Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Félagsgjald, frádráttarbærni

Úrskurður nr. 659/1993

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 96. gr.  

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst ríkisskattanefnd með kæru, dags. 26. júní 1991, er sú ákvörðun skattstjóra að fella niður gjaldfært félagsgjald til Kaupmannafélags Akureyrar 21.000 kr. sem kærendur höfðu gjaldfært í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1989, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 30. maí 1991. Gera kærendur sem hafa með höndum verslunarrekstur, þá kröfu að framangreint félagsgjald verði viðurkennt sem rekstrarkostnaður skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattstjóri gerði framangreindar breytingar á grundvelli 96. gr. laga nr. 75/1981 að undangengnum bréfaskiptum. Byggði skattstjóri hina kærðu breytingu á því að um eigin gjöld kærenda væri að ræða. Vísaði skattstjóri til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 734/1983 í úrskurði sínum.

Umboðsmaður kærenda hefur gert nokkra grein fyrir Kaupmannafélagi Akureyrar. Aðilar að því eru einstaklingar og fyrirtæki sem stunda atvinnurekstur. Aðild að félaginu felur í sér aðild að Kaupmannasamtökum Íslands. Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna atvinnurekenda í verslun og veita þeim margvíslega þjónustu, svo sem standa fyrir auglýsingum um opnunartíma verslana og sjá um gerð kjarasamninga. Fram kemur að umrætt félag er eingöngu félag atvinnurekenda sem launþegar eiga ekki aðgang að.

Með bréfi, dags. 13. ágúst 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur og athugasemdir f.h. gjaldkrefjenda:

„Kæranda ber ekki skylda til að vera í nefndu félagi vegna starfs síns. Er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur meðal annars með vísan til þess svo og forsendna í úrskurði skattstjóra.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Það er við málsmeðferð skattstjóra að athuga að henni var eingöngu beint að öðrum kærenda.

Að beiðni yfirskattanefndar hafa af hálfu kærenda verið lögð fram lög Kaupmannafélags Akureyrar, sem samþykkt voru á aðalfundi þess 1986 og ársreikningur félagsins fyrir árið 1989. Fram kemur í 3. gr. laganna að félagið skuli vera í Kaupmannasamtökum Íslands og telst það og félagsmenn þess vera í þeim samtökum. Samkvæmt 4. gr. laganna getur sá orðið félagsmaður sem rekur verslun á félagssvæðinu. Hafi félagsmaður eigi haft opna verslun í eitt ár, skal hann tekinn af félagsskrá. Verði félaginu slitið, skulu eignir þess renna til Kaupmannasamtaka Íslands eða annars félags sem verði hugsanlega stofnað síðar á félagssvæðinu, sbr. 12. gr. laganna. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 1989 voru tekjur félagsgjöld og iðgjöld félagsheimilasjóðs atvinnurekenda, auk vaxtatekna. Gjöld voru einkum tillag til Kaupmannasamtaka Íslands, auglýsingar, innheimtukostnaður og ferða- og fundakostnaður.

Að virtum gögnum máls þessa og með vísan til starfsemi kærenda og þess sem upplýst er um starfsemi félagsins í kæru til ríkisskattanefndar, er fallist á að hin umdeildu félagsgjöld séu rekstrarkostnaður í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kærenda er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja