Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Verðlítill smávarningur
  • Álag

Úrskurður nr. 951/1993

Virðisaukaskattur 1990

Lög nr. 50/1988, 16. gr. 1. mgr. og 3. mgr. 1. og 3. tölul.   Reglugerð nr. 530/1989, 1. gr. 5. tölul.  

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. júlí 1992, hefur umboðsmaður kæranda mótmælt lækkun skattstjóra á innskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum kæranda á árinu 1990. Um er að ræða innskatt samtals að fjárhæð 29.397 kr. Alls lækkaði skattstjóri innskatt kæranda um 268.212 kr., sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 20. maí 1992, en þar af hafði kærandi í bréfi til skattstjóra, dags. 11. maí 1992, fallist á lækkun um 239.049 kr. Þá er krafist niðurfellingar álags á offærðan innskatt.

II.

Nánar tiltekið eru kæruatriði í máli þessu sem hér segir:

1. ...

2. Skattstjóri hafnaði innskatti vegna fskj. nr. 4074 og 5797, sem eru vegna kaupa á útvarpstækjum, á þeirri forsendu að útvarpstæki teldust ekki rekstraraðföng skv. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Umboðsmaður kæranda greinir frá því í kæru að umrædd útvarpstæki séu höfð í vinnslusal kæranda.

3. Skattstjóri hafnaði innskatti vegna fskj. nr. 4356, sem er vegna kaupa á 24 kaffibollum, 6 kaffibollum ásamt undirskálum, 6 kökudiskum, einni rjómakönnu og einni smjörkönnu, á þeirri forsendu að um væri að ræða kostnað við kaffistofu sem félli undir ákvæði 1. tl. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Í svarbréfi og kæru til skattstjóra og í kæru til yfirskattanefndar kveður umboðsmaður kæranda hér vera um að ræða leirtau merkt kæranda og gefið viðskiptavinum, einkum til skipa, og því smávarningur notaður í auglýsingaskyni í skilningi 5. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 530/1989.

III.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 1992, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda gert svofelldar kröfur og athugasemdir í málinu:

„Ekki verður séð að kaup félagsins á þremur útvarpstækjum á einu og sama almanaksárinu geti talist nauðsynleg til að afla tekna félagsins, tryggja þær eða halda þeim við og er því ekki um að ræða aðföng sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt framansögðu telur ríkisskattstjóri að hér sé um að ræða aðföng sem varða hlunnindi til eigenda eða starfsmanna og af þeim sökum óheimilt að telja virðisaukaskatt af þeim til innskatts sbr. 3. tölul. 3. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga sbr. og 3. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt.

Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á að umrætt leirtau geti talist smávarningur sem bersýnilega sé ætlaður til notkunar í auglýsingaskyni sbr. 5. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 530/1989 sbr. nú 5. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt. Með verðlitlum smávarningi sem bersýnilega er ætlaður til notkunar í auglýsingaskyni er átt við vörur sem eru áberandi hátt merktar með nafni eða vörumerki fyrirtækis t.d. pennar, öskubakkar o.s.frv. þannig að af þeirri ástæðu geta þær ekki lengur verið taldar söluvarningur.

Að öðru leyti vísar ríkisskattstjóri til forsendna skattstjóra fyrir hinum kærða úrskurði.“

IV.

Um 1. lið: ...

Um 2. lið: Skattstjóri hafnaði frádrætti virðisaukaskatts vegna kaupa fjögurra útvarpstækja á þeirri forsendu að „útvarpstæki teljast ekki vera rekstraraðföng“, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 20. maí 1992. Í kæruúrskurði tók skattstjóri fram að „kaup félagsins á útvarpstæki í vinnslusal er óheimilt að telja til innskatts“ og rakti skattstjóri í því sambandi ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Eigi eru þessar ályktanir skattstjóra rökstuddar með þeim hætti sem tilskilið er í lögum. Í kröfugerð ríkisskattstjóra um þetta atriði er einnig dregið í efa, með vísan til fjölda tækjanna, að um sé að ræða rekstrarkostnað kæranda. Sé þannig ekki um að ræða aðföng kæranda í skilningi 1. mgr. 16. gr. laganna. Engu að síður virðist ríkisskattstjóri telja umrædd kaup falla undir ákvæði 3. mgr. 16. gr. laganna, er fjallar um innkaup rekstraraðfanga er þó koma eigi til greina við uppgjör virðisaukaskatts. Að virtri málsmeðferð skattstjóra og með vísan til skýringa kæranda er fallist á kröfu hans að því er þennan kærulið varðar.

Um 3. lið: Eftir athugun á bókhaldi kæranda boðaði skattstjóri honum niðurfellingu frádráttar virðisaukaskatts vegna umræddra kaupa á þeirri forsendu að um væri að ræða kostnað við kaffistofu, sbr. 1. tl. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Að fengnum skýringum tilkynnti skattstjóri um niðurfellingu innskatts með almennri tilvísun til málsgreinarinnar í heild. Fengu skýringar kæranda þannig enga viðhlítandi úrlausn. Af kæruúrskurði skattstjóra og kröfugerð ríkisskattstjóra verður ekki annað ráðið en því sé látið ómótmælt að leirtauið hafi verið keypt til gjafa til viðskiptavina, en innskattur komi engu að síður ekki til greina þar sem um of verðmikla muni sé að ræða til að þeir geti fallið undir ákvæði 2. ml. 5. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 530/1989, um frádrátt virðisaukaskatts. Ekki er í reglugerð þessari tilgreind fjárhæð til viðmiðunar um það hvenær hlutur telst verðlítill smávarningur. Um er að ræða 24 kaffibolla og 6 manna kaffistell. Að því er varðar kaffistellið þykir bera að líta til þess í heild í þessu sambandi. Kaupverð þess nam 5.213 kr. með virðisaukaskatti. Verður það ekki talið verðlítill smávarningur í skilningi reglugerðarákvæðisins. Kaupverð hvers einstaks hinna 24 kaffibolla var 343 kr. með virðisaukaskatti. Verður að telja þá fjárhæð falla innan ramma reglugerðarákvæðisins. Eins og mál þetta liggur fyrir yfirskattanefnd, þykir bera að taka kröfu kæranda til greina vegna umræddra kaffibolla.

Um 4. lið: Ekkert er fram komið af hálfu kæranda sem gefur tilefni til að fella niður álag vegna offærðs innskatts á árinu 1990. Er kröfu hans þar að lútandi því hafnað.

Það athugist að er skattstjóri hófst handa með mál þetta, lá fyrir honum skattframtal kæranda árið 1991 ásamt ársreikningi fyrir árið 1990. Ekki verður séð af málsgögnum að skattstjóri hafi hækkað rekstrarkostnað kæranda samkvæmt ársreikningnum um virðisaukaskatt sem skattstjóri taldi ekki geta talist til innskatts.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Innskattur kæranda á árinu 1990 hækki um samtals 8.198 kr. og álag lækki samsvarandi.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja