eins og áskilið er í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981.“

Bifreiðaviðskiptum kæranda tekjuárið 1987 er lýst hér að framan. Hinn umdeildi söluhagnaður reiknaðist þannig að hagnað af sölu margnefndrar Toyotabifreiðar taldi skattstjóri nema 223.582 kr. og af GMC jeppa 5.000 kr. Frá þessum söluhagnaði dró skattstjóri tap að fjárhæð 17.440 kr. af sölu nefndrar bifreiðar af gerðinni Chevrolet Malibu. Samkvæmt skattframtali árið 1987, er fyrir liggur í máli þessu, seldi kærandi eina bifreið á tekjuárinu 1986 og keypti eina bifreið, fyrrnefnda Malibu-bifreið. Þessi tvö tekjuár var ekki um önnur bifreiðaviðskipti að ræða af hálfu kæranda samkvæmt málsgögnum. Í málinu liggur ekkert fyrir um slík viðskipti önnur tekjuár. Að þessu virtu og atvikum málsins að öðru leyti, m.a. eins og þeim er lýst í skýringum kæranda, sem út af fyrir sig hafa eigi verið vefengdar, þykir mega byggja á því, að hinn umdeildi söluhagnaður teljist kæranda ekki til skattskyldra tekna, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja