Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald
  • Breyting á félagaformi

Úrskurður nr. 72/2017

Lög nr. 138/2013, 3. gr. 1. mgr. (brl. nr. 125/2015, 38. gr.)  

Í máli þessu var ágreiningur um hvort greiða bæri stimpilgjald vegna eignayfirfærslu fasteignar í tengslum við breytingu á sameignarfélagi í einkahlutafélag. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að lögfest undanþága frá gjaldskyldu vegna eignayfirfærslna í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag eða skiptingar félaga tæki samkvæmt orðalagi sínu ekki til nafnbreytingar á eiganda fasteignar í tengslum við breytingu sameignarfélags í einkahlutafélag. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2017, miðvikudaginn 29. mars, er tekið fyrir mál nr. 218/2016; kæra A ehf., dags. 15. nóvember 2016, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 15. nóvember 2016, varðar ákvörðun sýslumanns, dags. 18. ágúst 2016, um stimpilgjald vegna eignayfirfærslu fasteignarinnar við G. Með ákvörðun sinni hafnaði sýslumaður kröfu kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds að fjárhæð 355.200 kr. vegna þinglýsingar skjals er laut að afsali fasteignarinnar frá A sf. til A ehf. Í kæru til yfirskattanefndar er krafist endurgreiðslu stimpilgjaldsins með vísan til 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi til sýslumanns, dags. 17. ágúst 2016, fór kærandi fram á endurgreiðslu stimpilgjalds að fjárhæð 355.200 kr. af skjali vegna afsals fasteignarinnar við G. Vísaði kærandi til 9. gr. laga nr. 138/2013, sbr. 2. máls. 1. mgr. 3. gr. sömu laga, í þessum efnum. Fram kom í bréfinu að þann 8. febrúar 2016 hefði verið haldinn félagsfundur í A sf. þar sem slit félagsins hefðu verið samþykkt. Hefði sú ákvörðun verið tekin í kjölfar þess að annar eigandi félagsins hefði afráðið að selja hinum eigandanum eignarhlut sinn. Var tekið fram í bréfinu að slit félagsins hefðu verið samþykkt með því móti að eigendur A sf. fengju eingöngu eignarhluta í A ehf. sem gagngjald fyrir eignarhluti sína í sameignarfélaginu. Hefði félagið haldið áfram starfsemi í hinu nýja félagaformi en annar eigandinn hefði sem fyrr segir selt hinum eignarhlut sinn. Krafa kæranda um endurgreiðslu stimpilgjaldsins væri byggð á því að eignayfirfærsla fasteignar verslunarinnar frá sameignarfélaginu til einkahlutafélagsins fæli aðeins í sér nafnabreytingu og væri því undanþegin gjaldskyldu samkvæmt 2. máls. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, svo sem nánar var rökstutt.

Með ákvörðun, dags. 18. ágúst 2016, hafnaði sýslumaður kröfu kæranda. Fram kom í bréfi sýslumanns að samkvæmt meginreglu 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013 beri að greiða stimpilgjald af skjölum er varði eignayfirfærslu fasteigna. Ákvæði 2. máls. 1. mgr. 3. gr. laganna væri undantekning frá innheimtu stimpilgjalds sem bæri að túlka þröngt. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins og athugasemdum frumvarps er varð að lögum nr. 138/2013, sbr. lög nr. 125/2015, takmarkist undantekningin við nafnabreytingar vegna samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag og skiptingar. Þær aðstæður ættu ekki við í málinu og var fyrri ákvörðun sýslumanns um gjaldskyldu stimpilgjalds látin standa óhögguð.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. nóvember 2016, er þess krafist að kærandi fái endurgreitt stimpilgjald að fjárhæð 355.200 kr. vegna yfirfærslu fasteignarinnar að G. Þá er gerð krafa um að kæranda verði ákvarðaður málskostnaður að fullu, sbr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/1998.

Í kærunni eru málavextir raktir. Þá kemur fram að krafa kæranda byggi á því að yfirfærsla fasteignarinnar við G feli einungis í sér í sér nafnabreytingu og því eigi undanþáguheimild 2. máls. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013 við í málinu. Samkvæmt greindu ákvæði sé eignayfirfærsla fasteigna undanþegin stimpilgjaldi, m.a. þegar um sé að ræða yfirfærslu vegna breytingar einkahlutafélags í hlutafélag. Þá eru athugasemdir við 31. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 125/2015 teknar eru orðrétt upp í kærunni. Telur kærandi að með vísan til orðalags í frumvarpinu sé ekki um að ræða tæmandi talningu á formbreytingum félaga sem undanþegnar eru stimpilgjaldi, en í almennum athugasemdum við frumvarpið komi fram að gjaldskylda stimpilgjalds við breytingu á eigendaskráningu fasteigna gæti verið óheppileg hindrun við formbreytingu félaga. Er byggt á því að um ónákvæmt orðalag hafi verið að ræða við lagasetningu og markmiðið með lögunum hafi verið að einfalda mönnum breytingu á rekstrarformum, þ.m.t. að breyta sameignarfélagi í einkahlutafélag. Álagning stimpilgjalds samrýmist því ekki markmiði laganna í þessu tilviki. Væri litið beint á orðalag laganna væri t.a.m. stimpilgjald af breytingu hlutafélags í einkahlutafélags en ekki öfugt, en slíkt fái vart staðist. Telja verði að samsvara megi yfirfærslu sameignarfélags í einkahlutafélag við breytingu einkahlutafélags í hlutafélag. Er tekið fram í niðurlagi kærunnar að umboðsmaður kæranda hafi sent sambærilegar beiðnir til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem fallist hafi á þær beiðnir og þar með sambærilegar röksemdir og settar hafi verið fram í málinu af hálfu kæranda.

IV.

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2016, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni hafnar sýslumaður kröfu kæranda og vísar til fyrri ákvörðunar þinglýsingarstjóra í málinu. Þá beri að hafna málskostnaðarkröfu kæranda en að öðrum kosti verði að gæta þess að sanngjarnt hlutfall sé á milli ákvarðaðs málskostnaðar og þeirra hagsmuna sem eru í húfi. Kærandi hafi að mati sýslumanns ekki borið verulegan kostnað af rekstri málsins fyrir yfirskattanefnd, enda sé kæra félagsins að miklu leyti efnislega samhljóða erindi kæranda til sýslumanns, dags. 17. ágúst 2016.

Með bréfi yfirskattanefndar, 1. desember 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn sýslumanns í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæruefni í máli þessu er sú ákvörðun sýslumanns að synja kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds að fjárhæð 355.200 kr. af skjali er varðar eignayfirfærslu fasteignarinnar að G. Af hálfu kæranda er þess krafist að umrætt stimpilgjald verði endurgreitt, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013, þar sem um sé að ræða nafnabreytingu í tilefni af breytingu á félagaformi úr sameignarfélagi í einkahlutafélag en ekki raunveruleg eigendaskipti að fasteigninni.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal greiða í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögunum. Í fyrri málslið 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi. Samkvæmt síðari málslið ákvæðisins á ákvæði 1. málsl. ekki við þegar nafnbreyting verður á eiganda fasteignar eða skipa yfir 5 brúttótonnum í opinberum skrám, svo sem í þinglýsingabókum, í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag eða skiptingar. Umrætt ákvæði síðari málsliðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013 var tekið upp í lög um stimpilgjald með 38. gr. laga nr. 125/2015, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 125/2015, kom eftirfarandi fram:

„Með ákvæðinu er lagt til að nafnabreyting á eiganda fasteignar eða skips yfir 5 brúttótonnum í opinberum skrám, svo sem þinglýsingabókum, í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag eða skiptingar, þ.m.t. samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, teljist ekki vera eignaryfirfærsla í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. stimpilgjaldslaga þannig að slík nafnabreyting verði ekki gjaldskyld samkvæmt lögunum.

Ákvæðið á meðal annars við þegar einkahlutafélagi eða hlutafélagi er slitið án skuldaskila þannig að það er algerlega sameinað öðru einkahlutafélagi eða hlutafélagi þar sem annað félag tekur við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum hins yfirtekna félags (samruni með yfirtöku) og þegar tvö eða fleiri hlutafélög renna saman í nýtt félag (samruni með stofnun nýs félags) á grundvelli XIV. eða XIV. kafla A hlutafélagalaga eða XIV. kafla einkahlutafélagalaga. Margvíslegar ástæður geta legið að baki ákvörðun um samruna eða skiptingu félaga, svo sem áætlun um vöxt félags, ávinningur af samlegðaráhrifum breytingar í rekstri eða fjármálatengd atriði.

Ákvæði frumvarpsins á ekki við þegar tilfærsla eigna verður milli félaga innan félagasamstæðna. Slíkar tilfærslur eigna teljast vera eignayfirfærslur í skilningi 1. mgr. 3. gr. stimpilgjaldslaga.“

Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 125/2015 kom jafnframt fram að þegar frumvarp til laga um stimpilgjald nr. 138/2013 hefði verið til meðferðar á Alþingi hefði efnahags- og viðskiptanefnd verið bent á að skjöl er kvæðu á um breytingu á eigandaskráningu fasteigna í kjölfar samruna teldust ekki vera stimpilgjaldsskyld þar sem slíkar tilfærslur eigna kvæðu ekki á um eigendaskipti í skilningi þágildandi laga um stimpilgjald nr. 36/1978. Í því sambandi hefði verið vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 27. janúar 2005 í málinu nr. 306/2004 þar sem staðfest hefði verið að skjöl sem kvæðu á um breytingu á eigandaskráningu fasteigna í kjölfar samruna félaga teldust ekki vera stimpilgjaldsskyld. Niðurstaða Alþingis hefði þó engu síður orðið sú að gjaldskyldan ætti að ná til þessara tilvika. Reynslan hefði sýnt að gjaldskylda við þessar aðstæður gæti verið óheppileg hindrun við formbreytingar félaga og eftir frekari skoðun þætti rétt að leggja til að umræddar nafnabreytingar á eignum í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag og skiptingar félags teldust ekki vera eignaryfirfærsla í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. stimpilgjaldslaga og væru því undanþegnar stimpilgjaldi.

Eins og fram er komið skal greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignayfirfærslu fasteigna hér á landi samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013. Samkvæmt 2. málsl. sömu málsgreinar, sbr. 38. gr. laga nr. 125/2015, á ákvæði 1. málsl. fyrrnefndrar 1. mgr. 3. gr. laganna ekki við þegar nafnbreyting verður á eiganda fasteignar í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag eða skiptingar félaga. Um ráðstafanir af slíkum toga er fjallað í löggjöf um viðeigandi félagaform, sbr. t.d. XIV. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og XIV. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, að því er snertir samruna, breytingu og skiptingu hluta- og einkahlutafélaga. Samkvæmt orðalagi sínu tekur ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013 ekki til nafnbreytingar á eiganda fasteignar í tengslum við breytingu sameignarfélags í einkahlutafélag og af lögskýringargögnum verður ekki ráðið að ætlun löggjafans hafi verið sú að slíkar ráðstafanir féllu undir ákvæðið, sbr. hér að framan.

Með vísan til framanritaðs og þar sem ekki er tölulegur ágreiningur í málinu um fjárhæð stimpilgjalds vegna hinnar umdeildu ráðstöfunar verður að hafna kröfu kæranda. Samkvæmt þeim úrslitum málsins eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja