Úrskurður yfirskattanefndar

  • Ívilnun í sköttum

Úrskurður nr. 79/2017

Gjaldár 2016

Lög nr. 90/2003, 65. gr. 1. mgr. 5. tölul.  

Kröfu kæranda um ívilnun í sköttum var vísað frá yfirskattanefnd sem tilefnislausri, enda bar kærandi hvorki tekjuskatt né útsvar og lækkun skattstofna hafði því enga skattalega þýðingu fyrir hann.

Ár 2017, miðvikudaginn 26. apríl, er tekið fyrir mál nr. 15/2017; kæra A, mótt. 3. febrúar 2017, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Helstu málavextir eru þeir að með kæru, sem móttekin var hjá ríkisskattstjóra 23. júní 2016, óskaði kærandi eftir lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2016 vegna eignatjóns, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í kærunni vísaði kærandi til meðfylgandi dómsúrskurðar og greiðsluáætlunar tollstjóra. Fram kom að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2016 hefði verið staðfestur nauðasamningur kæranda til greiðsluaðlögunar. Í úrskurðinum kom fram að fjárhagserfiðleika kæranda mætti einkum rekja til gallamáls vegna fasteignar sem kærandi keypti á árinu 2006 að S í Reykjavík, tekjumissis, skilnaðar og efnahagshruns, svo sem nánar var rakið.

Með bréfi, dags. 1. september 2016, skoraði ríkisskattstjóri á kæranda að rökstyðja kæru sína með frekari gögnum um meint eignatjón. Leggja þyrfti fram gögn um tjónið, þ.e. um hvers konar tjón væri að ræða, ásamt gögnum um mat á tjóninu. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að láta gögnin í té. Engin gögn bárust og með kæruúrskurði, dags. 5. október 2016, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Ríkisskattstjóri gerði grein fyrir ákvæði 5. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og reglum nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá gerði hann grein fyrir þeim aðstæðum sem geta gefið tilefni til ívilnana í sköttum samkvæmt 49. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Ríkisskattstjóri tók fram að ekki yrði annað ráðið um meint eignatjón kæranda en það sem fram kæmi í fyrrgreindum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Engin gögn hefðu fylgt kærunni um eignatjónið sjálft eða greiddan kostnað kæranda vegna þess. Ríkisskattstjóri hefði með bréfi, dags. 1. september 2016, skorað á kæranda að rökstyðja kæruna og leggja fram frekari gögn um eignatjón á árinu 2015. Svar hefði ekki borist. Að svo komnu máli yrði ekki séð að kærandi hefði borið verulegan óbættan kostnað á árinu 2015 vegna eignatjóns. Ekki væru því fyrir hendi skilyrði til lækkunar samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og væri kæru kæranda því synjað.

Næst gerðist það í málinu að hinn 23. nóvember 2016 barst ríkisskattstjóra bréf frá kæranda ásamt gögnum. Tók ríkisskattstjóri erindi kæranda til meðferðar sem beiðni um endurupptöku á kæruúrskurði embættisins, dags. 5. október 2016, sbr. ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og með bréfi, dags. 12. janúar 2017, hafnaði ríkisskattstjóri beiðninni. Benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt erindi kæranda og gögnum sem því fylgdu væri krafist lækkunar tekjuskattsstofns vegna galla á fasteign sem kærandi hefði keypt fyrir 19.200.000 kr. á árinu 2006 og selt fyrir 13.800.000 kr. á árinu 2012, sbr. m.a. matgerð dómskvadds matsmanns frá maí 2010 vegna umrædds húsnæðis. Ríkisskattstjóri ítrekaði áður fram komin sjónarmið í kæruúrskurði þess efnis að heimild til lækkunar tekjuskattsstofns samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 væri bundin við tjón á eignum. Yrði að telja að óbeinn kostnaður sem kynni að falla til kæmi ekki til álita sem eignatjón í því sambandi. Þá væri ljóst að kostnaður fasteignaeigenda vegna nauðsynlegs viðhalds og endurbóta á fasteign, sem væri úr sér gengin vegna aldurs, gæti ekki talist til eignatjóns í framangreindum skilningi og félli því utan ívilnunarheimildar ákvæðisins. Til viðbótar þætti ljóst að tap skattaðila vegna sölu á íbúðarhúsnæði yrði vart skoðað sem eignatjón í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, jafnvel þótt gallar hefðu komið í ljós í vatnslögnum íbúðarhúsnæðis. Þá hefðu engin gögn verið lögð fram um kostnað kæranda á árinu 2015 vegna eignatjóns. Með vísan til framangreinds væru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 5. október 2016, og væri erindi kæranda því synjað.

II.

Með kæru, sem móttekin var hjá yfirskattanefnd 3. febrúar 2017, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 5. október 2016, til yfirskattanefndar. Fer kærandi fram á endurskoðun hins kærða úrskurðar sem sé rangur og órökstuddur. Kæru kæranda fylgja ýmis gögn, m.a. bréf kæranda til Sjóvár-Almennra trygginga hf., dags. 30. maí 2009, úrskurður Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum í máli kæranda og Sjóvár-Almennra trygginga hf., ljósrit af niðurstöðu hitamyndatöku að S, dags. 8. september 2009, ljósrit af kaupsamningum um S, dags. 12. maí 2006 og 7. desember 2012, matsgerð frá maí 2010, verðmöt þriggja fasteignasala frá árinu 2011 og ljósmyndir af íbúð kæranda að S.

III.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2017, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 2. mars 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með tölvupósti þann 20. mars 2017 hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Tölvupóstinum fylgdu gögn varðandi meðferð mála kæranda hjá umboðsmanni skuldara.

IV.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt kæruúrskurði, dags. 5. október 2016, að hafna beiðni kæranda um lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2016 vegna eignatjóns, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kemur fram í kæru kæranda til yfirskattanefndar að hann telji úrskurð ríkisskattstjóra rangan og niðurstöðu embættisins órökstudda. Lýtur krafa kæranda að því að honum verði ákvörðuð ívilnun gjaldárið 2016.

Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2016 nam tekjuskatts- og útsvarsstofn hans 930.711 kr. Tekjuskatts- og útsvarsstofn fyrrverandi eiginkonu kæranda nam 837.546 kr. Að teknu tilliti til persónuafsláttar, sbr. A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, kom hvorki til greiðslu tekjuskatts né útsvars hjá kæranda gjaldárið 2016. Óráðstafaður persónuafsláttur kæranda, sem féll niður, nam 262.926 kr. Ekki kom til neinnar skerðingar á barnabótum kæranda og eiginkonu hans þar sem tekjuskattsstofn til útreiknings barnabóta var undir því marki sem hefur áhrif á bætur þessar, sbr. 4. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003.

Eins og fyrr greinir lýtur krafa kæranda að því að honum verði ákvörðuð ívilnun umrætt gjaldár, sbr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Heimildir samkvæmt ákvæðum 65. gr. laga nr. 90/2003 lúta samkvæmt orðanna hljóðan að lækkun tekjuskattsstofns. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, skal útsvarsstofn lækka um sömu fjárhæð og ríkisskattstjóri ákveður á grundvelli 65. gr. laga nr. 90/2003. Eins og fyrr greinir ber kærandi hvorki tekjuskatt né útsvar gjaldárið 2016. Lækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns hefur því enga skattalega þýðingu fyrir kæranda, að því er séð verður, enda fellur óráðstafaður persónuafsláttur niður, sbr. niðurlagsákvæði 2. mgr. A-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt framansögðu er krafa kæranda í máli þessu tilefnislaus. Er henni vísað frá yfirskattanefnd af þeim sökum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja