Úrskurður yfirskattanefndar

  • Óvenjuleg skipti í fjármálum
  • Söluhagnaður

Úrskurður nr. 193/2010

Gjaldár 2004

Lög nr. 90/2003, 13. gr., 57. gr. 1. mgr.  

Kærandi, sem var eigandi meiri hluta hlutafjár í H ehf., seldi félaginu fasteign í árslok 2003 við verði sem var rúmlega helmingi lægra en fasteignamatsverð eignarinnar á sama tíma. Fyrir lá að í október 2005 var fasteignin seld ótengdum aðila fyrir umtalsvert hærri fjárhæð en nam fasteignamatsverði í árslok 2004. Fallist var á með skattstjóra að viðskipti H ehf. við kæranda og tengda aðila á árinu 2003 hefðu verið verulega frábrugðin því sem almennt gerðist í viðskiptum óskyldra aðila og að ákvörðun söluverðs fasteignarinnar í viðskiptunum hefði fyrst og fremst helgast af skattalegum hagsmunum seljenda, þ.e. að komast hjá skattlagningu söluhagnaðar vegna framsals fasteignarinnar til H ehf. Var talið að skattstjóra hefði af þeim sökum verið heimilt að leiðrétta skattskil seljenda eignarinnar og hækka fjárhæð söluhagnaðar til samræmis við mat sitt á eðlilegu gangverði eignarinnar á umræddum tíma.

I.

Með kæru, dags. 8. maí 2009, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 10. febrúar 2009, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2004. Með úrskurðinum hækkaði skattstjóri tilfærðan söluhagnað vegna sölu fasteignar að S í Kópavogi í skattskilum kæranda gjaldárið 2004 úr 70.621 kr. í 7.089.333 kr. eða um 7.018.712 kr. á þeim grundvelli að kærandi hefði selt H ehf. eignarhlut sinn í fasteigninni á óeðlilega lágu verði og að um væri að ræða óvenjuleg skipti í fjármálum í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Leiddi sú breyting til þess að hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri í reit 62 í skattframtali kæranda árið 2004 hækkuðu úr 1.002.118 kr. í 8.020.830 kr. Við þá hækkun skattstofna kæranda sem af breytingunni leiddi bætti skattstjóri 25% álagi að fjárhæð 1.754.678 kr., sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi.

II.

Málavextir eru þeir að í rekstrarskýrslu (RSK 4.11) með skattframtali kæranda árið 2004 var gerð grein fyrir rekstrartekjum af útleigu atvinnuhúsnæðis við S í Kópavogi á árinu 2003. Í eignaskrá (RSK 4.01) með skattframtalinu kom fram að kærandi hefði selt eignarhlut sinn í fasteigninni fyrir 6.000.000 kr. á árinu 2003. Bókfært verð var tilgreint 5.929.379 kr. Var gerð grein fyrir útreikningi söluhagnaðar að fjárhæð 70.621 kr. og var sú fjárhæð færð til tekna í rekstrarskýrslu, sbr. reit 1050.

Í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf skattstjóra til kæranda, dags. 28. mars 2007, sbr. ítrekun með bréfi, dags. 30. ágúst 2007, og 7. ágúst 2008, sbr. ítrekun með bréfi, dags. 10. september 2008, þar sem skattstjóri spurðist fyrir um sölu kæranda á eignarhlut í fasteigninni til H ehf. á árinu 2003 og skoraði á kæranda að gera grein fyrir ástæðum að baki sölu fasteignarinnar og ákvörðun söluverðs í viðskiptunum, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 11. september 2007 og 15. október 2008, boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 25. nóvember 2008, endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 2004 þar sem fyrirhugað væri að hækka tilfærðan söluhagnað vegna sölu á eignarhlut kæranda í fasteigninni við S úr 70.621 kr. í 7.089.333 kr. Þá væri fyrirhugað að bæta 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda gjaldárið 2004 sem af þeirri breytingu leiddi, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda var hinni fyrirhuguðu endurákvörðun mótmælt með bréfi, dags. 19. desember 2008. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 10. febrúar 2009, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtali kæranda árið 2004 í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 2004 til samræmis að viðbættu 25% álagi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Nam fjárhæð álagsins 1.754.678 kr.

III.

Forsendur skattstjóra fyrir hinum kærðu breytingum á skattframtali kæranda árið 2004 voru þær, sbr. boðunarbréf skattstjóra, dags. 25. nóvember 2008, og úrskurð um endurákvörðun, dags. 10. febrúar 2009, að fyrrgreind viðskipti kæranda og H ehf. með fasteignina að S yrðu að teljast óvenjuleg skipti í fjármálum í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, enda hefði söluverð á eignarhluta kæranda í fasteigninni verið óeðlilega lágt í greindum viðskiptum. Benti skattstjóri á í því sambandi að kærandi væri eigandi 51% hlutafjár í H ehf., en hlutafé félagsins væri að öðru leyti í eigu B, og að svo virtist sem tilgangur með hinni afbrigðilega lágu verðlagningu fasteignarinnar í viðskiptunum hefði verið sá að komast hjá skattlagningu söluhagnaðar í hendi kæranda. Til stuðnings því að umsamið söluverð fasteignarinnar hefði verið óeðlilega lágt í viðskiptunum greindi skattstjóri frá því að um hefði verið að ræða sölu kæranda, B og C ehf. á fasteigninni til H ehf. fyrir samtals 23.658.691 kr., þ.e. sölu á 25% eignarhlut kæranda í fasteigninni, 25% eignarhlut B og 50% eignarhlut C ehf., en síðastnefnt einkahlutafélag væri að öllu leyti í eigu kæranda, B og eiginkonu kæranda. Skráð fasteignamat fasteignarinnar hefði numið 49.269.000 kr. í árslok 2002 og 51.335.000 kr. í árslok 2003 og því ljóst að söluverð eignarinnar í viðskiptum aðila hinn 31. desember 2003 hefði einungis numið um 46%-48% af fasteignamatsverði eignarinnar á sama tíma. Fasteignamati væri ætlað að endurspegla markaðsverð fasteigna hverju sinni, en ljóst væri þó að á árunum 2003-2006 hefði markaðsverð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu almennt verið nokkru hærra en skráð fasteignamatsverð. Þá lægi fyrir að við sölu H ehf. á fasteigninni til óskylds aðila tæpum tveimur árum síðar eða þann 19. október 2005 hefði söluverð fasteignarinnar verið 92.500.000 kr. eða um 59,93% hærra en skráð fasteignamatsverð í árslok 2004 sem numið hefði 57.838.000 kr. Telja yrði því að viðskipti kæranda og H ehf. væru verulega frábrugðin því sem almennt gerðist í slíkum viðskiptum með tilliti til verðlagningar hinnar seldu fasteignar þar sem H ehf. hefðu greitt mun lægra verð fyrir fasteignina en næmi markaðsverðmæti (gangverði) hennar á sama tíma. Svo virtist sem tilgangur að baki hinu lága verði hefði verið sá að komast hjá skattlagningu söluhagnaðar, enda hefði bókfært verð 25% eignarhluta kæranda í skattframtali hans árið 2004 numið 5.929.379 kr. og söluverð þannig ákvarðað til samræmis eða 6.000.000 kr. Kvaðst skattstjóri telja rétt við ákvörðun söluhagnaðar að miða söluverð fasteignarinnar við skráð fasteignamatsverð hennar í árslok 2003 eða 51.335.000 kr. Hækkun söluverðs yrði því alls 27.676.309 kr. og miðað við 25,36% hlut kæranda í söluverði yrði hækkun söluverðs í hans hendi 7.018.712 kr. Tilfærður söluhagnaður kæranda yrði því hækkaður um sömu fjárhæð, en um væri að ræða skattskyldar tekjur samkvæmt 1. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 90/2003. Til stuðnings álagsbeitingu samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 tók skattstjóri fram að fullt tilefni væri til beitingar 25% álags þar sem um væri að ræða óvenjuleg viðskipti milli tengdra aðila sem gerð hefðu verið með það fyrir augum að komast hjá skattlagningu söluhagnaðar í hendi kæranda. Í úrskurði skattstjóra um endurákvörðun kom fram að fjárhæð álags yrði 1.754.678 kr.

IV.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 8. maí 2009, kemur fram að kærandi hafi ekki átt nokkurn þátt í ákvörðun söluverðs fasteignarinnar við S í þeim viðskiptum sem málið varðar. Hafi ákvörðun um söluverðið verið tekin á skrifstofu umboðsmanns kæranda, þ.e. endurskoðunarskrifstofu, og ákvæði 57. gr. laga nr. 90/2003 geti því ekki átt við í málinu. Þá er bent á að ekki hefði komið til neinna skattgreiðslna ef kærandi hefði farið þá leið að stofna einkahlutafélag um fasteignina við S, sbr. 56. gr. laga nr. 90/2003, og í kjölfarið sameinað félagið H ehf. Sú túlkun skattstjóra, að heimfæra umrædd viðskipti undir 57. gr. laga nr. 90/2003, sé því afar þröng. Eru ítrekaðar þær skýringar kæranda á tilgangi að baki sölu fasteignarinnar sem fram komu við meðferð málsins á skattstjórastigi og lutu að því að salan hefði verið gerð til þess að einfalda rekstur félaga í eigu kæranda með því að „hafa eitt félag um fasteignir og tæki og önnur um rekstrarþættina“, eins og segir í kærunni. Þannig sé rekstur kæranda nú á vegum fjögurra félaga sem öll séu með skráð heimilisfang að K. Þar sem um „tæknilegt atriði“ sé að ræða sé þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur niður.

V.

Með bréfi, dags. 3. júlí 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. júlí 2009, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Ágreiningur í máli þessu varðar þá ákvörðun skattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 10. febrúar 2009, að hækka skattskyldan söluhagnað vegna sölu fasteignar við S í Kópavogi til H ehf. í skattframtali kæranda árið 2004 úr 70.621 kr. í 7.089.333 kr. Byggði skattstjóri ákvörðun sína á því að svo hefði samist um söluverð fasteignarinnar með seljendum, þ.e. kæranda, B og C ehf., og kaupanda, þ.e. H ehf., að ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. áður ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um sama efni, um óvenjuleg skipti í fjármálum, ættu við, enda hefði söluverð eignarinnar ekki verið í samræmi við raunverulegt markaðsverð. Við þá hækkun skattstofna kæranda gjaldárið 2004, sem leiddi af þessari breytingu skattstjóra á skattframtalinu, bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda er þess krafist að breytingum skattstjóra verði hnekkt.

Fyrir liggur að í eignaskrá (RSK 4.01) með skattframtali kæranda árið 2004 var greint frá sölu kæranda á eignarhlut sínum í fasteigninni við S til H ehf. fyrir 6.000.000 kr. og gerð grein fyrir útreikningi söluhagnaðar að fjárhæð 70.621 kr. Með bréfi til H ehf., dags. 28. febrúar 2007, skoraði skattstjóri á félagið að leggja fram afrit af kaupsamningi vegna kaupa fasteignarinnar. Í svarbréfi H ehf., dags. 9. mars 2007, kom fram að félagið hefði keypt fasteignina í árslok 2003. Bréfinu fylgdu ljósrit af tveimur kaupsamningum, dags. 31. desember 2003 og 24. ágúst 2004. Varðaði fyrri samningurinn sölu C ehf. á 50% eignarhlut í fasteigninni til H ehf. fyrir 11.658.691 kr. og síðari samningurinn sölu kæranda og B á 50% eignarhlut í húseigninni til H ehf. fyrir 12.000.000 kr. Samkvæmt hinum fyrri kaupsamningi skyldi kaupverð eignarhlutans greitt með yfirtöku tilgreindra lána hjá Landsbanka Íslands hf. að eftirstöðvum alls 96.930.184 kr. og kom fram að mismunur á söluverði og yfirtökuverði lána 85.271.493 kr. yrði „viðskiptafærður í viðskiptareikning seljanda hjá kaupanda og gengur til uppgjörs á öðrum samningum milli aðila“, eins og sagði í samningnum. Samkvæmt hinum síðari samningi skyldi kaupverð hins selda eignarhluta greiðast „með færslu í viðskiptafærður í viðskiptareikning seljanda hjá kaupanda“ (sic) og ganga til uppgjörs á öðrum samningum milli aðila. Í báðum kaupsamningunum kom fram að afhending eignarinnar hefði farið fram þann 31. desember 2003. Hefur skattstjóri lagt til grundvallar að sala fasteignarinnar hafi að öllu leyti farið fram á árinu 2003, svo sem kærandi miðaði sjálfur við í skattskilum sínum, og hafa engar athugasemdir verið gerðar af því tilefni af hálfu kæranda.

Eins og fram er komið taldi skattstjóri að umrædd viðskipti með fasteignina við S væru verulega frábrugðin því sem almennt gerðist í slíkum viðskiptum með tilliti til söluverðs fasteignarinnar þar sem sú fjárhæð, þ.e. 23.658.691 kr. samkvæmt því sem hér að framan greinir, væri ekki í samræmi við raunverulegt markaðsverð. Í boðunarbréfi sínu til kæranda, dags. 25. nóvember 2008, vísaði skattstjóri í því sambandi til upplýsinga um fasteignamatsverð eignarinnar í árslok 2002 og 2003, þ.e. 49.269.000 kr. í árslok 2002 og 51.335.000 kr. í árslok 2003, og upplýsinga um söluverð eignarinnar við sölu hennar þann 19. október 2005, en þá hefði eignin verið seld óskyldum þriðja aðila, þ.e. M ehf., fyrir 92.500.000 kr., sbr. fyrirliggjandi kaupsamning, dags. 19. október 2005. Á grundvelli þessara upplýsinga lagði skattstjóri mat á eðlilegt söluverð fasteignarinnar og taldi að ákvarða bæri söluverðið til samræmis við fasteignamatsverð eignarinnar í árslok 2003 eða 51.335.000 kr. Ákvarðaðist hlutur kæranda í söluverði fasteignarinnar 13.018.556 kr. miðað við 25,36% hlutdeild hans í söluverði samkvæmt fyrrgreindum kaupsamningum um eignina. Að teknu tilliti til bókfærðs verðs eignarhlutar kæranda í S í ársbyrjun 2003 eða 5.929.379 kr. reiknaðist skattskyldur söluhagnaður kæranda því 7.089.177 kr., en varð í raun 7.089.333 kr. í meðförum skattstjóra. Lagði skattstjóri til grundvallar að um væri að ræða skattskyldar tekjur kæranda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga, svo sem kærandi miðaði sjálfur við í skattskilum sínum árið 2004.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, sem skattstjóri taldi eiga við í tilviki kæranda, sbr. áður samhljóða ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, hljóðar orðrétt svo:

„Ef skattaðilar semja um skipti sín í fjármálum á hátt sem er verulega frábrugðinn því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum skulu verðmæti, sem án slíkra samninga hefðu runnið til annars skattaðilans en gera það ekki vegna samningsins, teljast honum til tekna.“

Samhljóða ákvæði var í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Það ákvæði var upphaflega lögtekið með 15. gr. laga nr. 30/1971, um breyting á lögum nr. 90/1965, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í athugasemdum með 15. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 30/1971, er að finna nokkrar skýringar á þessu nýmæli. Bersýnilegt er að kjarni ákvæðisins eru samningar milli einstaklinga eða félaga, sem tengdir eru sifjaréttarlega eða fjárhagslega, er gerðir eru í sniðgönguskyni. Á ákvæðið hefur reynt í dómum Hæstaréttar Íslands, sbr. dóma réttarins frá 30. janúar 1997 í málinu nr. 3/1997 (H 1997:385), 13. febrúar 1997 í málinu nr. 88/1996 (H 1997:602), 22. janúar 1998 í málinu nr. 456/1997 (H 1998:268), 3. september 2002 í málinu nr. 316/2002 (H 2002:2631) og 9. febrúar 2006 í málinu nr. 321/2005 (H 2006:519). Þá reyndi á beitingu ákvæðisins í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. febrúar 1998 í málinu nr. Y-10/1997 (I. Guðmundsson ehf. gegn Tollstjóranum í Reykjavík).

Eins og áður er rakið byggði skattstjóri á því að þau viðskipti kæranda og H ehf., sem í málinu greinir, féllu undir ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 með því að umrætt einkahlutafélag hefði greitt mun lægra verð fyrir fasteignina við S en eðlilegt hefði verið. Samningskjör í viðskiptunum væru þannig verulega frábrugðin eðlilegum markaðskjörum. Taldi skattstjóri að svo hefði ekki samist nema vegna eignatengsla seljenda og kaupanda, þ.e. kæranda, B og C ehf. annars vegar og H ehf. hins vegar, og að tilgangur með hinum afbrigðilegu kjörum hefði verið sá að komast hjá skattlagningu söluhagnaðar. Ekki er um það að ræða að skattstjóri hafi alfarið litið framhjá viðskiptunum í skattalegu tilliti, heldur lagði skattstjóri mat á hver væru eðlileg kjör í umræddum viðskiptum og leiðrétti skattskil kæranda gjaldárið 2004 til samræmis við það, þ.e. hækkaði söluverð fasteignarinnar sem nam mismun á tilfærðu söluverði, sem skattstjóri mat afbrigðilega lágt, og ætluðu gangverði eignarinnar. Telja verður að í 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 felist heimild til slíkrar skattalegrar leiðréttingar á afbrigðilegum samningskjörum þegar um er að ræða viðskipti milli aðila, sem tengdir eru sifjaréttarlega eða fjárhagslega, enda verða ákvæði málsgreinarinnar ekki túlkuð með öðrum hætti en að þau taki til skipta skattaðila í fjármálum í víðtækum skilningi, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar Íslands frá 3. september 2002 og úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. febrúar 1998. Hefur og verið byggt á slíkum skilningi í úrskurðaframkvæmd, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 264/2002 sem birtur er á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is). Skilyrði er þó að kjör í viðskiptunum séu verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum, sbr. orðalag ákvæðisins. Þá er ljóst að það ber undir skattyfirvöld að sýna fram á með óyggjandi hætti að svo sé, sbr. hliðstæð sjónarmið sem byggt hefur verið á í úrskurðaframkvæmd varðandi beitingu 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 þegar um er að ræða sölu eigna við óeðlilegu verði.

Óumdeilt er í máli þessu að stjórnunar- og eignatengsl eru á milli kæranda og H ehf. með því að kærandi er ásamt B eigandi alls hlutafjár í H ehf., en samkvæmt því sem fram er komið er kærandi eigandi 51% hlutafjár í félaginu og B eigandi 49% hlutafjárins. Þá er komið fram að kærandi var ásamt maka sínum eigandi alls 52,14% hlutafjár í C ehf., en hlutafé þess félags var að öðru leyti í eigu B. Með bréfi sínu til H ehf., dags. 28. febrúar 2007, fór skattstjóri fram á að félagið upplýsti um forsendur fyrir ákvörðun söluverðs S í hinum umdeildu viðskiptum. Í svarbréfi umboðsmanns félagsins, dags. 9. mars 2007, kom fram um ákvörðun söluverðsins að aðilar hefðu komist að samkomulagi um verð sem grundvallast hefði á þeirri leigu sem seljendur hefðu verið tilbúnir til þess að greiða fyrir leigu á fasteigninni. Ekki var gerð nánari grein fyrir þessu í bréfinu, en þess getið að við sölu H ehf. á fasteigninni til M ehf. í árslok 2005 hefði söluverð tekið mið af markaðsverði eignarinnar. Í kjölfar þessa óskaði skattstjóri eftir skýringum kæranda á ákvörðun söluverðs fasteignarinnar með bréfi, dags. 28. mars 2007, sbr. ítrekun í bréfi, dags. 30. ágúst 2007. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda og B, dags. 11. september 2007, kom eftirfarandi fram í þessu sambandi:

„Varðandi fyrirspurn yðar þá varð það að samkomulagi að söluverð eignarhluta umbjóðenda minna í S væri ásættanlegt verð, en munnlegur samningur var gerður þess efnis að ef verðið hlyti ekki samþykki skattyfirvalda þá fengi seljandi kauprétti í hluta húsnæðis kaupanda á K, kaupréttur þessi væri gildur svo lengi sem hægt væri að breyta framtölum umbjóðenda minna og væri afturvirkur til ársins 2005.“

Í bréfi þessu kom ekkert fram um að söluverð fasteignarinnar hefði að einhverju leyti staðið í tengslum við leigukjör vegna útleigu eignarinnar til seljenda. Loks skal tekið fram að í bréfi umboðsmanns kæranda og B til skattstjóra, dags. 15. október 2008, var þess getið að við verðlagningu fasteignarinnar í umræddum viðskiptum hefðu seljendur staðið frammi fyrir tveimur kostum, þ.e. annars vegar að selja fasteignina á ásættanlegu verði samkvæmt mati umboðsmannsins, sem hefði í för með sér að seljendur eignarinnar fengju lágmarksverð fyrir eignarhlut sinn og þar með lágmarksfjárhæð í söluhagnað, og hins vegar að selja eignina á markaðsverði sem á greindum tíma hefði verið ívið hærra. Ef síðari leiðin hefði verið farin hefði verið unnt að fresta skattlagningu söluhagnaðar um tvenn áramót og færa niður á móti fjárfestingu í fasteign sem H ehf. hefði byggt við K, „leigja hann H ehf. og eða stofna einkahlutafélag upp úr rekstri sínum og sameina það H ehf.“, en stefna kæranda og B hefði á umræddum tíma verið sú að einfalda rekstur sinn.

Fyrir liggur að kærandi og sameigendur hans að fasteigninni við S seldu H ehf. fasteignina í árslok 2003 við verði sem var rúmlega helmingi lægra en fasteignamatsverð eignarinnar á sama tíma, en óumdeilt er að kærandi og B réðu fyrir einkahlutafélaginu í krafti eignaraðildar sinnar. Eins og hér að framan greinir hafa skýringar kæranda á því hvernig söluverð var ákvarðað verið á reiki, en samkvæmt þeim skýringum sem að endingu komu fram í bréfi umboðsmanns kæranda og B til skattstjóra, dags. 15. október 2008, verður frekast ráðið að skattalegar ástæður hafi búið að baki verðlagningu fasteignarinnar í viðskiptunum. Verður raunar tæpast séð að ágreiningur sé um það í málinu að söluverð fasteignarinnar í viðskiptunum hafi verið verulega undir markaðsverðmæti eignarinnar á greindum tíma, svo sem gögn málsins bera með sér, sbr. og kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 8. maí 2009, þar sem engar athugasemdir eru gerðar í tilefni af forsendum skattstjóra þar að lútandi. Er og komið fram í málinu að fasteignin var seld ótengdum aðila, þ.e. M ehf., fyrir 92.500.000 kr. þann 19. október 2005, þ.e. fyrir umtalsvert hærri fjárhæð en nam fasteignamatsverði eignarinnar í árslok 2004 57.838.000 kr.

Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, og að virtum gögnum málsins að öðru leyti, þar á meðal fram komnum skýringum kæranda sjálfs, verður að taka undir með skattstjóra að umrædd viðskipti H ehf. við kæranda og tengda aðila hafi verið verulega frábrugðin því sem almennt gerist í viðskiptum, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, og er engin ástæða til að ætla að til þeirra hefði komið milli óskyldra aðila. Verður ekki annað séð en að ákvörðun söluverðs fasteignarinnar við S í viðskiptunum með þeim hætti sem um ræðir hafi fyrst og fremst helgast af skattalegum hagsmunum seljenda eignarinnar, þ.e. að komast hjá skattlagningu söluhagnaðar vegna framsals fasteignarinnar til H ehf. Var skattstjóra því heimilt að leiðrétta skattskil seljenda fasteignarinnar við S og hækka fjárhæð söluhagnaðar vegna sölu eignarinnar til samræmis við mat sitt á eðlilegu gangverði (markaðsverðmæti) hennar á umræddum tíma. Vangaveltur umboðsmanns kæranda í kæru til yfirskattanefndar, er lúta að möguleikum til ráðstafana á grundvelli 56. gr. laga nr. 90/2003 vegna umræddrar yfirfærslu fasteignarinnar til H ehf. á árinu 2003, þykja ekki geta skipt neinu máli í þessu sambandi, enda kom ekki til neinna slíkra ráðstafana af hálfu kæranda.

Eins og fram er komið lagði skattstjóri skráð fasteignamatsverð S í árslok 2003 til grundvallar mati sínu á gangverði fasteignarinnar. Eins og málið liggur fyrir, m.a. í ljósi þess hvernig skýringum kæranda var farið, verður ekki talið að neitt hafi staðið í vegi fyrir því að skattstjóri byggði á fasteignamatsverði í þessu sambandi, sbr. m.a. 27. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna. Tekið skal fram að af hálfu kæranda hefur því út af fyrir sig ekki verið haldið fram að fasteignamatsverð eignarinnar hafi verið of hátt árið 2003. Þykja engin efni til annars en að leggja mat skattstjóra til grundvallar.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja