Úrskurður yfirskattanefndar

  • Olíugjald
  • Sekt

Úrskurður nr. 371/2010

Lög nr. 87/2004, 4. gr. 3. mgr., 19. gr. 5., 6. og 8. mgr. (brl. nr. 169/2006, 8. gr.)  

Ríkisskattstjóri gerði kæranda, sem var einkahlutafélag, sekt vegna brota á reglum um olíugjald þar sem í ljós kom við sýnatöku úr eldsneytisgeymi vörubifreiðar í eigu kæranda þann 8. maí 2009 að lituð olía var notuð á bifreiðina. Þar sem kærandi þótti með fram komnum gögnum og skýringum hafa leitt að því allnokkrar líkur að lituð olía hefði verið á eldsneytistanki bifreiðarinnar þegar kærandi fékk hana afhenta frá fyrri eiganda hinn 7. maí 2009 var fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu sektar.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 6. júlí 2010, sbr. greinargerð í bréfi, dags. 8. sama mánaðar, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 7. apríl 2010, að gera kæranda sekt að fjárhæð 625.000 kr. samkvæmt 5. mgr., sbr. 6 og 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum, á þeim grundvelli að notkun litaðrar gjaldfrjálsrar olíu á ökutæki kæranda, X, hefði verið andstæð lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald. Af hálfu kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 8. maí 2009, kom í ljós við sýnatöku úr eldsneytisgeymi ökutækisins X að lituð olía hefði verið notuð á ökutækið. Kom fram í skýrslunni að ökumaður hefði greint frá því að hann hefði verið sendur af kæranda til þess að sækja bifreiðina sem kærandi hefði þá verið að kaupa af B ehf. og að hann hefði tekið 370 lítra af olíu hjá N1 við Ártúnshöfða.

Í framhaldi af fyrrnefndri skýrslu sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 6. nóvember 2009, með yfirskriftinni „Boðun sektar vegna brots á reglum um olíugjald“. Í bréfinu vísaði ríkisskattstjóri til þess að embættið hefði móttekið skýrslu, dags. 8. maí 2009, frá eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar um brot á reglum um olíugjald vegna ökutækisins X, er væri 33.200 kg að heildarþyngd. Kom fram að sýni hefði verið tekið úr eldsneytistanki bifreiðarinnar og sjónræn niðurstaða gefið til kynna að um litaða olíu væri að ræða. Sýnið hefði verið sent til Efnagreiningar Keldnaholti til athugunar og samkvæmt skýrslu þess aðila, dags. 30. júní 2009, hefði hlutfall litarefnis í olíunni verið 7,8%, en færi hlutfall litarefnis í ólitaðri olíu yfir 3% teldist olía lituð, sbr. 4. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 283/2005, um litun á gas- og díselolíu. Fylgdu umræddar skýrslur eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og Efnagreiningar bréfi ríkisskattstjóra. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, varðaði það sektum ef lituð olía væri notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og næmi sekt 1.250.000 kr. ef heildarþyngd ökutækis væri 20.001 kg og þyngri. Tók ríkisskattstjóri ákvæði 3. mgr. 4. gr. og 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 orðrétt upp í bréfinu. Í ljósi framangreinds og með vísan til 3. mgr. 4. gr., 5. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004 væri fyrirhugað að ákvarða kæranda sekt að fjárhæð 625.000 kr. Var kæranda veittur 15 daga frestur í bréfinu til að koma á framfæri athugasemdum vegna hinnar boðuðu sektarákvörðunar.

Með bréfi, dags. 15. desember 2009, mótmælti kærandi boðaðri sektarákvörðun ríkisskattstjóra. Í bréfinu kom fram að kærandi hefði keypt bifreiðina X af B ehf. þann 6. maí 2009. Degi síðar hefði maður á vegum kæranda verið sendur til Reykjavíkur til þess að sækja bifreiðina og hann hefði síðan verið stöðvaður á Kjalarnesi á leið norður með bifreiðina þann 8. maí 2009. Var vísað til meðfylgjandi afrita af ökuritaskífum bifreiðarinnar sem bæru með sér akstur bifreiðarinnar umrædda daga. Kom fram að gögn málsins bentu eindregið til þess að lituð olía hefði verið á eldsneytisgeymi bifreiðarinnar X þegar hún var keypt og brotið því verið framið á þeim tíma þegar B ehf. var skráður eigandi bifreiðarinnar, enda hefði hlutfall litaðrar olíu á eldsneytisgeyminum einungis numið 7,8%. Afar ósanngjarnt væri því að beita kæranda viðurlögum í málinu. Í 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 kæmi fram að við sérstakar aðstæður væri heimilt að lækka eða fella niður sekt og hlyti sú heimild að eiga við í máli kæranda.

Með úrskurði, dags. 7. apríl 2010, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd og ákvað kæranda sekt að fjárhæð 625.000 kr. vegna ökutækisins X. Vegna athugasemda í bréfi kæranda, dags. 15. desember 2009, tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 væri óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, önnur en dráttarvélar, námuökutæki, beltabifreiðar, bifreiðar í eigu björgunarsveita og ökutæki sem ætluð væru til sérstakra nota. Í 5. mgr. 19. gr. laganna kæmi fram að væri lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki varðaði það sektum og færi sektin eftir heildarþyngd ökutækis. Í 6. mgr. sömu lagagreinar kæmi síðan fram að skráðum eiganda ökutækis yrði gerð sekt óháð því hvort brot yrði rakið til saknæmrar háttsemi hans eður ei. Ljóst væri að lituð olía hefði verið í eldsneytistanki ökutækisins X þegar það var stöðvað, en slíkt væri óheimilt. Bæri eigandi ökutækis refsiábyrgð án tillits til þess hvort brot yrði rakið til saknæmrar háttsemi hans, þ.e. eigandi bæri hlutlæga ábyrgð. Yrði því ekki fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu sektar. Kæranda hefði því verið ákvörðuð sekt að fjárhæð 625.000 kr.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 6. júlí 2010, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 8. sama mánaðar, er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi. Eru í kærunni áréttuð þau sjónarmið sem fram komu í bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 15. desember 2009, og lutu að því að skilyrði séu til þess að fella niður sekt í málinu á grundvelli heimildar í 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 þar sem aðstæður séu sérstakar, sbr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í niðurlagi kærunnar kemur fram að verði ekki fallist á niðurfellingu sektar á þessum grundvelli sé þess krafist með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að yfirskattanefnd „upplýsi í úrskurði sínum við hvaða sérstöku aðstæður heimilt er að lækka eða fella niður sekt“ samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

IV.

Með bréfi, dags. 13. ágúst 2010, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. ágúst 2010, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 7. apríl 2010, að gera kæranda sekt að fjárhæð 625.000 kr. eftir ákvæðum 5. mgr., sbr. 6. og 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með áorðnum breytingum, fyrir að hafa notað litaða olíu á ökutækið X, sbr. skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 8. maí 2009, um brot á reglum um olíugjald, og skýrslu Efnagreiningar Keldnaholti, dags. 30. júní 2009, vegna athugunar á litarefni í olíu, en skýrslur þessar eru meðal gagna málsins. Umrætt ökutæki er vörubifreið samkvæmt skilgreiningu reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, sbr. reglugerð nr. 822/2004 um það efni. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 væri óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, önnur en tilgreind ökutæki samkvæmt 5., 7, 8. og 9. tölul. 1. mgr. lagagreinar þessarar, sbr. 1. gr. laga nr. 169/2006 og 2. gr. laga nr. 162/2007, um breyting á hinum fyrstnefndu lögum. Slíkri undanþágu væri ekki til að dreifa í tilviki kæranda og er það út af fyrir sig óumdeilt í málinu. Af hálfu kæranda er hins vegar byggt á því að skilyrði séu til að lækka eða fella niður hina umdeildu sekt á grundvelli lokamálsliðar 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004.

Tildrög málsins eru þau að eftirlitsmenn Vegagerðarinnar stöðvuðu ökutækið X á Vesturlandsvegi við Kjalarnes hinn 8. maí 2009, sbr. fyrirliggjandi skýrslu eftirlitsmanns Vegagerðarinnar, dags. sama dag, þar sem fram kemur að sýnataka úr eldsneytisgeymi ökutækisins hafi leitt í ljós að lituð olía hefði verið notuð á ökutækið. Umrædd skýrsla er undirrituð af ökumanni bifreiðarinnar X. Í skýrslunni er haft eftir ökumanninum að hann hefði verið sendur af kæranda til þess að sækja bifreiðina til B ehf., en kærandi hefði keypt bifreiðina af því félagi. Kvaðst ökumaður hafa tekið 370 lítra af olíu á bifreiðina á þjónustustöð N1 við Ártúnshöfða degi áður. Af hálfu kæranda er komið fram, sbr. m.a. bréf félagsins til ríkisskattstjóra, dags. 15. desember 2009, að kærandi hafi keypt bifreiðina X af B ehf. þann 6. maí 2009, sbr. kaupsamning og afsal, dags. sama dag, sem fylgdi bréfinu. Hafi ökumaður bifreiðarinnar X verið sendur af kæranda til Reykjavíkur til þess að sækja bifreiðina degi síðar og hafi hann tekið gjaldskylda olíu á bifreiðina sama dag, þ.e. um 370 lítra, sbr. yfirlit yfir olíuúttektir kæranda hjá N1 sem sömuleiðis fylgdi bréfi kæranda til ríkisskattstjóra. Ljóst sé samkvæmt þessu að hin litaða olía hafi verið sett á eldsneytistank bifreiðarinnar áður en kærandi eignaðist bifreiðina, enda hafi hlutfall litarefnis í olíusýni einungis numið 7,8%. Er í þessu sambandi bent á að olíutankur bifreiðarinnar taki 400 lítra.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 87/2004 skal greiða í ríkissjóð vörugjald af gas- og dísilolíu sem flokkast í tollskrárnúmer 2710.1930 og nothæf er sem eldsneyti á ökutæki. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að gjaldskyldum aðilum samkvæmt 3. gr. sömu laga sé heimilt að selja eða afhenda olíu samkvæmt 1. gr. án innheimtu olíugjalds í tilgreindum tilvikum sem talin eru upp í einstökum töluliðum málsgreinarinnar. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að skilyrði sölu eða afhendingar olíu án innheimtu olíugjalds samkvæmt 2.-9. tölul. 1. mgr. sé að í olíuna hafi verið bætt litar- og merkiefnum, sbr. 5. gr. laganna. Litaða olíu megi ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum en lýst sé í 1. mgr. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna er óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 og ökutæki samkvæmt 7., 8. og 9. tölul. 1. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðar það sektum sé lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og ræðst sektarfjárhæð af heildarþyngd ökutækis, svo sem nánar er tilgreint í ákvæðinu. Sé heildarþyngd ökutækis 20.001 kg og þyngri skal fjárhæð sektar nema 1.250.000 kr. Sektarfjárhæðina skal lækka hlutfallslega þegar fyrir liggur að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr., á tveggja ára tímabili, talið frá þeim tíma er brot liggur fyrir. Sektarfjárhæð skal að hámarki lækkuð um helming. Við sérstakar aðstæður er heimilt að lækka eða fella niður sekt samkvæmt ákvæðinu, sbr. niðurlag 5. mgr. 19. gr. laganna. Í 6. mgr. 19. gr. kemur fram að skráðum eiganda ökutækis verði gerð sekt samkvæmt 4. og 5. mgr. óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Í 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 segir að gera megi lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.

Eins og fram er komið er óumdeilt að lituð olía var notuð á ökutæki kæranda X og þannig brotið gegn fyrirmælum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004. Samkvæmt því voru lagaskilyrði til beitingar sektar samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga þessara. Til úrlausnar í málinu er því einungis hvort efni séu til að fella sektarákvörðun ríkisskattstjóra niður eða lækka sektarfjárhæð á grundvelli fyrrgreinds niðurlagsákvæðis 5. mgr. 19. gr. umræddra laga þar sem heimilað er að lækka eða fella niður sekt við sérstakar aðstæður. Kærandi þykir með fram komnum gögnum og skýringum hafa leitt að því allnokkrar líkur að lituð olía hafi verið á eldsneytistanki vörubifreiðarinnar X þegar kærandi fékk bifreiðina afhenta frá fyrri eiganda hinn 7. maí 2009. Að því virtu þykir mega fallast á með kæranda að atvik séu hér með þeim hætti að skilyrði séu til þess að fella niður sekt, sbr. fyrrgreinda heimild í 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 in fine. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað félagsins við meðferð málsins, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 50.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er felld niður. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 50.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja