Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 678/1993

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul.  

I.

Málavextir eru þeir að skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 24. júlí 1992, að gjaldaliðurinn „fatnaður og hreinsun á fatnaði“ að fjárhæð 33.385 kr. hefði verið felldur niður af rekstrarreikningi ársins 1991 á þeirri forsendu að hann teldist eigi vera til öflunar tekna í atvinnurekstri samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tekjur í reit 62 á skattframtali kæranda hækkuðu því um ofangreinda fjárhæð.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra mómælt í kæru til skattstjóra, dags. 31. júlí 1992. Kærandi starfi sem hljómlistamaður og þurfi starfs síns vegna að leggja sér til vinnufatnað. Um væri að ræða smoking fatnað sem notaður væri við opinbera spilamennsku þannig að um væri að ræða óhjákvæmileg gjöld við öflun tekna sem falli undir 31. gr. laga nr. 75/1981. Með kæruúrskurði, dags. 27. október 1992, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeirri forsendu að vinnufatnaður kæranda og hreinsun hans teldist ekki rekstrarkostnaður í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Umboðsmaður kæranda hefur með kæru, dags. 25. nóvember 1992, skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Er ítrekað að um sé að ræða nauðsynlegan og óhjákvæmilegan kostnað við öflun tekna en kærandi starfi sem hljóðfæraleikari við ýmis opinber tækifæri, bæði sem einleikari og með hljómsveit. Með kærunni fylgir bréf tveggja veitingahúsa þar sem fram kemur að ætlast sé af kæranda að hann komi fram í smoking fatnaði, þegar hann sé undirleikari fyrir matargesti.

Með bréfi, dags. 30. desember 1992, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að hinn umdeildi gjaldaliður sé frádráttarbær frá tekjum samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kröfu kæranda er synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja